Tónleikasprengjan

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, skoðar Origami, eða Q1, við opnun CeBIT.
Reuters
Bill Gates og hans mönnum í Microsoft tókst að æsa upp forvitnina í mönnum fyrir kynninguna á nýjasta samvinnuverkefni Microsoft, Samsung, Founder og Asus, hinni smáu og þunnu Q1 fartölvu. Hún hlaut gælunafnið Origami þegar Microsoft fór að leka upplýsingum um hana á Netið og virðist það ætla að loða við hana framvegis.

Tölvu- og hugbúnaðarvefsíðan CNet gerði úttekt á fartölvunni þann 13. mars síðastliðinn og segir þar enn vanta upp á þá stórkostlegu og agnarsmáu fartölvu sem Gates hafi lofað heiminum í fyrra. Æsingarherferð Microsoft fyrir Origami þykir, af mönnum CNet, hafa sprungið í höndunum á Gates þar sem menn áttu von á einhverju mun merkilegra en fartölvunni litlu og eftirvæntingin meiri en Microsoft óaði fyrir. Í stuttu máli er Origami fartölvan á stærð við innbundna skáldsögu og með snertiskjá, hún er tæp 800 g., skjárinn er 7 tommur og harði diskurinn 40 GB. Lyklaborðið er á snertiskjánum sem er með hinu þekkta XP Windows útliti með örlitlum breytingum þó. Tölvan auðveldar mönnum að finna forrit með sérstökum hugbúnaðarviðauka og tákn eru stærri en fólk á að venjast og flettistikur einnig, til að auðvelda mönnum að framkvæma hluti á snertiskjánum.

Í raun má segja að tölvan sé með tvenns konar notkunarstillingar. Önnur er hin dæmigerða fartölva með Windows-skjáborði en hin miðar við afþreyingu, þ.e. að horfa á kvikmyndir, hlusta á tónlist o.s.frv. Einnig er móttakari fyrir sjónvarpsútsendingar ætlaðar farsímum og þá fartölvum í framtíðinni. Ekki þarf að hafa stýrikerfið í gangi á afþreyingarstillingunni en hún er einnig með móttakar fyrir sjónvarpsútsendingar. Origami mun kosta 1.190 dollara þegar hún kemur á markað í Bandaríkjunum í maí og þykir mörgum það fullhátt verð.

Búast má við svipuðum UMPC fartölvum (ultramobile PC), þ.e. sérstaklega ferðavænum fartölvum, frá fyrirtækjunum Asustek og Founder. Intel örgjörvaframleiðandinn vill að Microsoft hanni enn minni fartölvu og með endingabetri rafhlöðu, en Microsoft segist nú vera að hanna fartölvu sem verði enn meðfærilegri og með hinu nýja stýrikerf, Windows Vista. Origami er ætlað að brúa bilið milli farsíma og fartölvu, að sögn talsmanns Microsoft á sýningunni sem segir slíka gripi snúist um lífsstíl. Oft sé erfitt að skilja heimili frá vinnustað og þá komi Origami sér vel.

Intel segist stefna að því á næstu fimm árum að framleiða örgjörva sem er tífalt öflugri en sá sem öflugastur er nú og að fartölvur geti nýtt rafhlöðuna fimm sinnum betur en nú. Eins og margir fartölvueigendur vita eiga rafhlöður það til að endast í skamma stund og yrði það því kærkomin bót.

Auglýsing fyrir minniskort máluð á sýningarstúlkuna Silke. Svo virðist sem græjurnar séu ekki alltaf nóg fyrir augað.
AP
Fartölva hins sjálfhverfa?

Fartölvur eru þó ekki alltaf framleiddar með vinnsluhraða, stærð stýrikerfi í huga. Ego fyrirtækið kynnti á CeBIT fartölvur sem sniðnar eru að þörfum kvenna eða nútímakarlmannsins, s.k. „metrósexúal“ karlmanns sem leggur mikið upp úr eigin útliti og lífsstíl. Utan um fartölvurnar hafa verið hannaðar sérstakar töskur eða klæði sem hægt er að skipta um og það sem kemur hinum sjálfhverfa hvað best er lítil, innbyggð myndavél sem breytir skjá tölvunnar í spegil. Er þá átt við að með því að ýta á hnapp sé hægt að fylla skjáinn með beinni útsendingu af manni sjálfum. Efst á fartölvunni eru 15 hnappar fyrir ýmsar aðgerðir, t.d. upptöku minnispunkta, DVD-spilara og stafrænt sjónvarp og virðist hún hinn skemmtilegasti gripur.

En aftur að alvörunni. Taívanska hátæknifyrirtækið Antig kynnti á CeBIT nýjan orkugjafa fyrir fartölvur sem verður að öllum líkindum kominn í verslanir á næsta ári. Þetta er s.k. metanól-sella, sem getur haldið fartölvu gangandi í heilan dag án hleðslu. Metanól er einfaldasta form alkóhóls og yrði rafmagn myndað með sérstöku ferli úr því sem tölvan gengi svo fyrir. Fylla yrði aftur á sellurnar með sérstökum metanólhylkjum. Á næsta ári verður flugfarþegum heimilt að hafa ákveðið magn af metanóli í fórum sínum og því ættu allir vegir að vera færir slíkri orkugjafabreytingu í fartölvum.

Þá kynnti IBM nýja frumgerð af nýjum, þunnum netþjóni sem notar fjölkjarna örgjörvann Cell og getur sinnt þungum verkefnum. Þessi örgjörvi verður notaður í næstu kynslóð Sony Playstation leikjatölvunnar, PS3. Cell var þróuð af IBM, Sony og Toshiba en Sony hefur reyndar frestað því að ýta Playstation 3 úr vör þar til í nóvember á þessu ári vegna tæknilegra örðugleika við Blu-ray diskadrifið (sem fjallað er um í greininni um mynddiskatækni og sjónvörp).

Þá kynnti Nvidia s.k. SLI-tækni sem þýðir að hægt verður að nýta fjóra örgjörva til að meðhöndla grafík á tölvuskjám. Það eru sannarlega góðar fréttir fyrir tölvuleikjaunnendur en örgjörvinn nýtist einnig þeim sem horfa á kvikmyndir í fartölvum sínum. Að lokkum má svo nefna að þýska rannsóknarstofnunin Julich tilkynnti á sýningunn að hún hefði nú tekið í gagnið „ofurtölvu“ til próteinrannsókna. Sú tölva hefur hvorki meira né minna en 16.384 örgjörva og er með 45,6 teraFLOP vinnsluhraða. Það þýðir að hún getur framkvæmt 45,6 billjón reikniaðgerðir á rauntölum á sekúndu.

Til baka á upphafssíðu