Völ og kvöl í Norðvesturkjördæmi

Arnarstapi með Snæfellsjökul í bakgrunni.
Arnarstapi með Snæfellsjökul í bakgrunni. www.mats.is

Í aðdraganda prófkjara og forvals stjórnmálaflokkanna fyrir alþingiskosningarnar í lok næsta mánaðar, verður nú haldið áfram yfirreið yfir einstök kjördæmi og reynt að átta sig á stöðu flokkanna og helstu frambjóðendum þeirra. Í gær hófst greiningin í Suðvesturkjördæmi en að þessu sinni er Norðvesturkjördæmi tekið fyrir. Niðurstöður eru færðar inn eftir því sem þær liggja fyrir.

Framsókn

Í kosningunum 2007 var Magnús Stefánsson, fyrrverandi félagsmálaráðherra, endurkjörinn en þegar ríkisstjórnin féll fyrr á árinu ákvað hann að draga sig í hlé. Þarna er því komin upp athyglisverð staða. Þingmaðurinn óstýriláti, Kristinn H. Gunnarsson, hefur yfirgefið Frjálslynda flokkinn og genginn til liðs við Framsókn. Hann mun því keppa um þingsæti við annan mann sem skipti sömuleiðis um flokks ekki alls fyrir löngu - Guðmund Steingrímsson, fyrrum varaþingmann fyrir Samfylkinguna.

Segja má um Guðmund að hann sé kominn heim til föðurhúsanna. Faðir hans Steingrímur Hermannsson, fyrrverandi formaður flokksins og forsætisráðherra, var lengi þingmaður norðurhluta kjördæmisins áður en hann flutti sig suður, og afi hans, Hermann Jónasson, formaður flokksins og forsætisráðherra á árum áður, var sömuleiðis þingmaður á svipuðum slóðum.

En þetta var í þá daga - og alveg er eftir að sjá hvað arfleifðin dugar Guðmundi í atkvæðaveiðum í kjördæmi sem er orðið miklu stærra og víðáttumeira en áður var. Það verður óneitanlega forvitnileg að sjá hvernig hann uppsker.

Á sama hátt verður athyglisvert að sjá hversu sáttfúsir framsóknarmenn í kjördæminu eru gagnvart Kristni H. Gunnarssyni því ekki fór hann hávaðalaust úr flokknum á sínum tíma. Kristinn er kröftugur stjórnmálamaður sem stendur fast á sínu og fylgir sannfæringu sinni hvað sem tautar og raular. Er það ekki einmitt krafa hins nýja Íslands til þingmanna þjóðarinnar? Þar fyrir utan hefur Kristinn alltaf átt harðskeyttan hóp fylgismanna, einkanlega á Vestfjörðunum og nú er að sjá hvort þeir duga honum eina ferðina enn.

Stuðningurinn við þessa tvo „aðkomumenn“ er þó dálítið óskrifað blað og því má vel vera að rótgrónari framsóknarmenn blandi sér í baráttuna, svo sem eins og Gunnar Bragi Sveinsson, formaður byggðaráðs í Skagafirði og ef til vill fleiri.

Flokkurinn fékk tæp 19% atkvæða í kosningunum 2007 og í síðustu könnun Capacent Gallup mældist hann með svipað fylgi, sem skilar Framsókn væntanlega einum þingmanni eins og áður.

Niðurstaðaní póstkosningu framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi varð eftirfarandi:

Atkvæði greiddu 1539, ógildir seðlar voru 34, gildir seðlar 1505.
 
Lokastaðan er þannig í 5 efstu sætin:

1. Gunnar Bragi Sveinsson, 782 atkvæði í 1. sæti
2. Guðmundur Steingrímsson, 635 atkvæði í 1.-2. sæti
3. Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson, 897 atkvæði í 1.-3. sæti
4. Elín Líndal, 1.135 atkvæði í 1.-4. sæti
5. Halla Signý Kristjánsdóttir, 937 atkvæði í 1.-5. sæti

 

Frjálslyndi flokkurinn

Hér þarf tæpast að hafa mörg orð um. Guðjón Arnar Kristjánsson er Frjálslyndi flokkurinn, maðurinn sem hefur meira og minna einn dregið vagninn í liðnum kosningum, einungis spurning um hvort hann dregur fleiri með sér á þing og nái ekki örugglega nægilega mörgum kjósendum á landsvísu til að komast yfir „þröskuldinn“ - 5%-in sem flokkur þarf á fá til að skila honum jöfnunarþingsætum.

Það er því örugglega í þessu ljósi sem skoða má framboð tveggja fyrrverandi þingmanna flokksins, Magnúsar Þórs Hafsteinssonar og Sigurjóns Þórðarsonar,  í 2. sætið í prófkjöri flokksins í þessu kjördæmi um 5 efstu sætin en það stendur nú yfir og fram til sunnudags.

Guðjón Arnar skilaði flokknum 13,6% atkvæða í kosningunum 2007 og tók þá Kristinn H. Gunnarsson með sér inn á þing, en í síðustu skoðanakönnun Capacent Gallup mældist flokkurinn með rétt tæplega 10%.

Miðvikudaginn 12. mars lágu svo fyrir úrslit í prófkjöri flokksins sem fram fór með póstkosningu. Guðjón Arnar Kristjánsson hlaut 1. sætið. Sigurjón Þórðarson hreppti 2. sætið og Ragnheiður Ólafsdóttir hlaut 3. sæti. Magnús Þór Hafsteinsson varaformaður Frjálslynda flokksins varð í 4. sæti.

Samfylkingin

Báðir núverandi þingmenn flokksins, Guðbjartur Hannesson, forseti Alþingis, og Karl V. Matthíasson gefa áfram kost á sér, og miðað við stöðuna í dag er heldur hæpið að þingmönnum flokksins í kjördæminu fjölgi. Flokkurinn fékk 21,2% atkvæða í kosningunum 2007 en í síðustu skoðanakönnun mældist flokkurinn með 22,7%.

Vart verður hróflað við Guðbjarti í 1. sætinu og endurnýjun á listanum verður vart nema Karli verði ýtt af stóli. Hann gæti átt í höggi við tvær vestfirskar valkyrjur, Önnu Láru Jónsdóttur, bæjarfulltrúa á Ísafirði, og Ólínu Þorvarðardóttur, sömuleiðis á Ísafirði, sem örugglega nýtur þess í baráttunni að vera tengdadóttir Péturs Sigurðssonar, verkalýðsleiðtoga og jafnaðarmanns, en Ísafjarðarkratar eru svipaðs eðlis og Hafnarfjarðarkratar, öflugt og harðsnúið lið. Þá má ekki gleyma fyrrum þingmanni,  Önnu Kristínu Gunnarsdóttur, frá Sauðárkróki. Reyndar má einnig nefna til sögunnar fulltrúa af suðurfjörðunum - Ragnar Jörundsson, bæjarstjóra Vesturbyggðar.

Þótt sr. Karl búi nú á Snæfellsnesi eru rætur hans í pólitíkinni á Vestfjörðunum þar sem hann var við prestskap um árabil og inn á þing komst hann fyrst sem þingmaður Vestfirðinga. Það er því ástæðulaust að vanmeta styrk hans á þessum slóðum.

Niðurstaðan varð þessi:

Alls greiddu 854 atkvæði. 1 seðill var auður
Kosningin er bindandi fyrir sex efstu sætin. Þau raðast þannig:

1. sæti Guðbjartur Hannesson - 601
2. sæti Ólína Þorvarðardóttir – 405 í 1 – 2 sæti
3. sæti Arna Lára Jónsdóttir – 324 í 1 – 3 sæti
4. sæti Karl V. Matthíasson – 281 í 1 – 4 sæti
5. sæti Anna Kristín Gunnarsdóttir – 456 í 1 – 5 sæti
6. sæti Þórður Már Jónsson – 420 í 1 – 6 sæti


Vegna reglna um paralista færðist Karl V. Matthíasson upp um sæti og Anna Kristín Gunnarsdóttir færðist sæti niður. Síðan hefur það gerst að Karl V. Matthíasson hefur sagt skilið við flokkinn og gengið til liðs við Frjálslynda flokkinn.

Sjálfstæðisflokkur

Í þessu kjördæmi verður fyrirsjáanlega meiri endurnýjun hjá flokknum en víðast annarsstaðar. Oddviti listans í liðnum kosningum, Sturla Böðvarsson, fyrrum þingforseti og samgönguráðherra, hefur dregið sig í hlé og sömuleiðis Herdís Þórðardóttir sem tók sæti Einars Odds Kristjánssonar heitins. Af þremur þingmönnum flokksins í kjördæminu er það því Einar Kristinn Guðfinnsson, fyrrum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, einn sem býður sig áfram fram.

Ef marka má síðustu skoðanakönnun er flokkurinn um þetta leyti að tapa talsverðu fylgi miðað við síðustu kosningar - mælist nú á svipuðu róli og Framsóknarflokkurinn eða með 18,6% en fékk 29,1% í kosningunum 2007. Væri kosið í dag væru allar líkur á þriðji þingmaðurinn sé tapaður, og annar þingmaðurinn væntanlega í umtalsverðri hættu ef horft er framhjá möguleikum á uppbótarsætum.

Það er ekki alveg einfalt að spá fyrir um það hver eða hverjir fylgi Einari Kristni inn á þing, ef fylgið glæðist á næstu vikum. Sjálfstæðismenn hafa lengi horft til Birnu Lárusdóttur frá Ísafirði sem framtíðarstjórnmálamanns í flokknum og hún er nú varaþingmaður. Þau eru hins vegar af svipuðum slóðum, Birna og Bolvíkingurinn Einar Kristinn, og það þótti á sínum tíma talsvert afrek hjá þeim Einurunum - Kristni og Oddi - að halda tveimur af þremur efstu sætunum, báðir af norðanverðum fjörðunum. Önnur kona, Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir sem býður sig fram í 1.-2. sæti í NV-kjördæmi, er sveitarstjóri á Tálknafirði, þ.e. fulltrúi sunnanverðra Vestfjarða. Eyrún situr í miðstjórn og fékk næst flest atkvæð í miðstjórnarkjöri á síðasta landsfundi á eftir Kjartani Gunnarssyni, og er því líkleg til að láta að sér kveða

Landfræðileg togstreita setur þannig óhjákvæmilega mark sitt á val af þessu tagi, og það mun áreiðanlega gera það hér. Gamall aðstoðarmaður Sturlu, Bergþór Ólason af Akranesi, mun örugglega ætla sér umtalsvert af fylgi gamla oddvitans, og annar Skagamaður, Þórður Guðjónsson, er með heilt íþróttafélag á bak við sig sem löngum hefur reynst vel í baráttu af þessu tagi. Þá hefur einnig verið bent á Snæfellinginn Ásbjörn Óttarsson, forseta bæjarstjórnar í Snæfellsbæ. Í norðaustanverðu kjördæminu, Húnavatnssýslum og Skagafirði, þykir einnig mörgum sjálfstæðismönnum svæðið hafa verið nokkuð pólitískt afskipt um skeið.  Af þessum slóðum kemur Sigurður Örn Ágústsson sem vakið hefur talsverða athygli síðustu daga sem formaður uppgjörsnefndar, undirnefndar Endurreisnarnefndarinnar sem gamall þingmaður af svæðinu, Vilhjálmur Egilsson, stýrir en skýrsla undirnefndarinnar var birt fyrr í vikunni og þykir tæpitungulaus.

Niðurstaða prófkjörsins varþð sú að þar sigraði Ásbjörn Óttarsson, forseti bæjarstjórnar í Snæfellsbæ, í kjörinu og náði fyrsta sætinu. Einar K. Guðfinnsson þingmaður hafnaði í öðru sæti og Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir bæjarstjóri á Tálknafirði varð þriðja. Birna Lárusdóttir forseti bæjarstjórnar á Ísafirði hafnaði í fjórða sæti. 

Ásbjörn er forseti bæjarstjórnar Snæfellsbæjar. Hann er 46 ára, uppalinn á Hellissandi og búsettur á Rifi. Hann hefur starfað við sjómennsku og útgerð og rak fiskverkun á Rifi um nokkurra ára skeið. Hann rekur útgerðarfyrirtækið Nesver ehf. ásamt Margréti G. Scheving, eiginkonu sinni.

Röð efstu manna var sem hér segir: 

1. Ásbjörn Óttarsson með 1.048 atkvæði í 1. sæti

2. Einar K. Guðfinnsson með 1.088 atkvæði í 1. - 2. sæti

3. Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir með 1.045 atkvæði í 1. - 3. sæti

4. Birna Lárusdóttir með 1.193 atkvæði í 1. - 4. sæti

5. Bergþór Ólason með 1.082 atkvæði í 1. - 5. sæti

6. Sigurður Örn Ágústsson með 1.104 atkvæði í 1. - 6. sæti

Vinstri-græn

Eini þingmaður flokksins í þessu kjördæmi, Jón Bjarnason, formaður fjárlaganefndar, gefur áfram kost á sér, og ýmislegt bendir til þess að flokkurinn geti átt í vændum fleiri fulltrúa úr kjördæminu á þing, a.m.k. ef kosið væri í dag. Flokkurinn fékk um 16% atkvæða í kosningunum 2007 en samkvæmt nýjustu skoðanakönnun Capacent Gallup fengi flokkurinn nú 28,1%, hirðir af einhverju dularfullum ástæðum nánast allt fylgistap Sjálfstæðisflokksins og væri orðinn stærsti flokkurinn í kjördæminu.

Eins og víðar logar flokkurinn af pólitískum áhuga og sóknarhug í þessu kjördæmi. Yfir tuttugu manns gefa kost á sér í prófkjörinu, ekki síst er ungt fólk af báðum kynjum áberandi, nær helmingurinn eða 9 fædd 1975 og síðar, 4 konur og 5 karlar.

Samkvæmt yfirlýstri stefnu flokksins um jafnræði kynja er kona næst á eftir Jóni Bjarnasyni, sem verður að teljast kóngur í sínu ríki þarna. En lengra nær spádómsgetan ekki - flest af þessu fólki er meira og minna óskrifað blað í stjórnmálum. Þó er þarna Grímur Atlason, sveitarstjóri í Dalabyggð, og með sterk tengsl á Vestfirðina sem fyrrum bæjarstjóri í Bolungarvík. Einnig Lilja Rafney Magnúsdóttir á Suðureyri, verkalýðsleiðtogi og varaþingmaður Vestfjarða í átta ár. Loks  Ársæll Guðmundsson í Borgarnesi og fyrrum oddviti VG í sveitarstjórn Skagafjarðar, jafnframt því að gegna stöðu sveitarstjóra.

Niðurstaðan í forvalinu varð síðan þessi:

Jón Bjarnason, þingmaður, sem skipaði hefur efsta sæti Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi frá upphafi, sigraði með yfirburðum í nýafstöðnu forvali og fékk 254 atkvæði í fyrsta sætið. Atkvæði greiddu 375 en 524 voru á kjörskrá.

Í öðru sæti varð Lilja Rafney Magnúsdóttir á Suðureyri með 124 atkvæði í 1 - 2 sæti og í þriðja sæti Ásmundur Einar Daðason, Lambeyrum í Dölum, með 165 atkvæði í 1 - 3. Halldóra Lóa Þorvaldsdóttir, Reykholti hreppti annað sætið, Telma Magnúsdóttir Blönduósi varð í því fimmta og í sjötta sæti Grímur Atlason í Búðardal. Prófkjörið var framkvæmt með póstkosningu og eru niðurstöður birtar með fyrirvara um samþykki kjördæmisráðs.

mbl.is

Innlent, Kosningar — Fleiri fréttir

Föstudaginn 20. desember

Föstudaginn 29. nóvember

Fimmtudaginn 28. nóvember

Mánudaginn 18. nóvember

Laugardaginn 16. nóvember

Föstudaginn 15. nóvember

Þriðjudaginn 12. nóvember

Mánudaginn 11. nóvember

Sunnudaginn 10. nóvember

Laugardaginn 9. nóvember

Föstudaginn 8. nóvember

Laugardaginn 2. nóvember

Fimmtudaginn 31. október

Miðvikudaginn 30. október

Mánudaginn 28. október