Biskupsstofa staðfestir að fram hafa komið ásakanir frá þremur einstaklingum á hendur presti um kynferðislega áreitni og kynferðisbrot. Fagráð um meðferð kynferðisbrota hefur haft málið til umfjöllunar, og á fundi með fagráðinu viðurkenndi presturinn brot sín.
Gunnar Rúnar Matthíasson, formaður fagráðsins, segir í samtali við mbl.is að málið hafi komið á borð fagráðsins fyrir um fjórum vikum.
„Við heyrum í öllum þeim sem málið varðar og heyrum þeirra umkvartanir sem fram eru færðar. Við eigum síðan fund með biskupi með viðkomandi presti og kynnum honum það sem um er að ræða. Hann sýndi okkur mikla virðingu í sínum viðbrögðum og varð úr að hann sagði sig frá öllu sem að honum sneri,“ segir Gunnar.
„Það sem er fyrst til umfjöllunar hjá okkur eru kynferðisbrot. Og hann gerði það, það er er alveg á hreinu,“ segir Gunnar aðspurður.
Biskupsstofa hefur sent frá sér yfirlýsingu í tengslum við málið sem er svohljóðandi:
„Biskupsstofa staðfestir að fram hafa komið ásakanir frá þremur einstaklingum á hendur presti um kynferðislega áreitni og kynferðisbrot. Fagráð um meðferð kynferðisbrota hefur haft málið til umfjöllunar. Viðkomandi presti voru kynntar þær ásakanir sem hann var borinn. Brotin áttu sér stað fyrir 25 árum og eru því fyrnd að lögum. Viðkomandi prestur hefur ekki gegnt föstu embætti í kirkjunni um árabil. Hann mun sökum brotanna ekki gegna störfum sem prestur né koma fram á vegum þjóðkirkjunnar, safnaða hennar, stofnana eða kristilegra félaga sem starfa innan vébanda hennar.“
Gunnar segir að þar sem málið sé fyrnt þá séu aðfarir að prestinum flóknar. Hann tekur fram að það sé ekki verið að svipta hann hempu.
„Hins vegar gerir hann það sama með því að gefa yfirlýsingu sem síðan verður í umsjá biskups að ganga eftir að sé haldin,“ segir Gunnar. Ljóst sé að presturinn muni ekki koma fram sjálfstætt starfandi framar á vegum kirkjunnar.