Hætt við sameiningu í bili

Háskólinn í Reykjavík.
Háskólinn í Reykjavík. mbl.is/RAX

Ekkert verður af hugsanlegri sameiningu Háskólans á Bifröst og Háskólans í Reykjavík um sinn. Óformlegum sameiningarviðræðum hefur verið hætt í bili vegna ágreininingsins sem upp kom um helgina. „Eins og staðan er núna þá er ekki mögulegt að halda þessari skoðun áfram að svo stöddu," segir Ari Jónsson rektor HR.

Ari segir að staðan hafi breyst eftir atburðarrás helgarinnar, en þá lýsti Magnús Árni Magnússon rektor Bifrastar sig andsnúinn sameiningunni. Í kjölfarið komu yfirlýsingar frá Hollvinasamtökum Háskólans á Bifröst, nemendafélagi hans og sveitastjórn Borgarbyggðar þar sem lýst var áhyggjum af því að starfsemi Bifrastar yrði færð til Reykjavíkur. Ari segir þó mikilvægt að fram komi að fyrir helgi, áður en Magnús Árni lýsti breyttri afstöðu sinni, hafi viðræðurnar enn verið á því stigi að ekki var orðið ljóst hvort sameiningin borgaði sig fjárhagslega og faglega. „Það var ekki komið að því, það var enn bara verið að skoða hvort þetta væri skynsamlegt."

Ari segir að hvað svo sem háskólarnir taki sér fyrir hendur sé markmiðið alltaf að gera eins vel og hægt sé faglega fyrir þá fjármuni sem veittir eru. „Við ætlum ekki að þrýsta á að þessu verði haldið áfram, en erum eins og við höfum alltaf verið tilbúin til að skoða þessa leið eða aðrar leiðir sem ef það verður tl þess að efla háskólastarf á íslandi."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert