„Þetta er glæsilegt,“ sagði Sæmundur Pálsson, einn skipuleggjenda hátíðar gamalla togarajaxla sem haldin er á Akureyri í dag. Þar hitta sjómenn af síðutogurunum gamla félaga sem þeir hafa ekki séð suma hverja áratugum saman. Þáttakendur eru á þriðja hundrað, bæði togarajaxlar og makar þeirra.
Sæmundur sagði að stemmningin sé mjög góð í hópnum. Þarna hittist gamlir félagar og vinir og hafi um margt að spjalla og rifja upp eftir áratuga langan aðskilnað. Vináttubönd sem bundust í stórsjó og streði hafa ekki trosnað.
„Ég átti aldrei von á að þetta yrði svona glæsilegt,“ sagði Sæmundur. „Ég er nett sjokkeraður bara og jafnvel klökkur. Sjálfur er ég að hitta félaga sem ég var með á sjó sem unglingur og hef ekki hitt í áraraðir.
Stemmningin nú þegar fólk er að koma sér fyrir í matsalnum er alveg stórkostleg. Menn eru að spjalla og hlæja. Það er ótrúleg gleði í þessu. Þetta er sko gaman!"
Dagskrá hátíðar togarajaxlanna hófst klukkan 11.00 í morgun með því að blómsveigur var lagður að minnisvarða drukknaðra sjómanna við Glerárkirkju. Jónas Þorsteinsson skipstjóri, 86 ára, og Ragnar Franzson stýrimaður, 85 ára, lögðu blómsveiginn. Þeir eru líklega aldursforsetar togarajaxlanna á Akureyri. Séra Gunnlaugur Garðarsson flutti minningarorð.
Sameiginlegur málsverður, jaxlamatur, verður snæddur í matsal Brims, gamla matsal Útgerðarfélags Akureyrar. Síðan fara þeir sem vilja í siglingu um Eyjafjörð með Húna II.