Telur Símann brotlegan

mbl.is/Heiðar

Samkeppniseftirlitið telur sennilegt, að Síminn beitt umfangsmiklum ólögmætum aðgerðum í því skyni að ná mikilvægum viðskiptavinum frá Nova með sértækum verðlækkunum og óeðlilegri notkun á trúnaðarupplýsingum um símnotkun viðskiptavina Nova. Stofnunin gerði húsleit hjá Símanum, Skiptum og Tæknivörum í apríl vegna málsins.

Þetta kemur fram í bráðabirgðaákvörðun Samkeppniseftirlitsins, sem birt var í dag. Stofnunin telur hins vegar ekki ástæðu til að beina sérstökum tilmælum til Símans í ljósi þess, að Síminn hafi lýst því yfir gagnvart Samkeppniseftirlitinu að aðgerðir gegn Nova séu hættar og að fyrirtækið muni ekki nota umræddar upplýsingar um símnotkun viðskiptavina keppinauta sinna ef eftirlitið telji að um lögbrot geti verið að ræða.

Samkeppniseftirlitið gerði húsleit hjá Skiptum, Símanum og Tæknivörum 21. apríl í tengslum við rannsókn á því hvort Síminn hefði misnotað markaðsráðandi stöðu sínu með samkeppnishamlandi aðgerðum sem einkum beindust gegn Nova.

Samkeppniseftirlitið segir, að gögn sem fundust í húsleitinni hafi leitt til þess að stofnunin hafi í dag tekið ákvörðun til bráðabirgða. Málið sé áfram til rannsóknar og lokaákvörðun í því verði tekin þegar rannsókninni lýkur.

Nova sagðist hafa orðið þess áskynja að Síminn hafi undanfarið beint sérstökum tilboðum til viðskiptavina Nova sem teljist til meiri stórnotenda en almennt gerist. Hafi Síminn hringt í viðkomandi notendur og boðið þeim nýja en óopinbera áskriftarleið. Telur Nova að um sé að ræða misnotkun á trúnaðargögnum um símnotkun sem verða til við samtengingu fjarskiptaneta Símans og Nova. Síminn hefur mótmælt því að hafa brotið gegn samkeppnislögum.

Í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins er komist að þeirri niðurstöðu að sennilegt sé að Síminn hafi gripið til umfangsmikilla ólögmætra aðgerða í því skyni að ná mikilvægum viðskiptavinum frá Nova með sértækum verðlækkunum og óeðlilegri notkun á trúnaðarupplýsingum um símnotkun viðskiptavina Nova.

Síminn útbjó lista, sem hefur að geyma sundurgreinanlegar upplýsingar um mörg þúsund viðskiptavina Nova. Samkeppniseftirlitið segir, að umræddir listar geymi ekki aðeins upplýsingar um símanúmer og nöfn viðkomandi viðskiptavina Nova heldur jafnframt kennitölur, heimilsföng og í mörgum tilvikum starfsheiti þeirra. Auk þess komi fram upplýsingar um fjölda símtala hvers og eins, lengd þeirra í mínútum eða sekúndum og lengd meðalstímtals. Á grundvelli þessara upplýsinga gat Síminn beitt sér gagnvart mikilvægum viðskiptavinum Nova.

Samkeppniseftirlitið telur sennilegt sé að um sé að ræða misnotkun Símans á markaðsráðandi stöðu sinni og brot á 11. gr. samkeppnislaga.

„Síminn hefur lýst því yfir gagnvart Samkeppniseftirlitinu að aðgerðir gegn Nova séu hættar og að fyrirtækið muni ekki nota umræddar upplýsingar um símnotkun viðskiptavina keppinauta sinna ef eftirlitið telji að um lögbrot geti verið að ræða. Er í bráðabirgðaákvörðuninni lagt til grundvallar að Síminn muni standa við þessar yfirlýsingar og ekki grípa til umræddra aðgerða meðan á málsmeðferð Samkeppniseftirlitsins stendur. Samkeppniseftirlitið beinir því hins vegar til viðskiptavina keppinauta Símans að tilkynna eftirlitinu hið fyrsta ef þeir fá tilboð frá Símanum sem virðast byggja á upplýsingum um farsímanotkun þeirra," segir í tilkynningu frá stofnuninni.

Bráðabirgðaákvörðunin í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka