Í febrúar síðastliðnum var lögfest á Alþingi breyting á höfundarréttarlögum samkvæmt EES-tilskipun sem byggir á alþjóðlegum sáttmálum frá upplýsingasamfélaginu: Höfundarréttarsamningi Alþjóðahugverkastofnunarinnar (WIPO) og sáttmála WIPO um flutning og hljóðritun. Höfundar og aðrir rétthafar efnis, svo sem listflytjendur, framleiðendur, útvarpsfyrirtæki og útgefendur hljóðritana eiga einkarétt á sínu efni og nýtingu þess og fá þess vegna greidd höfundarlaun þegar efni þeirra er dreift með löglegum hætti. Þeir sem veita aðgang að því á netinu verða að hafa leyfi frá rétthöfum og með gildistöku laganna varð það ólöglegt að hlaða upp efni á netið án slíks leyfis.

Efni á netinu er þó mikill frumskógur og stór hluti þess settur þangað með leyfi höfunda. Oft breytast upplýsingar um efnið, t.d. dægurlög, þegar það er sett á netið og því oft ógjörningur að sjá hvort um löglegt upphal er að ræða eða ekki. Það er þó klárlega ólöglegt þegar um er að ræða kvikmyndir t.d. sem hafa ekki verið heimsfrumsýndar og hvað þá þegar tilkynning berst reglulega við áhorf um að eintakið beri að tilkynna til lögreglu ef það sé sýnt utan veggja þess fyrirtækis sem það framleiddi. Einnig má vera að eigendur efnisins setji það inn á sína tölvu og dreifi því óafvitandi með skráaskiptaforriti. Þá er urmull af efni sem ólíklegt er að fyrirtækin hagnist frekar af, t.d. gamlir sjónvarpsþættir og einnig setja menn efni sitt ókeypis inn á netið til dreifingar sem ókeypis auglýsingu, ef svo mætti kalla.

Eiríkur Tómasson
Eiríkur Tómasson, prófessor í lögfræði við Háskóla Íslands og lögmaður Sambands tónskálda og eigenda flutningsréttar, STEF, segir niðurhal sem slíkt á skrám af netinu löglegt. Sumir haldi því þó fram að svo sé ekki. Menn eigi almennt að vita að efnið sem þeir séu að sækja sé verndað höfundarrétti og komið fyrir á netinu með ólögmætum hætti. „Ég hef haldið því fram að það sé ekki hægt að refsa mönnum fyrir þetta og hæpið að beita þá öðrum viðurlögum eins og skaðabótum. Danirnir eru búnir að breyta sínum lögum og tala um að til þess að menn megi taka niður efni til einkanota þá verði efnið að vera lögmætt. Það er enginn slíkur fyrirvari í okkar lögum, þó allir séu nú ekki sammála mér í því. En eins og lögin íslensku eru úr garði gerð þá er það vafasamt að þetta sé brot,“ segir Eiríkur.

Eiríkur segir ákvæði í lögunum sem leggi refsingu við höfundarréttarbrotum tala um að það megi refsa fyrir brot á þeim ef „verknaðurinn sé framinn af ásetningi eða stórfelldu gáleysi.“ Sumir haldi því fram að niðurhal á höfundarréttarvörðu efni sé stórfellt gáleysi, menn eigi að sjá að efnið sé ekki fengið með lögmætum hætti. „Ég held því nú fram að það sé a.m.k. vafasamt að hægt sé að refsa því það er gerð krafa um skýrleika refsiheimilda,“ segir Eiríkur. „Ég held að það að setja efni inn á netið sé augljóslega brot, að hala upp eins og það er kallað. Það sem gerist í þessum skráaskiptaforritum er að um leið og þú tekur niður ertu um leið að hala upp, það gerist sjálfvirkt og um leið ertu þá að brjóta af þér,“ segir Eiríkur. Ef menn stilli forritið þannig að þeir deili ekki skrám í tölvum sínum með öðrum séu þeir í raun ekki að brjóta lög. Þess má geta að skráaskiptaforrit eru þannig úr garði gerð að ef notandinn kemur í veg fyrir að aðrir geti sótt skrár til hans eru honum settar hömlur og hann getur lítið sótt af skrám í framhaldi.

Þeirri spurningu er beint til Eiríks hvort foreldrar ósakhæfra barna, sem stundi skráaskipti grimmt, eigi á hættu kæru þar sem þeir séu forræðismenn þeirra. „Þá erum við komnir að spurningu um refsiverða hlutdeild og aftur að þeirri spurningu hvort frumbrotið sé refsivert, þ.e. að hala niður. Er þetta brot sem framið er af ásetningi eða stórfelldu gáleysi? Ég hef sett spurningarmerki við það og ef ég væri saksóknari, en ég er núna starfandi með höfundarréttarsamtökum (STEF) þá myndi ég leggjast gegn því að fara í mál og krefjast þess að viðkomandi yrði dæmdur til refsingar, hvort sem um væri að ræða gerandann sjálfan eða hlutdeildarmann,“ segir Eiríkur. Það sé reynsla manna í STEF-i að það hafi alvarlegar afleiðingar að fara í mál og tapa því.

Eiríkur býst við því í framtíðinni að samningar verði gerðir milli símafyrirtækja eða þeirra sem reki netþjóna með höfundarréttarvörðum skrám um að þau greiði höfundarréttarsamtökum ákveðnar greiðslur og í staðinn fái notendur viðkomandi nets að hala niður efni og greiðsla berist þá höfundi. Rafræn boð berist, m.ö.o. til samtakanna um hvaða efni sé verið að ná í. Þau höfundarréttargjöld sem tekin voru upp af auðum og áskrifanlegum diskum árið 2001, séu að hans mati bráðabirgðalausn.

Innheimtumiðstöð gjalda (IHM) hóf innheimtu gjalda af auðum geisladiskum, DVD-diskum, myndböndum, hljóðböndum og hljóðritunarbúnaði árið 2001. Mikill hluti þeirra tekna sem STEF hefur af þeim gjöldum rennur til erlendra höfunda þar sem fylgst er með notkun á þeirra verkum hér. Sjá má tekjur IHM af þessum gjöldum í töflu sem fylgir fréttaskýringunni. Gjaldið sem lagt var á geisladiska með allt að 2 GB minnisrými er 35 kr. og á stærri diska 100 kr.




Eiríkur segir gjaldtökuna þó enga varanlega lausn á málum og vonast til þess að fundin verði lausn þar sem fyrirtæki veiti aðgengi að skrám eða efni og greitt verði fyrir notkun þess til höfundarréttarhafa. Með því verði horfst í augu við að tæknin sé komin til að vera og að finna verði lausn sem hentar öllum. Menn séu í auknum mæli að vista skrár á harða diska í stað geisladiska og þess vegna hafi tekjur minnkað í fyrra miðað við árið 2004. Íslenskir rétthafar í STEFi hafi árið 2003 fengið 42,7 milljónir fyrir plötu- eða diskasölu, árið 2004 hafi þær verið 37,9 og samkvæmt áætlunum fyrir árið 2005 séu tekjurnar 33,3 milljónir. Uppgjör komi þó hálfu ári á eftir sölu og því ekki tölur inni í þessu úr jólasölunni 2005, en þá voru kaupmenn og hljómplötuútgefendur sammála um að metsala hefði verið á íslenskum plötum.

Gunnar Guðmundsson, lögmaður Samtóns, samtaka STEFs og Sambands hljómplötuframleiðenda, segir sölu á innlendum hljómplötum hafa staðið í stað í fyrra miðað við árið 2004, miðað við þær upplýsingar sem hann hefði undir höndum.

Til baka á upphafssíðu