Hið merkilega er að Nettwerk er stærsta tónlistarútgáfufyrirtæki Kanada en tekur þó afstöðu gegn því að RIAA kæri þá notendur sem hala upp tónlist með ólögmætum hætti. Meðal þeirra listamanna sem heyra undir Nettwerk eru Avril Lavigne, Barenaked Ladies, Dido, Sum 41 og Sarah McLachlan. Útgáfufyrirtækið dróst inn í átökin eftir að 15 ára gömul stúlka hafði sett sig í samband við rapparann MC Lars, sem er skjólstæðingur Nettwerk, vegna þess að RIAA kærði fjölskyldu stúlkunnar fyrir þann gjörning hennar að hala niður 600 lögum á fjölskyldutölvuna og krafðist 6000 dollara í skaðabætur. Framkvæmdastjóri Nettwerk, Terry McBride, telur það nefnilega ekki lausn á vandamálinu, heldur vandamál í sjálfu sér, að kæra tónlistarunnendur með þessum hætti.
RIAA lagði fram 751 kæru gegn notendum skráaskiptaforrita í desember sl. Af öðrum stórum útgáfufyrirtækjum sem hyggjast fylgja þróuninni í stað þess að synda á móti straumnum er Warner Brothers sem er að skoða þann kost að selja bíómyndir og sjónvarpsþætti á netinu í Þýskalandi, Austurríki og Sviss með skráaskiptaaðferð og undir nafninu In2Movies. Sú krafa vex sífellt um að neytendur stjórni sinni neyslu á afþreyingu og listum, geti náð í það efni sem þeim þykir áhugavert á þeim tíma sem þeim hentar.
Íslenskir netverjar virðast einnig gera slíkar kröfur og rakst blaðamaður á blogg eins slíks um niðurhal á sjónvarpsefni sem fékk gríðarmikinn hljómgrunn ef marka má fjölda athugasemda. Í blogginu segir m.a. um umfjöllun fréttaskýringaþáttarins Kompáss um niðurhal á sjónvarpsefni: "Ég eyði nú þegar umtalsverðum fjárhæðum á mánuði í sjónvarp. Ég borga 4.300 krónur fyrir áskrift að Sýn þar sem ég horfi á Meistaradeildina, NBA og Barcelona í spænska boltanum. Og ég borga um 2.000 krónur á mánuði fyrir enska boltann. Þetta gera samtals 6.300 krónur á mánuði. Þegar ég bjó í Bandaríkjunum borgaði ég 1.400 krónur fyrir um 60 stöðvar, sem innihéldu allt besta efnið, sem framleitt er í heiminum, fyrir utan það sem HBO býr til. Ef ég vildi hafa aðgang að sama efninu og ég hafði fyrir 1.400 krónur í Bandaríkjunum þyrfti ég að borga um 9.500 krónur á Íslandi (áskrift að Sýn, Stöð 2 og Enska Boltanum og auðvitað afnotagjald af RÚV, sem ég tek ekki með)."
Netfrelsi er félag áhugamanna um frelsi á netinu innan siðferðismarka og þróun þess. Eva segir skorðurnar hafa verið þrengri áður með að deila efni en nú er með hugbúnaði eins og BitTorrent, sem sækir skrár í litlum bútum víða að. "Fólk hefur alltaf möguleikann á því að deila ekki skrám og það er verið að breyta lögum mjög víða um það hvort það sé löglegt eða ekki að hala upp eða niður. Ef þú ferð á síður eins og warez-síður þá geturðu halað niður eins og þig lystir án þess að deila með öðrum. Þær eru sjálfsagt eldri en annað skráaskiptaumhverfi," segir Eva. Á warez-síðum sé hægt að ná í eins mikið efni og fólk vill, þar hafi höfundarréttarvörðu efni verið dreift ólöglega eins og tónlist, bíómyndum, forritum og verri fylgifiskum netsins eins og klámi og vírusum. "Það er hægt að fara inn á miðlæg svæði þar sem mikið efni hefur verið sett inn og hlaða niður en yfirleitt er þetta nú vaðandi í "spyware" og öðru sem þú vilt ekki fá í tölvuna." Eva segir BitTorrent virka þannig að þú hlaðir niður skrá en sért um leið að hlaða henni upp, þ.e. að deila henni. Hægt sé þó að aftengjast um leið og maður er kominn með skrána alla.
"Það er alltaf verið að tala um hvað dreifingarfyrirtæki tapi á niðurhali en þegar farið er yfir sölutölur þá sýna þær þetta ekki. Það er misjafnt hvern þú talar við en margir tónlistarmenn segjast hafa kynnt sig með því að setja tónlist sína á netið, það sé þeirra kynningartæki. Það er auðvitað búið að setja upphali þrengri skorður en það er ekkert talað um hvernig eigi að koma til móts við tónlistar- og kvikmyndaáhugamenn, gera þeim kleift að njóta efnisins með ódýrari hætti á netinu," segir Eva.
Efni verði gert aðgengilegt í miklum gæðum og á hagstæðu verði á netinu
Eva segist persónulega vilja sjá deiluna milli netfrelsismanna og hagsmunaaðila höfunda leysta með því að allt efni verði aðgengilegt á netinu í miklum gæðum, annað hvort með því að efnið streymi til fólks (sent í rauntíma svipað og þegar hlustað er á útvarp á netinu) eða að það hali því niður og þá á skaplegu verði. "Við værum þá að tala um góðar síður með stóru safni af tónlist. Að borga 100 kr. fyrir lag, eins og á tónlist.is, sem er ekki einu sinni í almennilegum gæðum, er bara út í hött. Það er misjafnt hvað þú mátt gera við þau og þetta er hátt verð ef þú átt svo eftir að brenna þetta á disk. Tónlistarmaðurinn er líka að fá lítið í sinn vasa fyrir þetta. Þetta skilar sér ekkert til listamannsins sjálfs. Ef þetta væri hágæða, ódýrara og aðgengilegt þá er pottþétt að mikil breyting yrði á niðurhali," segir Eva. Hvað varðar ADSL-áskrift þá kostar hún skildinginn og segir Eva að það hafi sitt að segja. Íslendingar séu fljótir til að nýta sér tæknina en afþreying hér á landi sé óskaplega dýr. "Hvort sem maður er að fara í bíó, kaupa tónlist eða DVD-disk, þetta er allt mjög dýrt. Svo borgar maður það sama fyrir að fara á kvikmynd sem hefur verið í sýningu í marga mánuði, tónlist er afskaplega dýr út úr búð og við vitum að listamaðurinn fær lítinn hlut af ágóða af disknum. Þetta snýst um að mikill vill meira, þ.e. dreifingarrisarnir, og ég held að það sé engin samúð fyrir þeim í þjóðfélaginu. Ég er hrædd um að þetta snúist um það, hvort sem niðurhal er löglegt eða ekki," segir Eva. Hún segir kæruna á hendur mönnunum ellefu, sem kærðir voru fyrir upphal árið 2004, ekki stöðva fólk í að hala niður. Félagið Netfrelsi hvetji til almenns siðferðis jafnt á netinu sem og í þjóðfélaginu, en það brjóti svo margir á höfundarrétti og líklega hafi allir gert það e-n tíma, t.d. tekið upp á hljóðsnældu efni úr útvarpinu. "Ég myndi vilja hafa sjónvarpið þannig, t.d., að ég gæti valið mína dagskrá. Mörgum finnst sjónvarp með skipulagðri dagskrá eins og það er í dag ekki henta sér, þó Skjárinn sé að reyna að hasla sér völl þar."
Eva segir húsleit lögreglunnar hjá mönnunum ellefu, haustið 2004, hafa verið þannig að allt tölvuefni var þar tekið, m.a.s. tölvudiskar með einkaljósmyndum og -efni. Þegar kæran var lögð fram hafi lagabreytingin ekki verið komin í gegn, þ.e. að dreifing höfundarréttarvarins efnis á netinu væri ólöglegt. Gaman væri að heyra hvað væri að gerast í þeirri rannsókn, en hún stöðvi ekki niðurhal netverja.