Fréttaskýring: Endurnýjun í Suðurkjördæmi

Frá Gullfossi.
Frá Gullfossi. www.mats.is

Meiri endurnýjun virðist geta orðið í Suðurkjördæmi heldur en víðast annarsstaðar þar sem fjórir alþingismenn eru ýmist hættir eða hafa ákveðið að draga sig í hlé. Í þessari fjórðu yfirreið um einstök kjördæmi þar sem flokkar bjóða upp á prófkjör eða forval, verður rýnt í stöðu mála eins og þau blasa við á þessari stundu. Úrslit verða færð inn eftir því sem þau liggja fyrir.

Framsókn

Óhætt er að segja að mikið hafi gengið á hjá Framsóknarflokknum í Suðurkjördæmi. Báðir þingmenn flokksins sem náðu kjöri í kosningunum 2007, Bjarni Harðarson og Guðni Ágústsson, fyrrverandi flokksformaður, eru horfnir af vettvangi og varamenn þeirra, Eygló Þóra Harðardóttir og Helga Sigrún Harðardóttir, komnar á þing í þeirra stað. Eygló sækist eftir 1. sætinu enda nýorðinn ritari flokksins, en Helga ætlar að taka slaginn við Siv Friðleifsdóttur í prófkjöri flokksins í Suðvesturkjördæmi.

Eitthvað mikið þarf að gerast hjá flokknum á þessum vikum til kosninga ef takast á að halda báðum þingmönnunum. Í kosningunum 2007 fékk Framsókn 18,7% atvæða en í skoðanakönnun Capacent Gallup sem gerð var 16.-24. febrúar sl. mældist fylgi við B-listann 14,5%.

Ritaraembættið hlýtur að styrkja tilkall Eyglóar til 1. sætisins. Hún er þó ekki ein um hituna því að 4 karlmenn sækjast eftir þessu sæti einnig -  Árnesingurinn Sigurður Ingi  Jóhannsson, dýralæknir og oddviti í Hrunamannahreppi, með stóran frændgarð á þessum slóðum, Eysteinn Jónsson, bæjarfulltrúi í Reykjanesbæ, sonarsonur og alnafni fyrrum foringja Framsóknarflokksins og Birgir Þórarinsson, sérfræðingur í alþjóðasamskiptum og formaður Kjördæmasambands framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi. Fjórði maðurinn sem býður sig fram í 1. -2. sætið er Kristinn Rúnar Hartmannsson, myndlistarmaður.

Alls gáfu 13 kost á sér í prófkjörinu sem fór fram í póstkosningu og lauk 4. mars, en úrslitin voru kunngerð á aukakjördæmisþingi á Hótel Selfossi á sunnudag 8. mars og var niðurstaðan þessi:

  1. Sigurður Ingi Jóhannsson, dýralæknir, 601 atkvæði í 1. sæti.
  2. Eygló Harðardóttir, alþingismaður, 812 atkvæði í 1.-2. sæti.
  3. Birgir Þórarinsson, sérfr. í alþjóðasamskiptum, 646 atkvæði í 1.-3. sæti.
  4. Eysteinn Jónsson, bæjarfulltrúi, 739 atkvæði í 1.-4. sæti .
  5. Bryndís Gunnlaugsdóttir, lögfræðingur, 832 atkvæði í 1.-5. sæti.
  6. Guðni Ragnarsson, bóndi, 759 atkvæði í 1.-6. sæti.

 Fjöldi greiddra atkvæða : 1366

Auð og ógild : 22

Gild atkvæði : 1344


Á aukakjördæmisþingi var jafnframt samþykktur í heild sinni listi Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi.

  1. Sigurður Ingi Jóhannsson, dýralæknir
  2. Eygló Harðardóttir , alþingismaður
  3. Birgir Þórarinsson , sérfr. í alþjóðasamskiptum
  4. Eysteinn Jónsson , bæjarfulltrúi
  5. Bryndís Gunnlaugsdóttir , lögfræðingur
  6. Guðni Ragnarsson , bóndi
  7. Einar Freyr Elínarson , nemi
  8. Bergrún Björnsdóttir , nemi
  9. Ingibjörg Júlía Þorbergsdóttir, viðskiptafræðingur
  10. Inga Þyrí Kjartansdóttir , verkefnisstjóri
  11. Hansína Ásta Björgvinsdóttir, kennari
  12. Ásthildur Ýr Gísladóttir , nemi
  13. Kristinn Rúnar Hartmannsson , listamaður
  14. Ásgrímur Ingólfsson, skipstjóri
  15. Margrét Katrín Erlingsdóttir, bæjarfulltrúi
  16. Reynir Arnarson, vélstjóri
  17. Lilja Hrund Harðardóttir, nuddari
  18. Jónatan Guðni Jónsson, kennari
  19. Agnes Ásta Woodhead, gjaldkeri
  20. Guðni Ágústsson, fv. alþingismaður og ráðherra

Samfylking

Netkosning í prófkjöri Samfylkingar hófst í dag og lýkur á laugardag en alls bjóða 13 sig fram. Í þessu kjördæmi hafa orðið þau tíðindi að annar þingmaður flokksins, Lúðvík Bergvinsson, hefur ákveðið að hætta á þingi og í þessu prófkjöri kemur væntanlega á daginn hvort og/eða hversu laskaður hinn þingmaðurinn, viðskiptaráðherrann fyrrverandi, Björgvin Sigurðsson, er eftir bankahrunið.

Að honum sækir Skúli Thoroddsen af Reykjanesi, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins, sem býður sig einungis fram í 1. sætið, en Guðrún Erlingsdóttir, sérfræðingur í kjaramálum, úr Vestmannaeyjum, býður sig fram í 1.-2. sæti, Anna Margrét Guðjónsdóttir, forstöðumaður skrifstofu Sambands íslenskra Sveitarfélaga í Brussel, gefur kost á sér í 1.-3. sæti og Andrés Sigurvinsson, verkefnisstjóri á Selfossi en Eyjamaður að uppruna, sækist eftir 1.-4. sæti.

Í 2. sæti gefa kost á sér Oddný Guðbjörg Harðardóttir, bæjarstjóri í Garði, Róbert Marshall, aðstoðarmaður samgönguráðherra og Eyjamaður, Þóra Þórarinsdóttir, fyrrum ritstjóri, frá Selfossi og Árni Rúnar Þorvaldsson, grunnskólakennari, Höfn.

Flokkurinn fékk 26,8% atkvæða í kosningunum 2007 en mældist með rösk 30% í skoðanakönnuninni sem áður er vitnað til, og þriðji þingmaðurinn gæti því verið í augsýn, ef fylgið helst á því róli fram á kjördag.

Niðurstaðan varð síðan þessi:

All kusu 2389 í netprófkjöri Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi.
Röð 6 efstu manna varð þessi:

1. Björgvin G. Sigurðsson
2. Oddný Guðbjörg Harðardóttir
3. Róbert Marshall
4. Anna Margrét Guðjónsdóttir
5. Guðrún Erlingsdóttir
6. Þóra Þórarinsdóttir 

Sjálfstæðisflokkur

Flokkurinn hefur heldur ekki farið varhluta af umbrotum í samfélaginu. Oddviti flokksins í kjördæminu, Árni Mathiesen, sem stóð vaktina sem fjármálaráðherra, þegar bankahrunið varð, sagði að menn yrðu að skynja sinn vitjunartíma og ákvað að draga sig í hlé.

Flokkurinn fékk 36% atkvæða í kosningunum 2007 og fjóra þingmenn - auk Árna Matthiesen þá Kjartan Ólafsson, sem færðist upp fyrir Árna Johnsen vegna útstrikana á þann síðarnefnda og loks Björk Guðjónsdóttir, Reyknesingurinn í hópnum.

Telja má merkilegt að í skoðanakönnun Capacent Gallup frá því seinnipartinn í febrúar mældist flokkurinn í Suðurkjördæmi nánast með sama fylgi og hann fékk í kosningunum 2007 eða 35,9% og haldist þetta fylgi fram á kjördag gæti flokkurinn haldið 4 manninum. Flokkurinn mælist hvergi sterkari en einmitt í Suðurkjördæmi.

Alls gefa 17 kost á sér í prófkjörinu sem fram fer 14. mars. Ætla verður að alþingismennirnir standi sterkir að vígi  þegar út í prófkjörsslaginn er komið en nú vill svo til að fjórði alþingismaðurinn bætist í hópinn; Ragnheiður Elín Árnadóttir færir sig úr Kraganum í Suðurkjördæmi en hún er fædd og uppalin í Keflavík. Ekki er hægt að útiloka að sú ákvörðun komi verr við Reyknesinginn Björk en þá  Árna og Kjartan á þann veg að atkvæðin á Reykjanesi dreifist meira þótt hitt sé til í dæminu að Reyknesingar fyllist eldmóði um að koma þessum konum báðum á þing.

Þegar lokatölurlágu fyrir í Suðurkjördæmi varð ekki breyting á röð efstu manna frá því að fyrri tölur voru kynntar. Ragnheiður Elín Árnadóttir varð nokkuð örugglega í efsta sæti listans með 2192 atkvæði í efsta sætið. Árni Johnsen varð í öðru sæti með alls 1576 atkvæði og Unnur Brá Konráðsdóttir varð í þriðja sæti. Unnur Brá með 1428 atkvæði í 1. - 2. sætið og 1882 atkvæði í 1. - 3. sætið og afgerandi kosningu. Íris Róbertsdóttir úr Vestmannaeyjum hafnaði í 4. sæti, Kjartan Ólafsson í því fimmta og Björk Guðjónsdóttir í sjötta sæti. 

Lokaröð frambjóðendavarð því sem hér segir:

  1. Ragnheiður Elín Árnadóttir
  2. Árni Johnsen
  3. Unnur Brá Konráðsdóttir
  4. Íris Róbertsdóttir
  5. Kjartan Ólafsson
  6. Björk Guðjónsdóttir

Vinstri grænir

Suðurkjördæmi var veikasti hlekkurinn hjá flokknum í kosningunum 2007 en hann fékk þar rétt innan við 10% atkvæða. Allt annað virðist upp á teningnum núna því miðað við skoðanakönnunina seinnihluta febrúar mældist flokkurinn með um 17% atkvæða og því ekki langt í annan þingmanninn, ef svo fer fram sem horfir.

Atli Gíslason hefur reynst öflugur þingmaður og á 1. sætið frátekið því enginn hinna 12. frambjóðendanna sem gefa kost á sér, bjóða sig fram í 1. sætið. Miðað við yfirlýsta stefnu flokksins í jafnréttismálum má reikna með að annar maður á lista og hugsanlegt þingmannsefni, verði kona.

Tvær konur á listanum bjóða sig fram í 2. sætið, þær Jórunn Einarsdóttir og Arndís Soffía Sigurðardóttir. Jórunn er Vestamannaeyingur og kennari að mennt, en býr nú í Kópavogi þar sem hún leggur stund á mannauðsstjórnin við Háskóla Íslands. Arndís Soffía er löglærður fulltrúi sýslumanns en rekur einnig ferðaþjónustufyrirtæki með fjölskyldu sinni að Smáratúni í Fljótshlíð. Rétt er að taka fram að samkvæmt forvalsreglum má raða frambjóðendum í önnur sæti en þeir hafa tilgreint og því gætu fleiri komið til greina.

Forvalið fór fram með póstkosningu og niðurstaðan var þessi:

1 .sæti Atli Gíslason, alþingismaður

2. sæti Arndís Soffía Sigurðardóttir, ferðaþjónustubóndi

3. sæti Bergur Sigurðsson, framkvæmdastjóri

4. sæti Jórunn Einarsdóttir, kennari

5. sæti Þórbergur Torfason, veiðieftirlitsmaður

Vegna kynjaskiptingar færðust Bergur og Þórbergur upp um eitt sæti hvor. Endanleg ákvörðun um röðun á listanum verður tekin á fundi kjördæmisráðs.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Innlent, Kosningar — Fleiri fréttir

Föstudaginn 20. desember

Föstudaginn 29. nóvember

Fimmtudaginn 28. nóvember

Mánudaginn 18. nóvember

Laugardaginn 16. nóvember

Föstudaginn 15. nóvember

Þriðjudaginn 12. nóvember

Mánudaginn 11. nóvember

Sunnudaginn 10. nóvember

Laugardaginn 9. nóvember

Föstudaginn 8. nóvember

Laugardaginn 2. nóvember

Fimmtudaginn 31. október

Miðvikudaginn 30. október

Mánudaginn 28. október