Tónleikasprengjan

10 megapixla myndavélarsími frá Samsung.
Reuters
Farsímar voru afar áberandi á CeBIT enda þróunin afar hröð í þeirri tækni. Nú er hægt að horfa á sjónvarp, hlusta á útvarp og spila dægurlög með farsíma. Hægt er að taka ljósmyndir, fara á netið, hringja í gegnum netið og síðast en ekki í síst hringja í annað fólk bæði í heimilissíma og venjulega, sem óþarfi er að taka fram. Það sem hins vegar hefur enn ekki tekist er að sameina þetta allt í einn farsíma. Tæknin tekur jú alltaf eitthvað pláss innan í símanum, með innvolsi og minniskortum og menn eru um leið að reyna að gera þá minni og meðfærilegri en þó nothæfa. Sem gott dæmi um þessa jafnvægislist eru þeir farsímar sem minnst er fyrst á í þessum hluta, SGH-i30 og SCH B600, báðir frá Samsung. Sá fyrrnefndi er hannaður með það fyrir augum að geyma mikið magn skráa en hinn nýtir sitt rými í geysiöfluga myndavél sem bitnar á geymsluplássi.

Lee Ki-tae, yfirmaður fjarskiptasviðs Samsung, sagði blaðamanni Washington Post að stefnan hjá fyrirtækinu væri sú að ná 15% markaðshlutdeild í Evrópu með nýjasta afsprenginu, farsímanum SGH-i310. Sá sími getur vistað ógrynni upplýsinga, t.d. ljósmynda og hljóðskráa, þar sem harður diskur símans er hvorki meira né minna en 8 GB. Samsung segir það stærsta, harða disk sem settur hafi verið í farsíma en hann er keyrður á Windows Mobile 5.0 kerfi. Síminn virðist eins konar blanda spilastokks (i-Pod og aðrir hljóð- og myndskráaspilarar), myndavélar og síma en geymsluplássið í símanum er þó meira en í i-Pod Nano.

Motorola RAZR V3x fyrir þá sem vilja bara vera smart og horfa á sjónvarpið um leið.
Reuters
Undarlegt má leikmanni þykja að svo mikið minni geti verið í einum síma en því er náð með því að setja í hann fjölda missmárra minniskorta, MMC (e. micro memory cards). Að auki er hægt að taka upp hreyfimyndir á símann, spila hljóðskrár (MP3, AAC og AAC+) og tengja hann við sjónvarp, vilji maður horfa á upptökurnar. Vandamál Samsung er hins vegar hvort neytendur hafa áhuga á því að nota símana sína til þess að hlusta á tónlist, en nýleg könnun fyrirtækisins RBC Capital Markets bendir til að svo sé ekki. Setja á símann á sölu í júní í Suður-Kóreu og á aðra markaði síðar á árinu. Hinn farsíminn sem ég minntist á, SCH B600, er með 10 megapixla myndavél. Það er tvöfalt hærri upplausn en í dæmigerðri, stafrænni myndavél í dag og virðist þróun slíkra myndavéla geysihröð.

Samsung hefur hingað til haldið sig við gerð farsíma í dýrari kantinum en gæti nú í auknum mæli farið að hasla sér völl á markaði fyrir ódýrari gerðir farsíma. Finnska fyrirtækið Nokia hefur yfirburðastöðu á evrópskum markaði, um 30% hlutdeild og Toshiba fylgir á hæla því. Sony Ericsson var líka með sína myndavélarsíma, K800 og K790, sem eru með 3,2 megapixla myndavélum. Þriðju kynslóðar síminn W950 Walkman er með 4 GB minni til að geyma hljóðskrár en enga myndavél.

Sýningarsvæði BenQ var afar frumlegt.
Reuters
Síminn beðinn um að spila lag

BenQ Mobile fyrirtækið var einnig með mikla farsímasýningu og vakti einna helst athygli EF51, farsími sem lítur út eins og stafrænn spilastokkur en er þó sími sem hægt er að spila hljóðskrár í. Það þykir þó varla merkilegt lengur heldur frekar það, að í honum er raddskynjari sem gerir notanda kleift að „segja“ símanum hvaða lag hann vilji hlusta á. Síminn er einnig kærkominn karíókí-unnendum þar sem texti lagsins birtist á skjánum. Þá hefur fyrirtækið búið til farsíma með Google hugbúnaði sem hægt er að uppfæra þráðlaust. BenQ stefnir að því að framleiða farsíma með þráðlausum netaðgangi með hraða breiðbandsins. Farsímarnir með Google-hugbúnaðinum fara á markaði í apríl.

Líklegt þykir að svokallaður „dual phone“ farsími, eða tvinnsími, sé það sem koma skal. Slíkur sími er er bæði heimilissími og farsími í senn, hægt að hringja úr honum með notkun fastrar línu innan byggingar eða um netið á svæðum sem bjóða upp á þráðlaust net (wi-fi). Símreikningurinn verður samt sem áður í einu lagi. Því virðist sem hugtökin „farsími“ og „heimilissími“ gætu vikið í framtíðinni fyrir „tvinnsíma“. Farsímarisarnir hafa þegar boðað komu slíkra tvinnsíma á árinu.

Til baka á upphafssíðu