Almenningur fengi reikninginn

Ótollaðir bílar í geymslu. Úr myndasafni.
Ótollaðir bílar í geymslu. Úr myndasafni. Ómar Óskarsson

Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra telur að ef sú leið verði farin að endurgreiða  gengislán aftur í tímann og bjóða lántakendum upp á samningsvexti, jafnvel allt niður í 2-3%, geti það þýtt að styrkja þurfi eiginfjárgrundvöll bankanna með ríkisframlagi. Almenningur fengi því reikninginn.

Gylfi leggur áherslu á að málið sé flókið og viðamikið.

Hæstiréttur skeri úr um álitamál

„Það eru mörg álitamál í þessu efni en hvert þeirra er nú þannig að á endanum þarf Hæstiréttur að skera úr um það. Það hefur verið mitt mat og raunar kom það fram í máli seðlabankastjóra og fleiri að það yrði mjög þungt högg fyrir fjármálakerfið ef það yrði unnið úr þessum málum þannig að einungis samningsvextir væru áfram á þessum gengistryggðu lánum.

Það myndi valda verulegum vandræðum í fjármálakerfinu og gríðarlegum kostnaði fyrir ríkissjóð sem myndi þá falla á skattgreiðendur, fyrir utan að þetta yrði mjög ósanngjörn lausn, bæði frá sjónarhóli lánveitenda og þeirra sem eru með annars konar lán. Þannig að ég held að það sé algerlega ófær leið að samningsvextir standi og ég get ekki ímyndað mér að Hæstiréttur myndi komast að slíkri niðurstöðu. En það er auðvitað eitt af því sem haldið er fram í umræðunni þannig að það þarf að undirbúa sig undir það.“

Mjög lágir vextir

- Hvað eru samningsvextirnir háir?

„Þeir eru mismunandi eftir samningum en það á þá til dæmis við í lánum í jenum og svissneskum frönkum að þeir eru yfirleitt reiknaðir útfrá millibankavöxtum, LIBOR-vöxtum, í þessum löndum, og svo með álagi sem er kannski um 1-2%.

Það eru þá samningsvextirnir í þessum samningum.“

- Eru því þar á ferð vextir allt niður í 2-3%?

„Já. Væntanlega væru allra lægstu tölurnar þannig.“

- Pétur H. Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, telur að ef þetta skref yrði stigið myndi það verða ógn við innlán í bankakerfinu, með því að grafa undan grundvelli bankakerfisins. Ertu sammála því?

„Ég ætla nú ekki að taka alveg undir það en þetta myndi engu að síður fara mjög illa með eigið fé bankanna. Og þó þeir ættu fyrir öllum kröfum og innistæðum að þá myndi þetta fara mjög illa með eigið fé þeirra og það myndi þýða að það þyrfti að leggja þeim til verulegt nýtt eigið fé. Það þyrfti að koma frá ríkinu, allavega frá þeim fjármálastofnunum sem eru í eigu ríkisins. Það gæti þó líka verið að ríkið þyrfti að leggja öðrum fjármálafyrirtækjum fé.“

Allir tækju þátt í kostnaðinum

- Þannig að þeir sem tóku engin gengislán þyrftu þá að greiða hærri skatta til að standa undir þessari eiginfjáraukningu?

„Já, og allir skattgreiðendur í landinu.“

- Hvað með það sjónarmið Péturs H. Blöndals að það þyrfti hugsanlega að skerða lífeyri ef farið yrði út í svona aðgerðir?

„Líklega ekki beint nema menn færu að færa niður lán lífeyrissjóðanna eitthvað líka. Þeir veittu auðvitað engin gengistryggð lán og eru í engri beinni hættu hvað það snertir en væntanlega yrði einhver þrýstingur á, eða aukinn þrýstingur, á að færa niður þannig lán líka, sem myndi þá þýða skertar lífeyrisgreiðslur til allra landsmanna, bæði í nútíð og framtíð.“

Gæti komið til afskrifta

- Þessi umræða vekur augljóslega miklar tilfinningar. Hvað viltu segja við þjóðina á þessum ólgutímum varðandi þá réttlætiskröfu að nú beri að færa niður lán?

„Hún er mjög skiljanleg en ég verð enn og aftur að vekja athygli á því að þetta misgengi lána og launa, sem menn augljóslega standa frammi fyrir, að það var að mínu mati tekið á því með mjög skynsamlegum hætti með greiðslujöfnun.

Hún felur í sér að ef þetta misgengi gengur ekki til baka að fullu, og þar að auki hratt, að þá verði lán afskrifuð. Þannig að í raun er fólgin í því greiðslujöfnun við verulega afskrift lána ef efnahagslífið nær sér ekki aftur á strik. Og auðvitað vonum við að efnahagslífið nái sér á strik og ef að það gerir það að þá er vandinn leystur.“

- Hvernig bregstu við þeim orðrómi að ofangreind leið myndi auka líkur á að bankakerfið kynni að riða til falls með tilheyrandi hættu fyrir innistæður?

„Ég verð nú að lýsa yfir þeirri eindregnu skoðun minni að öll viðfangsefnin eru viðráðanleg. Jafnvel versta hugsanlega niðurstaða frá sjónarhóli bankanna hvað varðar þessi gengitryggðu lán er þannig að bankakerfinu er viðbjargandi en það yrði mjög dýrt.“

Ítrekar að allar innistæður sé tryggðar

- Hvað segirðu við fólk sem á verðtryggðar bankainnistæður og óttast um að þær kunni að hverfa með falli bankanna, áhyggjur sem m.a. hefur borið á í bloggi við nýleg viðtöl um þetta efni?

„Þær munu ekki gera það því að í fyrsta lagi er áhættan ekki svo mikil að bankarnir eigi ekki fyrir öllum kröfum, þar á meðal innistæðum. Þar fyrir utan stendur áfram og mun standa enn um sinn yfirlýsing ríkisstjórnarinnar um að allar innistæður sé tryggðar. Þá á ég við allar innistæður í innlendum innlánsstofnunum, óháð upphæð,“ segir Gylfi Magnússon.

Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra.
Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert