900 milljarðar í óefnislegum eignum

Íslenska bankakerfið var byggt á froðu og því dæmt til …
Íslenska bankakerfið var byggt á froðu og því dæmt til að hrynja. mbl.is

Þegar mest var fóru óefnislegar eignir íslenskra fyrirtækja í hátt í 1.000 milljarða króna og má áætla að ekkert hafi verið á bak við 90% fjárhæðarinnar, um 900 milljarða króna. Þetta er mat Vilhjálms Bjarnasonar viðskiptafræðings og framkvæmdastjóra Félags fjárfesta.

Eins og fram kom á fréttavef Morgunblaðsins í gær voru óefnislegar eignir Icelandair 23.598 milljónir í síðasta efnahagsreikningi og því 181% meiri en eigin fé félagsins upp á 14.605 milljónir króna. Skuldir nema rétt tæpum 75 milljörðum króna.

Hinar miklu óefnislegu eignir eru umdeildar og hefur Matthías Imsland, forstjóri Iceland Express, meðal annars haldið því fram að óefnilegar eignir Icelandir séu stórlega ofmetnar.

Miklar óefnislegar eignir Haga hafa einnig verið til umræðu en talið er að Arion banki verði að leggja fyrirtækinu til milljarða króna sökum þess að þær séu fjórfalt meiri en efnislegar eignir, eða hátt í 10 milljarðar króna.

Ekki í takt við raunveruleikann 

Vilhjálmur segir íslenskt viðskiptalíf hafa einkennst af uppblásnum efnahagsreikningum þar sem óefnislegar eignir voru ofmetnar.

„Ég tel að afkoma íslenskra fyrirtækja hafi aldrei réttlætt neina verulega viðskiptavild. Menn komust upp með þetta af því að bankar lánuðu til kaupa á fyrirtækjum á uppsprengdu og þá var þetta hægt. Það þurfti tvo í dansinn. Það þurfti flón og flón í bönkunum. Það var verið að ýkja væntingar um afkomu.“

- Af hverju voru menn að kaupa fyrirtækin á slíku verði?

„Af því að þeir fengu lán og af því að þetta var svo ábyrgðarlaust. Það voru engar ábyrgðir í dæminu. Bankinn tryggði sig ekki og kaupendunum var sama því þeir tóku enga ábyrgð á gerðum sínum. Bankarnir eru stóru sökudólgarnir í þessu því þeir gerðu kaupin möguleg. Þetta var miklu vera en Matador því oft á tíðum voru þarna á ferð hrein og klár fjársvik.

Menn tóku peninga út úr kerfinu. Þarna var verið að selja fyrirtæki á uppsprengdu verði og menn tóku peningana sem þeir fengu fyrir söluna út úr kerfinu og kaupandinn skrifaði undir í nafni hlutafélags sem bar takmarkaða ábyrgð. Viðkomandi þurfti aldrei að bera neina ábyrgð á þessu [...] Bankarnir voru að þessu til að stækka efnahagsreikninginn. Fyrirtækjaráðgjöfin tók háa þóknun fyrir sem bætti efnahag bankanna og gaf möguleika á kaupauka.“

Umboðssvik stjórnenda 

Aðspurður hvenær óefnislegar eignir íslenskra fyrirtækja náðu hámarki á árunum fyrir hrunið segir Vilhjálmur að ætla megi að árið 2007 hafi þær nálgast 1.000 milljarða króna, upphæð sem nemur um 66% af áætlaðari þjóðarframleiðslu síðasta árs. Þar af megi ætla að 90% upphæðarinnar hafi verið „froða“ sem ekkert hafi verið á bak við.

„Forsendan er umboðssvik stjórnenda bankanna. Ef að hver einasti banki hefði gætt sín hefði þessi útlánavandi aldrei átt sér stað. Það er fyrsta spurning bankastjóra - og ég er vanur maður, var bankastjóri í 8 ár - var hvernig viðskiptavinurinn hvernig hann ætli að greiða lánið. Bankakerfið og það vantar í bankanna 60-70% af eignum.“

Hundruð milljarða í felum í skattaskjólum

- Hvert fóru allir peningarnir?

„Ég held að sum af þessum kaupum hafi hreinlega verið af erlendum aðilum í tómri vitleysu. Ég er líka farinn að sannfærast um að eitthvað af þessum peningum er annars staðar sem er í eigu útrásarvíkinga. Kroll og önnur rannsóknarfyrirtæki eru að leita að þessu fé.

Eitt svarið sem ég hef er að bresk yfirvöld ætli að aðstoða við lausn Icesave með því að upplýsa hvað er í eigu Íslendinga í breskum skattaskjólum. Það eru örugglega einhverjar eignir á bresku Jómfrúareyjunum og í öðrum sambærilegum skattaskjólum. Það voru mörg fyrirtæki skráð þar. Þetta gætu verið einhverjir hundruð milljarða. Það hurfu 6.000 til 7.000 milljarðar króna úr bankakerfinu. Það er alveg ljóst fyrir Lúxemborg-Tortóla leiðin var til staðar og eitthvað fór þar.“

- Er öruggt að þessir peningar finnist á endanum?

„Ég veit það ekki. Ég get ekki svarað því. Bretar vita ef til vill svarið.“

Vilhjálmur Bjarnason.
Vilhjálmur Bjarnason. Brynjar Gauti
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert