Lokað þinghald kemur til álita

Þinghald var stutt í gær enda ólæti mikil og vinnufriður …
Þinghald var stutt í gær enda ólæti mikil og vinnufriður enginn. mbl.is/Ómar

Í ljósi þeirra óláta sem verið hafa í og við dómsal í Héraðsdómi Reykjavíkur í tengslum við mál ákæruvaldsins á hendur níu einstaklingum, sem ákærðir eru m.a. fyrir brot gegn Alþingi, kemur til álita að nýta heimild í lögum til að loka þinghaldinu svo friður sé tryggður. Þetta staðfestir dómstjóri.

Fjöldi fólks safnaðist saman fyrir utan dómsal 101 áður en fyrirtaka í málinu fór fram. Hiti færðist í mannskapinn þegar lögreglumenn mættu á vettvang en kallað var eftir aðstoð lögreglu og henni falið að sjá til, að ekki færu fleiri inn í dómsal en sæti eru fyrir. Það gekk eftir.

Jusu svívirðingum yfir dómara

Auðsjáanlegt var þó að „stuðningsmenn“ nímenninganna voru ekki alls kostar ánægðir með veru lögreglumanna og skipuðu þeim ítrekað með öskrum að yfirgefa húsið.

Dómþingið sjálft var stutt enda enginn vinnufriður í sal 101. Ekki aðeins voru ólæti fyrir utan salinn sem trufluðu heldur einnig inni í honum þar sem sakborningar höfðu sig sumir hverjir mikið frammi. Meðal annars jusu þeir svívirðingum yfir dómara málsins, Pétur Guðgeirsson, ákærendur og lögreglumenn.

Loka má þinghaldinu

Verði áfram truflun á þingfriði eftir lokun, s.s. vegna óviðeigandi framkomu sakborninga, má víkja mönnum úr þinghaldi, og með lögregluvaldi ef með þarf.

Helgi I. Jónsson, dómstjóri Héraðsdóms Reykjavíkur, segir að í ljósi endurtekinna óláta sé sá möguleiki fyrir hendi að loka þinghaldinu til að halda uppi þingfriði. Hann bendir einnig á, að þegar kemur að aðalmeðferð þurfi að leiða vitni fyrir dóminn, s.s. til að bera vitni gegn sakborningum, og það verði mjög erfitt fyrir þau að mæta við þessar aðstæður.  Því sé sá möguleiki fyrir hendi að loka til hlífðar fyrir vitni.

Engin ákvörðun hefur verið tekin en ljóst þykir, að ef þinghaldið fari fram fyrir luktum dyrum verði að loka dómhúsinu öllu.

Lög um meðferð sakamála

10. gr. Þinghöld skulu háð í heyranda hljóði. Dómari getur þó ákveðið, að eigin frumkvæði eða eftir kröfu ákæranda, sakbornings eða brotaþola, að þinghald fari fram fyrir luktum dyrum, að öllu leyti eða að hluta, ef það er háð utan reglulegs þingstaðar, sakborningur er yngri en 18 ára eða hann telur það annars nauðsynlegt:
   a. til hlífðar sakborningi, brotaþola, vandamanni þeirra, vitni eða öðrum sem málið varðar,
   b. vegna nauðsynjar sakbornings, brotaþola, vitnis eða annars sem málið varðar á því að halda leyndum atriðum varðandi hagsmuni í viðskiptum eða samsvarandi aðstöðu,
   c. vegna hagsmuna almennings eða öryggis ríkisins,
   d. af velsæmisástæðum,
   e. til að halda uppi þingfriði,
   f. meðan á rannsókn máls stendur og hætta þykir á sakarspjöllum ef þing væri háð fyrir opnum dyrum,
   g. meðan vitni gefur skýrslu án þess að það þurfi að skýra frá nafni sínu í heyranda hljóði, sbr. 8. mgr. 122. gr.

  • Við þingfestingu máls er dómara heimilt að ákveða í eitt skipti fyrir öll að þinghöld í málinu skuli vera lokuð, enda sé ákvörðunin færð til bókar þar sem greint skal frá því af hverri ástæðu það sé gert. Á sama hátt tekur dómari ákvörðun um lokun einstaks þinghalds. Sá sem sættir sig ekki við ákvörðun dómara getur krafist þess að hann kveði upp úrskurð um það hvort þinghöld eða einstakt þinghald skuli háð fyrir luktum dyrum.

  • Þótt þinghald sé háð í heyranda hljóði er dómara rétt að takmarka fjölda áheyrenda við þá sem rúmast á þingstað með góðu móti. Dómari getur einnig meinað þeim aðgang sem eru yngri en 15 ára eða þannig á sig komnir að návist þeirra samræmist ekki góðri reglu við þinghald eða hætta er á að nærvera þeirra valdi því að sakborningur eða vitni skýri ekki satt frá.

  • Dómara er rétt að vísa manni úr þinghaldi ef návist hans horfir til truflunar þingfriði eða framkoma hans er óviðeigandi í orði eða verki. Ef um sakborning er að ræða, fyrirsvarsmann hans, ákæranda, verjanda eða réttargæslumann skal dómari þó að jafnaði áminna hann og gefa honum kost á að bæta ráð sitt áður en af brottvísun verður. Ákvörðun dómara um að víkja manni úr þinghaldi má framfylgja með lögregluvaldi ef með þarf. Bókað skal um brottvikningu manns ef sakborningur, fyrirsvarsmaður hans eða málflytjandi á í hlut.“
Mikill mannfjöldi safnaðist saman í Héraðsdóm Reykjavíkur í gær.
Mikill mannfjöldi safnaðist saman í Héraðsdóm Reykjavíkur í gær. mbl.is/Ómar
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert