Verður skýrslan kynjagreind?

Skýrslan.
Skýrslan. Ernir Eyjólfsson

Til skoðunar er að fá sérfræðinga í kynjafræðum til að lesa yfir Rannsóknarskýrslu Alþingis og leggja í kjölfarið fram tillögur að úrbótum. Atli Gíslason, þingmaður VG og formaður nefndar sem ætlað er að fara yfir skýrsluna, staðfesti þetta. Óákveðið er hvort nefndarálitið verði gefið út á bók.

Vinna við I. bindi skýrslunnar er langt komin, sem og vinna við II., III. og IV. bindi og það síðasta, VIII. bindið sem fjallar um siðferði og fjölmiðla. Vinna við V., VI og VII. bindi er hins vegar skemra á veg komin.

Níu þingmenn eiga sæti í nefndinni en sérfræðingar hennar eru Bryndís Hlöðversdóttir, deildarforseti lagadeildar Háskólans á Bifröst, dr. Ragnhildur Helgadóttir, prófessor við lagadeild Háskólans í Reykjavík og Jónatan Þórmundsson prófessor.

En hvaða vægi mun kynjafræðin fá í þessari rannsókn?

„Þetta mál er enn þá til meðferðar í nefndinni og það hefur ekki verið tekin ákvörðun um það enn þá. Ég vil ekki greina nánar frá því fyrr en nefndin er búin að ljúka umfjöllun sinni,“ segir Atli sem tekur þó undir að þáttur karllægrar hegðunar í viðskiptalífinu og menningu landsins almennt í hruninu verði tekinn til skoðunar, verði á annað borð ráðist í slíka kynjagreiningu.

Niðurstöðu að vænta í ágúst

Að sögn Atla á nefndin að skila áliti áður en haustþingið tekur til starfa í septemberbyrjun en ætlunin er að ræða tillögur nefndarmanna á þinginu. Er því miðað við skil upp úr miðbiki ágústmánaðar þannig að tími gefist til að undirbúa mögulegar lagasetningar fyrir þingið.

Nefndin hóf störf í janúar og kom 15 sinnum saman áður en skýrslan kom út 12. apríl sl. Fundað er á þriðjudögum og föstudögum. Hún hefur síðan hist 10 sinnum.

„Við áttum undirbúningsfundi þar sem við fórum yfir lagareglur og sitthvað fleira. Við fengum sérfræðinga okkar á fund hvað snertir ráðherraábyrg á Landsdómi, til að skoða ýmis álitaefni og sitthvað fleira [...] Við erum búin að fá rannsóknarnefndina fyrir [þingnefndina] í tvígang, meðal annars í upphafi strax eftir að skýrslan kom og síðan siðanefndarhópinn í tvígang.“

Gengur eftir áætlun

Atli segir vinnuna ganga vel.

„Þetta gengur eftir áætlun. Við erum að skoða hvert bindi fyrir sig og skrifa útdrætti úr því, taka út gátlista fyrir gagnrýnisatriði og fleira [...] Við stefnum að því að klára þessi bindi í júní og svo verðum við í mikilli vinnutörn frá 10. ágúst og þar á meðal er þessi ráðherraábyrgð undir. Nefndin verður líklega starfandi langleiðina út júní en síðan tökum við frí í júlí ef frí skyldi kalla þegar nefndarmenn eru að lesa og fleira. En nefndin mun ekki koma saman þá. Það er líka tekið tillit til sumarleyfa starfsmanna Alþingis [...] Um ráðherraábyrgðina hefur ekki verið tekin nein ákvörðun.“ 

Aðspurður um hvernig álitið verður samsett segir Atli að þótt enn sé mikil vinna framundan megi búast við að álitsgerðir verði settar fram sem athugasemdir við texta í skýrslunni. Kostnaður við álitsgerðina almennt liggur ekki fyrir.

Meðal þess sem nefndin skoðar er hvort tilefni sé til að vísa málum til Landsdóms vegna hugsanlegra brota embættismanna á starfsskyldu sinni í aðdraganda hrunsins.

„Við leggjum kapp á að hraða ákvörðunum um það hvort að málið fyrir Landsdóm eða ekki,“ segir Atli sem telur ótímabært að ræða þessa hlið frekar á þessu stigi.

Um þessa hlið álitsgerðarinnar segir á vef nefndarinnar:

„Í skýrslu rannsóknarnefndarinnar verður lagt mat á ábyrgð á hugsanlegum mistökum og vanrækslu stjórnvalda sem áttu þátt í hruninu. Gefi niðurstöður rannsóknarnefndarinnar tilefni til mun þingmannanefndin taka afstöðu til framgöngu ráðherra í aðdraganda hrunsins.“

Mun ekki hlaupa á milljónum

Spurður um kostnaðinn við mögulega kynjagreiningu á efni skýrslunnar segir Atli ljost að hann muni ekki hlaupa á milljónum.

„Aðalatriðið er það að þetta er einn þáttur af afar mörgum sem við erum að skoða. Við erum að skoða sérstaklega eftirlitshlutverk Alþingis. Við erum líka sérstaklega að skoða starfshætti Alþingis og óskuðum eftir skýrslu um það. Þær eru að vinna í því, Bryndís og Ragnhildur.

Við erum að einblína á ákveðin atriði þar sem þeim hefur verið falið að útvíkka. Við erum að skoða þetta algjörlega heildstætt. Síðan er okkur heimilt að taka ákvarðanir um framhaldsrannsóknir og þar hafa verið nefndir ýmis þættir eins og sparisjóðirnir, lífeyrissjóðirnir og sitthvað fleira. Við tökum ekki ákvörðun um það fyrr en við erum búin að taka afstöðu um hvert bindi fyrir sig. Þá getum við mælt fyrir um framhaldsrannsóknir. Það yrði þá ekki fyrr en að við erum búin að ljúka okkur af í heildarniðurstöðum okkar.“

Breyttir starfshættir Alþingis?

Í skýrslunni er fjallað um starfshætti Alþingis og sú gagnrýni þar sett fram að þar séu mælskubrögð sett ofar sannleiksást þess sem rökræðir.

Inntur eftir því hvort skýrslan og nefndarálitið mun í rás tímans leiða til breytinga á þinghaldinu sagðist Atli ekki vita það og bætti við: „Við tökum á þessu atriði.“

„Þetta er hörð gagnrýni á Alþingi, starfshætti þess og málatilbúnað og nefndin mun óhjákvæmilega fjalla um það og skila einhverju áliti um það. Þetta kemur mjög fram í VIII. bindinu, siðnefndarbindinu, sem við vorum að ræða í morgun.“

Lilja Mósesdóttir, Atli Gíslason og Steingrímur J. Sigfússon á þingflokksfundi …
Lilja Mósesdóttir, Atli Gíslason og Steingrímur J. Sigfússon á þingflokksfundi VG. Úr myndasafni. Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert