Samþykktu verkfall

mbl.is/Júlíus

Félagsmenn í Landssambandi slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna hafa samþykkt að boða til verkfalls í lok júlí. Atkvæðagreiðslu um verkfall LSOS lauk sl. fimmtudag og samþykktu 95% félagsmanna aðgerðir.

Kjörsókn var 85% en 200 félagsmenn greiddu atkvæði. Þar af sagði 191 já en átta sögðu nei. Einn seðill var auður.

Um er að ræða verkfall félagsmanna sem starfa hjá þeim sveitarfélögum sem launanefnd sveitarfélaga fer með samningsumboð fyrir. Samningar félagsmanna hafa verið lausir og hefur lítið orðið ágengt í kjaradeilu félagsmanna við launanefndina.

 „Ef menn vilja ekki setjast niður og ræða málin á einhverjum eðlilegum grunni þá er þetta eina sem launamenn hafa til að knýja fram að það sé hægt að tala við þá,“ segir Sverrir Björn Björnsson, formaður LSOS, í samtali við mbl.is.

Þann 20. júní slitnaði upp úr viðræðum slökkviliðsmanna og launanefndarinnar. Sverrir segir ekkert liggja fyrir varðandi framhaldið, utan þess að félagsmenn hafi samþykkt verkfall.

Verkfallið nær ekki til sjúkraflutningamanna sem starfa hjá ríkinu og ekki heldur til slökkviliðsmanna sem starfa hjá ISAVIA.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert