Um skiptingu jöfnunarsæta

Með úthlutun jöfnunarsæta er leitast við að þingmannafjöldi flokkanna sé í sem bestu samræmi við prósentutölu þeirra á landsvísu í kosningunum. Hverjir fá jöfnunarsætin og í hvaða röð þeim er útdeilt (og þar með í hvaða kjördæmum hver flokkur fær jöfnunarsæti) fer eftir atkvæðatölu á landsvísu og fjölda kjördæmakjörinna þingmanna hvers flokks. Hér munu reglurnar varðandi þetta skýrðar og sýnt hvernig þeim er beitt miðað við fyrirliggjandi tölur um úrslit kosninganna 2009.

Fjöldi sæta í hverju kjördæmi

Í Norðvestur-, Norðaustur- og Suðurkjördæmi er eitt jöfnunarsæti á hvert kjördæmi, en í Suðvesturkjördæmi, Reykjavík norður og Reykjavík suður eru tvö jöfnunarsæti í hverju kjördæmi.

Landstölulisti

Ef flokkur hefur hlotið minna en 5% atkvæða kemur hann ekki til greina við úthlutun jöfnunarsæta. Fyrir aðra flokka er tekinn saman listi yfir svokallaðar landstölur flokksins. Fyrsta talan á þeim lista er heildaratkvæðafjöldi flokksins á landsvísu deilt með fjölda kjördæmissæta hans að viðbættum einum; önnur talan er atkvæðafjöldinn deilt með kjördæmissætum að viðbættum tveimur, o.s.frv.

Þá eru landstölur flokkanna bornar saman. Sá flokkur sem er með hæsta landstölu fær fyrsta jöfnunarsætið, sá sem er með næsthæstu töluna annað jöfnunarsætið og svo koll af kolli (þetta getur þó verið flóknara ef einhver flokkanna sem koma til greina hefur ekki boðið fram í öllum kjördæmum, en við getum horft burt frá því í þessu tilviki). Í þessum þingkosningum lítur heildarlistinn yfir níu hæstu landstölurnar svona út:

  1. Borgarahreyfingin (O): 3379,8
  2. Samfylking (S): 3279,9
  3. Vinstrihreyfingin - grænt framboð (V): 3121,5
  4. Samfylking (S): 3097,7
  5. Sjálfstæðisflokkur (D): 2957,9
  6. Samfylking (S): 2934,6
  7. Vinstrihreyfingin - grænt framboð (V): 2898,6
  8. Samfylking (S): 2787,9
  9. Sjálfstæðisflokkur (D): 2773,1

Hæstu menn flokkanna: úthlutunarskrá

Landstölulistinn ákvarðar hvaða flokkar fá jöfnunarsæti og í hvaða röð það gerist. En í hvaða kjördæmi er hverju jöfnunarsæti flokksins úthlutað? Hér kemur inn í söguna listi yfir þá tvo menn í hverju kjördæmi hjá hverjum flokki, sem voru næst því að komast inn við úthlutun kjördæmasæta. Hver þeirra hefur ákveðinn atkvæðafjölda frá þeim útreikningi; nú er fundið hlutfall hans af heildarfjölda atkvæða í viðkomandi kjördæmi; og þeir sem eru með hæstu hlutföllin eru settir efst á listann. Fyrir þá flokka sem eru með yfir 5% í kosningunum 2009 lítur þessi listi svona út:

Framsóknarflokkur (B)

  1. Huld Aðalbjarnardóttir (Norðaustur): 8,42%
  2. Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson (Norðvestur): 7,51%
  3. Birgir Þórarinsson (Suður): 6,66%
  4. Sigfús Karlsson (Norðaustur): 6,32%
  5. Helga Sigrún Harðardóttir (Suðvestur): 5,78%
  6. Elín R. Líndal (Norðvestur): 5,63%
  7. Bryndís Gunnlaugsdóttir (Suður): 5,00%
  8. Einar Skúlason (Reykjavík suður): 4,85%
  9. Ásta Rut Jónasdóttir (Reykjavík norður): 4,80%
  10. Gestur Valgarðsson (Suðvestur): 3,85%
  11. Guðrún H. Valdimarsdóttir (Reykjavík suður): 3,23%
  12. Þórir Ingþórsson (Reykjavík norður): 3,20%

Sjálfstæðisflokkur (D)

  1. Birgir Ármannsson (Reykjavík suður): 7,73%
  2. Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir (Norðvestur): 7,64%
  3. Sigurður Kári Kristjánsson (Reykjavík norður): 7,13%
  4. Jón Gunnarsson (Suðvestur): 6,91%
  5. Íris Róbertsdóttir (Suður): 6,56%
  6. Arnbjörg Sveinsdóttir (Norðaustur): 5,82%
  7. Erla Ósk Ásgeirsdóttir (Reykjavík suður): 5,79%
  8. Birna Lárusdóttir (Norðvestur): 5,73%
  9. Óli Björn Kárason (Suðvestur): 5,53%
  10. Ásta Möller (Reykjavík norður): 5,34%
  11. Kjartan Ólafsson (Suður): 5,25%
  12. Björn Ingimarsson (Norðaustur): 4,36%

Borgarahreyfingin (O)

  1. Margrét Tryggadóttir (Suður): 5,12%
  2. Katrín Snæhólm Baldursdóttir (Reykjavík norður): 4,78%
  3. Valgeir Skagfjörð (Suðvestur): 4,55%
  4. Baldvin Jónsson (Reykjavík suður): 4,34%
  5. Gunnar Sigurðsson (Norðvestur): 3,33%
  6. Jóhann Kristjánsson (Reykjavík norður): 3,19%
  7. Ingifríður R. Skúladóttir (Suðvestur): 3,03%
  8. Herbert Sveinbjörnsson (Norðaustur): 2,95%
  9. Sigurlaug Ragnarsdóttir (Reykjavík suður): 2,89%
  10. Jón Kr. Arnarson (Suður): 2,56%
  11. Lilja Skaftadóttir (Norðvestur): 1,67%
  12. Björk Sigurgeirsdóttir (Norðaustur): 1,48%

Samfylking (S)

  1. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir (Reykjavík suður): 8,23%
  2. Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Reykjavík norður): 8,23%
  3. Magnús Orri Schram (Suðvestur): 8,04%
  4. Jónína Rós Guðmundsdóttir (Norðaustur): 7,58%
  5. Arna Lára Jónsdóttir (Norðvestur): 7,58%
  6. Anna Margrét Guðjónsdóttir (Suður): 6,99%
  7. Anna Pála Sverrisdóttir (Reykjavík suður): 6,59%
  8. Mörður Árnason (Reykjavík norður): 6,59%
  9. Lúðvík Geirsson (Suðvestur): 6,43%
  10. Logi Már Einarsson (Norðaustur): 5,68%
  11. Þórður Már Jónsson (Norðvestur): 5,68%
  12. Guðrún Erlingsdóttir (Suður): 5,59%

Vinstrihreyfingin - grænt framboð (V)

  1. Arndís Soffía Sigurðardóttir (Suður): 8,56%
  2. Álfheiður Ingadóttir (Reykjavík norður): 8,00%
  3. Kolbrún Halldórsdóttir (Reykjavík suður): 7,63%
  4. Ásmundur Einar Daðason (Norðvestur): 7,61%
  5. Bjarkey Gunnarsdóttir (Norðaustur): 7,42%
  6. Auður Lilja Erlingsdóttir (Reykjavík norður): 6,00%
  7. Þorsteinn Bergsson (Norðaustur): 5,94%
  8. Ólafur Þór Gunnarsson (Suðvestur): 5,80%
  9. Ari Matthíasson (Reykjavík suður): 5,72%
  10. Halldóra Lóa Þorvaldsdóttir (Norðvestur): 5,71%
  11. Jórunn Einarsdóttir (Suður): 5,70%
  12. Margrét Pétursdóttir (Suðvestur): 4,35%

Lista af þessu tagi má nefna úthlutunarskrá.

Sætunum útdeilt

Nú má loks útdeila jöfnunarsætunum. Þetta er gert þannig:

Litið er á landstölulistann. Fyrir þann flokk, sem næstur er í röðinni á honum, er fundinn efsti maður á úthlutunarlistanum sem hvorki (a) hefur þegar verið úthlutað sæti (b) var í framboði í kjördæmi, þar sem þegar er búið að úthluta öllum tiltækum jöfnunarsætum. Þetta er endurtekið þar til búið er að útdeila öllum níu jöfnunarsætunum.

Þegar þessari reglu er beitt á fyrirliggjandi niðurstöður þingkosninganna 2009 fæst eftirfarandi listi yfir uppbótarþingmenn:

  1. Margrét Tryggadóttir (O, Suður)
  2. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir (S, Reykjavík suður)
  3. Álfheiður Ingadóttir (V, Reykjavík norður)
  4. Steinunn Valdís Óskarsdóttir (S, Reykjavík norður)
  5. Birgir Ármannsson (D, Reykjavík suður)
  6. Magnús Orri Schram (S, Suðvestur)
  7. Ásmundur Einar Daðason (V, Norðvestur)
  8. Jónína Rós Guðmundsdóttir (S, Norðaustur)
  9. Jón Gunnarsson (D, Suðvestur)

Til nánari upplýsingar skal vísað til kosningalaganna, XVI. kafla (og sér í lagi 108. greinar), en þau má m.a. finna hér.