Segir skýrslum lögreglu breytt

Lögreglumenn að störfum.
Lögreglumenn að störfum. mbl.is

Markvisst og meðvitað er unnið að því hjá lögregluembættinu á höfuðborgarsvæðinu að fegra stöðu mála í nýlegri ársskýrslu. Snorri Magnússon formaður Landssambands lögreglumanna segir að borið hafi á því um nokkurt skeið að skýrslum lögreglumanna sé breytt til að draga úr alvarleika málanna sem þeir sinna.

„Lögreglumenn hafa staðfest í mín eyru að verið sé að breyta skráningu mála sem þeir fara í," segir Snorri í samtali við mbl.is en frá málinu var fyrst greint í fréttum Sjónvarpsins í kvöld.

„Það eru dæmi um það að þeir fari í innbrot í heimahús, þar sem um alveg klárt innbrot er að ræða, en af því að engu var stolið þá er það endurskráð eftir á sem eignaspjöll. Eins ef það eru umferðarslys, þar sem fólk kvartar bara undan smávægilegum áverkum og enginn er fluttur burt með sjúkrabíl, þá er það skrá eftir á sem árekstur en ekki bílslys," segir Snorri. 

Snorri segist hafa fengið kvartanir um þetta í fleiri mánuði. Ekki sé ljóst nákvæmlega hvar í ferlinu skráningunum sé breytt en það sé gert án vitundar lögreglumannanna og Snorri segir tilganginn augljósan.  „Að sýna fram á betri árangur og vera nær því að ná settum markmiðum. Það eru sett markmið um að fækka umferðarslysum um svo og svo mikið og sett markmið um að fækka innbrotum og líkamsárásum. Þetta er gert til að láta þetta líta betur og það er ljóst að þetta er gert af ásettu ráði og meðvitað."

Snorri segir lögreglumenn reiða og þeim finnist sem lítið sé gert úr þeirra störfum. „Menn eru alveg kolsjóðandi vitlausir yfir þessu enda er þetta með ólíkindum." Búið er að koma kvörtunum á framfæri við dómsmálaráðuneytið að sögn Snorra, bæði stóð lögreglumaður upp á ársþingi lögreglufélagsins í lok apríl og sagði frá sinni reynslu.  Snorri hafi auk þess sjálfur sent erindi á ráðuneytið og greint frá stöðu mála. Hann segist engin áheit hafa fengið frá ráðuneytinu enn um að málin verði skoðuð.

Úr lausu lofti gripið, segir lögreglustjóri

Stefán Eiríksson, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, segir ekkert hæft í ásökununum, það séu lögreglumennirnir einir sem komi nálægt skráningunum. „Þetta er algjörlega úr lausi lofti gripið, það er enginn að breyta neinum skráningum eftir á og engin fyrirmæli sem við höfum gefið um að slíkt sér gert."

Snorri Magnússon formaður Landssambands lögreglumanna.
Snorri Magnússon formaður Landssambands lögreglumanna.
Stefán Eiríksson.
Stefán Eiríksson. mbl.is/Júlíus
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka