Erlend kona sem var flutt með þyrlu Landhelgisgæslunnar eftir bílveltu á Snæfjallaströnd upp úr hádegi í dag er á batavegi. Konan slasaðist minna en óttast var, að sögn vakthafandi læknis á slysadeild Landspítalans í Fossvogi.
Konunni heilsast það vel að jafnvel er búist við að hún geti lokið ferð sinni um Ísland en auðheyrt var á lækni Landspítalans að tíðindin væru gleðifréttir. Hún meiddist á höfði en karlmaðurinn sem var með henni í för slapp með skrámur.
Landhelgisgæslunni barst kl 12:09 beiðni frá lögreglunni á Ísafirði og lækni á Hólmavík um aðstoð þyrlu eftir að bílslys varð á Snæfjallaströnd.
TF-GNÁ fór í loftið kl. 12:50, lent var á fótboltavelli vestan við Dalbæ á Snæfjallaströnd kl 13:51. Var hinn slasaði fluttur um borð í þyrluna og farið að nýju í loftið kl. 14:04. Áætlað er að lenda við Landspítalann í Fossvogi kl. 15:05, samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni.