Rannsaka áhrif gossins á hafið

Gosstrókurinn frá Eyjafjallajökli í maí.
Gosstrókurinn frá Eyjafjallajökli í maí. mbl.is/Kristinn

Alþjóðleg rann­sókn stend­ur nú yfir á áhrif­um eld­goss­ins í Eyja­fjalla­jökli á sjáv­ar­líf í Norður-Atlants­hafi. Eru vís­inda­menn m.a. að meta hvort járn í eld­fjalla­ösk­unni hafi lent í sjón­um og örvað plöntu­svif í haf­inu.

Fram kem­ur á vef BBC, að um sé að ræða fimm vikna rann­sókn­ar­leiðang­ur sem sé nú hálfnaður. Í sýn­um, sem þegar hafa verið tek­in, hef­ur mælst aukið járn­magn í sjón­um. Ann­ar sams­kon­ar leiðang­ur var far­inn í vor.  

BBC hef­ur eft­ir Eric Achter­berg, hjá bresku haf­rann­sókna­stofn­un­inni, að eld­fjallið hafi fram­leitt hundrað millj­ón rúm­metra af ösku. Þessi aska hafi lent ein­hversstaðar og stór hluti henn­ar hafi vænt­an­lega lent í sjón­um. 

Achter­berg seg­ir, að lít­ill tími hafi gef­ist til að rann­saka gögn, sem safnað var í fyrri leiðangr­in­um en járn­magn í sjón­um hafi þá verið mjög mikið beint und­ir gosmekk­in­um.  

Sjór­inn á svæðinu, sem vís­inda­menn­irn­ir eru að rann­saka,  inni­held­ur venju­lega lítið af járni og öðrum nær­ing­ar­efn­um úr and­rúms­loft­inu. Þess vegna hef­ur plöntu­svif verið frek­ar lítið. Mark­miðið með leiðangr­in­um er að rann­saka hvort eld­gosið hafi haft áhrif á vöxt plöntu­svifs­ins.

Achter­berg seg­ir, að mælst hafi aukið járn­magn í sjón­um á 20-40 metra dýpi og hugs­an­lega sé það fyr­ir áhrif eld­goss­ins. Hann seg­ir að von­andi leiði rann­sókn­irn­ar í ljós, að plöntu­svif hafi auk­ist en það bind­ur kolt­ví­sýr­ing úr and­rúms­loft­inu.

Leiðang­ur­inn, sem far­inn er með skip­inu RRS Disco­very, er hluti af rann­sókn­ar­verk­efni þar sem fjallað er um það hvernig plöntu­svif bind­ur kolt­ví­sýr­ing.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert