Plútó

Reikistjarnan Plútó er mönnum að mörgu leyti ráðgáta. Vegna fjarlægðarinnar er erfitt að rannsaka reikistjörnuna, jafnvel með Hubble-sjónaukanum og öðrum stærri sjónaukum sem til eru. Út frá mælingum á stærð og massa Plútó er talið að reikistjarnan sé samsett úr 50-75% af bergi og ís og yfirborðið 98% nitur. Afgangurinn er metan og kolmónoxíð. Þar sem Plútó er ysta reikistjarna sólkerfisins nýtur þar lítillar sólar og er hitastigið lágt eða um 230 gráðu frost.

Á Stjörnufræðivefnum kemur fram að litrófsmælingar á reikistjörnunni benda til að yfirborðið sé nokkuð rauðleitt en óljós merki um mislit svæði á yfirborðinu hafa sést á óskýrum myndum Hubble-sjónaukans. Ef til vill er um tvískipt yfirborð að ræða: Annars vegar úr björtum metanís og hins vegar eitthvað annað dökkt yfirborðslag. Kemur það í hlut New Horizons að skera úr um hvernig yfirborð reikistjörnunnar er í raun og veru. Ef metan og nitur eru uppistaðan í yfirborði Plútós má gera ráð fyrir því að landslagið sé síbreytilegt, en fjöll og dalir hverfa á meðan önnur myndast í staðinn. Allt fer þetta eftir því hvar á braut um sólina Plútó er þegar New Horizon tekur myndir af reikistjörnunni.

Plútó var síðasta reikistjarnan í sólkerfinu til að finnast, en það var bandaríski stjörnufræðingurinn Clyde William Tombaugh sem uppgötvaði hana árið 1930. Tvö agnarsmá tungl fundust svo á sveimi umhverfis Plútó um mitt síðasta ár. Þetta eru fyrstu tunglin við Plútó sem hafa fundist síðan stærsta tungl reikistjörnunnar, Karon, fannst árið 1978. Tunglin hafa ekki hlotið varanleg nöfn en eru til bráðabirgða kölluð S/2005 P1 og S/2005 P2.

Að öðru leyti er lítið vitað um tungl Plútó að öðru leyti en því að þau eru á nánast hringlaga brautum umhverfis reikistjörnuna, á sama brautarfleti og Karon, en mun utar eða í tæplega 49.000 og 64.000 km fjarlægð frá reikistjörnunni. Karon er til samanburðar í um 20.000 km fjarlægð frá Plútó. Sé fjarlægðin áætluð er umferðartími þeirra (sá tími sem það tekur þau að ljúka einni hringferð um Plútó) um það bil 25 og 38 dagar. Plútó hefur því að minnsta kosti þrjú tungl, en heildarfjöldi tungla í sólkerfinu er 159. Flest eru þau við Júpíter eða 63 talsins og 50 við Satúrnus.

• Vefsíða John Hopkins háskólans um könnunarleiðangurinn  •  Vefsíða NASA um New Horizon  •  Plútó á Stjörnufræðivefnum  •  Vefsíða Hubble-sjónaukans
Til baka