Alþjóðleg rannsókn stendur nú yfir á áhrifum eldgossins í Eyjafjallajökli á sjávarlíf í Norður-Atlantshafi. Eru vísindamenn m.a. að meta hvort járn í eldfjallaöskunni hafi lent í sjónum og örvað plöntusvif í hafinu.
Fram kemur á vef BBC, að um sé að ræða fimm vikna rannsóknarleiðangur sem sé nú hálfnaður. Í sýnum, sem þegar hafa verið tekin, hefur mælst aukið járnmagn í sjónum. Annar samskonar leiðangur var farinn í vor.
BBC hefur eftir Eric Achterberg, hjá bresku hafrannsóknastofnuninni, að eldfjallið hafi framleitt hundrað milljón rúmmetra af ösku. Þessi aska hafi lent einhversstaðar og stór hluti hennar hafi væntanlega lent í sjónum.
Achterberg segir, að lítill tími hafi gefist til að rannsaka gögn, sem safnað var í fyrri leiðangrinum en járnmagn í sjónum hafi þá verið mjög mikið beint undir gosmekkinum.
Sjórinn á svæðinu, sem vísindamennirnir eru að rannsaka, inniheldur venjulega lítið af járni og öðrum næringarefnum úr andrúmsloftinu. Þess vegna hefur plöntusvif verið frekar lítið. Markmiðið með leiðangrinum er að rannsaka hvort eldgosið hafi haft áhrif á vöxt plöntusvifsins.
Achterberg segir, að mælst hafi aukið járnmagn í sjónum á 20-40 metra dýpi og hugsanlega sé það fyrir áhrif eldgossins. Hann segir að vonandi leiði rannsóknirnar í ljós, að plöntusvif hafi aukist en það bindur koltvísýring úr andrúmsloftinu.
Leiðangurinn, sem farinn er með skipinu RRS Discovery, er hluti af rannsóknarverkefni þar sem fjallað er um það hvernig plöntusvif bindur koltvísýring.