Þjóðaratkvæði um NATO

Merki Atlantshafsbandalagsins, NATO.
Merki Atlantshafsbandalagsins, NATO.

 „Við vitum að þetta stríð er villimannlegt og hefur alltaf verið það,“ segir Ögmundur Jónasson, þingmaður VG og nefndarmaður í utanríkismálanefnd um nýjar upplýsingar um stríðið í Afganistan. Ögmundur telur tilefni til að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um veru Íslands í Atlantshafsbandalaginu.

„Í rauninni er ekkert þarna sem kemur mér raunverulega á óvart. Það nægði mér að hafa Guantanamo-búðirnar á Kúbu fyrir augum í nokkur ár til að gera mig að efasemdarmanni um hryðjuverkastríðið,“ segir Ögmundur aðspurður hvort upplýsingarnar um stríðið í Afganistan muni hafa áhrif á afstöðu stjórnarinnar. 

Ögmundur á sæti í utanríkisnefnd sem fulltrúi Vinstri grænna en hvorki náðist í Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra né Árna Þór Sigurðsson, formann nefndarinnar, vegna upplýsinganna sem hulunni hefur verið svipt af um stríðsreksturinn í Afganistan.

Ögmundur telur því aðspurður ekki tilefni til sérstakrar yfirlýsingar af hálfu íslensku ríkisstjórnarinnar en hann hefur sem kunnugt er verið opinskár í gagnrýni sinni á stuðning íslenskra stjórnvalda við hryðjuverkastríðið.

Afstaða hans til stríðsins í Afganistan hafi ekki breyst.

„Við vitum að þetta stríð er villimannlegt og hefur alltaf verið það. Þessar upplýsingar varpa ljósi á það sem gerist í undirheimum styrjaldarinnar [...] Ég held að það sé tilefni til að spyrja þjóðina beint og milliliðalaust hvort við eigum erindi í NATO.

Ég held að þetta sé sú aðferðafræði sem menn vilja hafa uppi í ákvarðanatökum almennt, hvort sem það er eignarhald á orkuauðlindum, Icesave eða þátttaka landsins í NATO. Ég held að það gæti verið næsta stoppistöð í því efni, eða í það minnsta ein af mörgum.“

Fagnar frumkvæðinu 

Ögmundur fagnar uppljóstrunum Wikileaks um framgang hryðjuverkastríðsins. 

„Wikileaks ætlar að reynast mjög mikilvæg upplýsingaveita þegar stríðsreksturinn í Írak og Afganistan er annars vegar. Þannig að ég fagna því að þetta skuli sett fram. Þarna er okkur veitt innsýn í það sem kalla má undirheima stríðsrekstursins.“

Flókin staða

Hann telur stuðning íslenskra stjórnvalda við hryðjuverkastríðið hafa verið misráðinn. 

„Hin flókna staða sem þarna er uppi er umhugsunarefni. Það er nokkuð sem ýmsir gagnrýnendur innrásarinnar, ekki síst í Bretlandi, höfðu á orði þegar ráðist var inn í Afganistan 2001, og ekki síður í Írak 2003, að menn virtust ekki gera sér grein fyrir því í hversu flókin heim þeir væru að fara. Og að Íslendingar skyldu vera þarna í slagtogi, svona nánast meðvitunarlausir af vanþekkingu, er eins hrópandi í dag og það var þá.“ 

Ísland þátttakandi í herförinni

Ögmundur rifjar upp andstöðu sína við Atlantshafsbandalagið, NATO.

„NATO er mér ekkert sérstaklega að skapi eins og menn þekkja. Og það er í gegnum NATO sem við erum þátttakendur í stríðsrekstrinum í Afganistan þótt sú breyting hafi orðið á frá því sem fyrst var að við erum núna með fjóra til fimm einstaklinga í landinu í borgaralegum verkefnum en ekki hernaðarlegum eins og var upphaflega.

Það breytir því ekki að við erum þátttakendur í þessari herför og það er mér eins lítið að skapi nú og það var þá,“ segir Ögmundur Jónasson.

Ögmundur Jónasson.
Ögmundur Jónasson. Kristinn Ingvarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka