Nokia N92 með snúanlegum sjónvarpsskjá. Reuters |
Viviane Reding, talsmaður Evrópusambandsins í fjarskiptamálum, sagði í ávarpi á CeBIT að Evrópa mætti ekki við því að dragast aftur úr öðrum álfum sem væru vel á veg komnar með slíka þjónustu. ESB yrði að úthluta bylgjulengdum til slíkra sendinga og það hið allra fyrsta. Margir gera sér vonir um að þessi tækni og þjónusta verði í boði fyrir HM í knattspyrnu í Þýskalandi í sumar og hefur fjarskiptafyrirtækið Deutsche Telekom greint frá því að viðskiptavinir þess geti horft á 20 af 64 leikjum mótsins í farsímanum sínum. Kannanir hafa sýnt að neytendur vilja að meðaltali 16 rásir að velja úr. Nokia farsímarisinn kynnti til sögunnar nýjan farsíma, N92, sem stefnt er að því að komi á markað síðar á þessu ári. Sá sími er með DVB-H-nema (e. Digital Video Broadcasting for Handhelds) fyrir stafræna hreyfimyndamóttöku og hægt að velja í honum efni til að horfa á og búa til sína eigin sjónvarpsdagskrá. LG fyrirtækið kynnti sína útgáfu af slíkum síma, V9000 TV, sem er með snúningsskjá þannig að hægt er að halda símanum lóðréttum en horfa á skjáinn láréttan. BenQ Mobile og Samsung eru einnig búin að tileinka sér þessa tækni og framleiða slíka síma. P51 farsími BenQ er þeim kosti gæddur að innihalda Skype forritið, sem gerir mönnum kleift að hringja í aðra um Netið (svokallað VoIP, e. voice-over-Internet protocol) og Nokia og Samsung hafa einnig búið til slíka síma. Greinarhöfundur kýs að kalla þettta netsímafarsíma. Fyrirtækin Vodafone og T-Mobile bjóða upp á niðurhal í fartölvur með hraða allt að 10 MB/ sek og er búist við því að slíkur hraði á niðurhali í farsíma náist síðar á árinu. Síðasti en ekki sísti hópur farsíma er sá sem gerir út á útlit fremur en tækni. Motorola Razr V3 minnir, eins og nafnið bendir til, á rakhníf þar sem hann er þunnur og opnast með svipuðum hætti. Sú tegund er nú til í bláum og rauðum lit. Aðrir farsímaframleiðendur hafa fylgt dæmi Motorola og reyna nú að bjóða upp á eins þunna síma og hægt er. LG leitaði til hönnuðarins Roberto Cavalli og afrakstur þess samstarfs er LG U880 sem svipar mikið til Razr. Farsíminn er því ekki aðeins til notkunar heldur einnig til skrauts.