html, body, table, td { margin: 0; padding: 0; font-family: verdana, "bitstream vera sans", "lucida grande", "lucida sans", lucida, geneva, sans-serif; font-size: 11px; line-height: 15px; }
Tónleikasprengjan

Maður leikur sér að vélmennum frá RoboNetics.
AP
Hvern vantar ekki þvottavél sem fylgist með því hvort rauður sokkur sé innan um hvítan þvott? Eða ísskáp sem fylgist með því hvað vantar í hann, sláttuvél sem fer sjálf út úr bílskúrnum til að slá grasið og demantaskreyttan USB-minniskubb? Margir myndu svara því til að enginn þyrfti á slíku að halda en þá ber að minna á að sjálfsagt hélt einhver að enginn myndi nota farsíma í framtíðinni þegar þeir sáust fyrst.

Þó svo vélmenni séu ekki orðin hluti af hverju heimili þá er ljóst að tæknifyrirtæki eru mörg iðin við þróun slíkra tækja. Þeirra á meðal er japanska fyrirtækið NEC sem sýndi smávaxið vélmenni sem er með tveimur innbyggðum myndavélum og fjórum hljóðnemum sem það notar til þess að greina fólk í sundur og þekkja. Vélmennið ávarpar þann sem það greinir með nafni. Þá er það sláttuvélin fyrrnefnda frá sænska heimilistækjaframleiðandanum Electrolux sem slær grasið sjálf og snýr síðan aftur í hleðslustöðina. Slík græja myndi sjálfsagt leysa marga deiluna í fjölbýlishúsum. Enn furðulegri uppfinning er stafrænt teppi frá Vorwerk, þýsku fyrirtæki, sem leiðbeinir ryksuguvélmenni hvar það eigi að ryksuga. Ótrúlegt en satt.

Angela Merkel kanslari með innkaupakerru til kynningar nýrri tækni í vörumerkingu.
Reuters
Þó svo slíkt teppi sé kannski ekki beinlínis það sem maður er að leita að þá gæti uppfinning taívanska fyrirtækisins Asiamajor verið það sem margir einmana netverjar eru að leita að: Netmyndavél sem gerir mann meira aðlaðandi. Myndavélin fjarlægir bletti eða bólur í andliti og gerir mann sólbrúnan og sællegan. Vilji menn vera „tæknilega“ klæddir geta þeir fengið sér flík með ísaumuðum spilastokkum og öðrum græjum frá virtum hönnuðum á borð við Pierre Cardin og Cinque. Tæknilega klæddir geta þá í framtíðinni keyrt um á bílum sem þeir geta talað við. Þýsku fyrirtækin Siemens, DaimlerChrysler og Fraunhofer-stofnunin eru að þróa nýtt upplýsingakerfi fyrir bíla sem sækir upplýsingar af netinu og miðlar þeim til ökumanns um bílaútvarpið. Þá mun maður að geta spurt bílinn að því hvar ódýrasta bensínstöðin sé í nágrenninu eða næsti ítalskur veitingastaður og svar berst um hæl í hátalarakerfinu. Að vísu reikna menn með því að þessi tækni verði ekki komin í gagnið fyrr en eftir tíu ár.

Biðraðir við búðarkassa brátt úr sögunni

Hitachi fyrirtækið greindi frá því á CeBIT að brátt yrðu bíllyklar óþarfir. Eigendur þeirra myndu stinga putta í þartilgerða rauf á bílnum sem myndi skanna fingurinn, hleypa eigandanum inn og stilla sætið eftir hans óskum. Fingurskanninn greinir ekki fingrafar heldur æðarnar í fingrinum. Fingrafar getur breyst verði húðin þurr eða ef viðkomandi er með sár á fingri. Æðarnar eru hins vegar alltaf á sama stað. Ef við höldum okkur á þessum slóðum þá hafa taugasérfræðingar frá þýska Charite spítalanum og tölvufræðingar við Fraunhofer stofnunina fundið upp s.k. hugarritvél (e. Mental Typewriter). Slíkt tæki minnir á leðursundhettu sem tugur víra er tengdur við og vírarnir yfir í tölvu. Sundhettan nemur heilavirkni og voru þeir sem prófuðu tækið á sýningunni beðnir um að sjá ýmsar hreyfingar í huga sér, t.d. að færa bolta úr hægri hendi yfir í vinstri. Við það verður heilavirkni í ólíkum hlutum heilans sem tölvan fær boð um og gat fólkið þannig hreyft ör á skjá, kallað fram bókstafi og myndað orð og setningar. Það tekur hins vegar mjög langan tíma.

Gestir prófa þrívíðan flughermi Deutsche Telekom.
Reuters
Þýska smásölufyrirtækið Metro Group kynnti á sýningunni s.k. RFID-tækni sem mun að öllum líkindum leysa strikamerkin af hólmi. Þá verður litlum sendi á stærð við hrísgrjón komið fyrir á öllum vörum sem þýðir að hægt verður að keyra innkaupakerruna með hraði fram hjá sérstökum nema eða skanna sem leggur verð þeirra saman í hvelli. Án efa mun fólk taka þeirri tækni fegins hendi og verði þetta að veruleika má jafnvel vonast til þess að biðraðir við innkaupakassa verði brátt úr sögunni. Með sömu tækni verður hægt að koma fyrir slíkum nemum í ísskápum sem skrá þá sjálfkrafa hvað er í þeim og hvað búið og þar af leiðandi hvað þarf að kaupa. Sama fyrirtæki, Metro, bauð sýningargestum að prófa allsérstakan mátunarklefa þar sem fólk þarf ekki að fara í fötin til að máta þau. Þess í stað er viðkomandi skannaður, þ.e. líkami hans mældur nákvæmlega og klæddur í fötin í tölvunni, svo að segja. Að auki stingur tölvan upp á flíkum sem hún telur eiga vel við þau föt sem viðkomandi mátaði. Auk Metro stendur fjöldi tæknifyrirtækja að baki þessari nýjung sem ber nafnið Future Store.

Að lokum eru svo góðar fréttir fyrir karlmenn sem erfitt eiga með að setja í þvottavél en allt bendir til þess að þær muni í framtíðinni hafa vit fyrir fólki og koma í veg fyrir að viðkvæmar flíkur fari á suðu. Þvottavélarnar munu nema upplýsingar á sérgerðum þvottamiðum fata, hvaða þvottaprógramm eigi að nota o.s.frv. Að öllu samanlögðu virðist sem vélarnar hafi sífellt meira vit fyrir mönnum, spari tíma og auki öryggi.

Til baka á upphafssíðu