Ósamstaða VG veikir ríkisstjórnina

Jóhanna Sigurðardóttir, formaður Samfylkingarinnar og forsætisráðherra
Jóhanna Sigurðardóttir, formaður Samfylkingarinnar og forsætisráðherra mbl.is/Ómar

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, segir að það hafi verið ljóst þegar ríkisstjórnin var mynduð að þeirra biði erfitt verkefni. Samfylkingin hefði hins vegar ekki vitað að það væri andstaða í hinum stjórnarflokkunum um mikilvæg verkefni í samstarfsyfirlýsingu flokkanna.

„Við vissum að stjórnarandstaðan myndi ekki axla ábyrgð. Við gátum vitað að hrunflokkarnir myndu taka upp aðferðir repúblikana í Bandaríkjunum og Íhaldsflokksins í Bretlandi í baráttu gegn ríkisstjórn. Við vissum að ekki yrði skirrst við að taka upp persónulegar árásir og gera út á óánægju fólks með sína erfiðu stöðu.

Hitt vissum við ekki að andstaða væri í öðrum stjórnarflokknum við mikilvæg verkefni í samstarfsyfirlýsingu flokkanna. Þar á ég einkum við efnahagsáætlun Íslands og Alþjóða gjaldeyrissjóðsins og lausn Icesave málsins. Hvort tveggja voru mál sem Alþingi hafði falið framkvæmdavaldinu að fylgja eftir og ríkisstjórnin var sammála um að ekki væri ráðlegt að skipta um hesta í miðri á úr því að lagt var í þá leiðangra að semja um Icesave málið og eiga samstarf um efnahagsáætlunina.

Ágreiningurinn um þessu mál hefur á undanförnum mánuðum veikt ríkisstjórnina og gefið færi á árásum á formenn stjórnarflokkanna," sagði Jóhanna er hún ávarpaði fund flokkstjórnar Samfylkingarinnar í dag.

 Forsætisráðherra segir að það haldi engin ríkisstjórn það út til lengdar að búa við óvissu og ótraustan meirihluta í stórum og erfiðum málum. 

„Á óvissu og erfiðleikatímum er það lykilatriði að ríkisstjórn hafi traust og fast land undir fótum. Hoppandi meirihlutar á Alþingi duga skammt við aðstæður eins og okkar  þjóð er í nú og of mikil orka og tími fer í að smala þeim saman og ná málum í gegn.  Ein flokkssystir okkar orðaði þetta ágætlega þegar hún sagði að þetta væri „eins og að smala köttum," segir formaður Samfylkingarinnar.

Að sögn Jóhönnu hafi heldur ekki verið vitað þegar ríkisstjórnin var mynduð að forseti Íslands kysi að taka fjárstjórnarvaldið af Alþingi í erfiðri milliríkjadeilu. Það hafi þegar valdið miklum töfum á framgangi efnahagsáætlunarinnar og verulegum fórnarkostnaði sem seint mun vinnast upp í samningum um Icesave hvenær sem þeir komast á.

Engin lausn á Icesave fyrr en eftir kosningar í Bretlandi og Hollandi

Jóhanna segir að það sé að koma á daginn það sem hún varaði eindregið við í aðdraganda þjóaðratkvæðagreiðslunnar. Formenn stjórnarandstöðuflokkanna hafi nú staðfest þetta og meðal annars sagt að engin líkindi séu á lausn Icesave fyrr en eftir kosningar í Bretlandi og Hollandi.

„Ríkisstjórnin mun á hinn bóginn knýja á um að Bretar og Hollendingar setjist að samningaborðinu að nýju og óskum þar að lútandi hefur verið komið á framfæri við þá. Boltinn er hjá þeim," segir Jóhanna.

Hún segir að það ríði á að stjórnarliðar standi saman og láti ekki slá sig út af laginu. Jóhanna útilokar ekki breytingar á ríkisstjórninni. 

„Ég útiloka ekki breytingar á ríkisstjórn og tilfærslu á málaflokkum ef það mætti verða til þess að skapa hreinar línur og eyða óvissu um framtíð ríkisstjórnarinnar. Ég tel einnig að við þurfum að taka sókndjarfar ákvarðanir um uppstokkun í stjórnkerfinu og ljúka því verki sem fyrst. Liður í því á að mínum dómi að vera fækkun ráðherra úr 12 í 9 og sameining ráðuneyta þannig að til verði innanríkisráðuneyti, atvinnuvegaráðuneyti og velferðarráðuneyti. Minn vilji er að það verði strax á þessu ári." 

Sameiningar þessara ráðuneyta opna á nýja nálgun við framkvæmd stjórnsýslu og veitingu þjónustu með samstarfi og sameiningu stofnana sem undir ráðuneytin heyra, að sögn Jóhönnu.

„Sé horft til þess að ríkisstofnanir eru í dag um 200 talsins og margar þeirra sinna svipuðum verkefnum er ljóst að ná má fram verulegri langtíma hagræðingu í rekstri með því að sameina stofnanir og endurskoða verkaskiptingu á milli þeirra. Ég tel að það sé raunsætt markmið að fækka ríkisstofnunum um 30 -40% á næstu 2 – 3 árum."

mbl.is
Loka