„Það er sérstök tilfinning að þurfa að kveðja Bónus og ég segði ósatt, ef ég segðist ánægður með þá stöðu,“ segir Jóhannes Jónsson kaupmaður og stofnandi Bónuss. Hann hefur látið af störfum hjá Högum hf. Samningur þar að lútandi milli Arion banka hf og Jóhannesar Jónssonar var undirritaður í dag.
Jóhannes sendi frá sér fréttatilkynningu nú síðdegis af þessu tilefni. Þar segir m.a.:
„Arion banki eignaðist hlut í Högum í október 2009 við yfirtöku á eignarhaldsfélaginu 1998, sem átti 95,7 % í félaginu.
Í samkomulaginu felst meðal annars, að Jóhannes kaupir hlut Haga í SMS, sem rekur matvörubúðir í Færeyjum. Einnig kaupir Jóhannes hluta af sérvörusviði Haga.
Með þessum samningi lýkur aðkomu Jóhannesar að rekstri Haga og þar með Bónus, sem hann stofnaði ásamt fjölskyldu sinni fyrir rúmum tuttugu árum og hefur rekið óslitið síðan.
,,Fyrir 21 ári varð til sú hugmynd að opna lágvöruverslun undir nafni Bónuss. Frá fyrsta degi hefur Bónus boðið lægsta vöruverð á Íslandi og svo er enn. Með tilkomu Bónus lækkaði vöruverð á landinu verulega og Bónus hefur haldið fast við þá stefnu að bjóða sama verð um land allt.
Bónus var byggð á hugmyndafræði og þekkingu sem við feðgar höfðum þróað með okkur um skeið fyrir opnun fyrstu verslunarinnar. Bónus hefur alla tíð verið vel rekið félag og staðið við allar sínar skuldbindingar, átt í senn frábær og einstök samskipti við viðskiptavini sína og birgja. Það er sérstök tilfinning að þurfa að kveðja Bónus og ég segði ósatt, ef ég segðist ánægður með þá stöðu.“
Jóhannes kveður fyrirtækið og starfsfólk þess með söknuði. Hann vill nota tækifærið og þakka öllu því frábæra starfsfólki, sem unnið hefur með honum að rekstri fyrirtækjanna.
„Arion banki hefur tilkynnt mér að félagið fari nú í söluferli. Ég hef fullan hug á að gera tilboð í félagið og þar með eignast Bónus aftur,“ segir í fréttatilkynningu Jóhannesar Jónssonar.