Jörðin gæti myrkvast

Sólin er ógnvaldur og lífgjafi í senn.
Sólin er ógnvaldur og lífgjafi í senn.

Norskir vísindamenn vara við miklu sólgosi árið 2013 sem þeir telja að muni geta sett raftæki og annan samskiptabúnað úr skorðum. Bent er á að fyrir sjö árum hafi sólgos kostað Bandaríkjamenn allt að 1.150 milljarða króna en óttast er að næsta risasólgos lami rafkerfin þannig að jörðin myrkvist.

Segir þannig á vef Aftenposten að tjónið sem þá varð kunni að verða aðeins „vasapeningar“ í samanburði við komandi sólgos.

Síðasta stóra sólgos hafi skollið á jörðinni árið 1859 og valdið svo öflugum norðurljósum að lesbjart var utandyra á kvöldin.

Nú sé heimurinn mun háðari raftækjum og mannkynið því berskjaldaðra fyrir röskun af þessu tagi en upp úr miðri 19. öld.

Blaðið ræðir við vísindamanninn Knut Jørgen Røed Ødegaard sem tekur sterkt til orða en hann bendir á að árið 2013 verði virkni sólarinnar í hámarki.

Ødegaard varar við því að jörðin verði myrkuð svo mánuðum skiptir enda muni rafkerfin stórskemmast í sólgosinu. Þá muni gervihnettir stórskemmast og röskun í rafdreifingu lama netið.

Tekið skal fram að hér eru aðeins spár á ferð og hefur blaðið eftir stjörnufræðingnum Pål Brekke að sólgos af þessari stærðargráðu muni fyrr eða síðar skalla á jörðinni. Hvort það verði eftir 10 ár eða 200 ár sé spurning sem enginn geti svarað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert