Guðmundur S.Th. Guðmundsson, síldar- og fiskmatsmaður, fæddist á Siglufirði 1. maí 1920. Hann lést á Landspítalanum í Fossvogi 9. janúar 2007. Foreldrar hans voru Guðmundur Friðrik Guðmundsson, f. á Siglufirði. 6.10. 1899, d. 30.1. 1974, og Kristín Árnadóttir, f. á Sörlastöðum í Seyðisfirði 1.6. 1893, d. 31.10. 1955. Alsystkini Guðmundar voru: a) Þorbjörg, f. 4.1. 1917, d. 6.7. 1993, b) Ingólfur, f. 15.8. 1923, d. 12.5. 1999, c) Kristín, f. 20.9. 1925, d. 2.3. 1998, d) Friðrik, f. 3.10. 1928, d. 20.9. 1973, e) stúlka, f. 28.4. 1932, lést sama dag, og f) Steingrímur, f. 19.5. 1935, d. 31.7. 2004. Systir Guðmundar sammæðra var Hulda, f. 14.11. 1911, d. 6.3. 1930, og systir hans samfeðra er Guðrún Arnórs, f. 9.7. 1933.
Guðmundur var þríkvæntur: 1) Hanna Stefánsdóttir, f. 2.8. 1920. Börn þeirra eru: a) Stefán Jónas, f. 10.3. 1945, b) Guðmundur Ómar, f. 29.7. 1946, og c) Haraldur Huginn, f. 8.9. 1949. 2) Svala Gunnarsdóttir, f. 11.5. 1935, börn þeirra eru: a) Sigríður Kristín, f. 5.9. 1957, og b) Gunnar Örn, f. 7.10. 1958. Eftirlifandi maki er Edda Guðbjörg Sveinsdóttir, f. 14.3. 1950. Afabörnin eru 16, langafabörnin 14 og 1 langalangafabarn.
Guðmundur ólst upp á Siglufirði fram á unglingsár. Skíðaíþróttin heillaði hann ungan þar sem hann gerðist fjölhæfur afreksmaður, fyrst í göngu og skíðastökki og síðar einnig í alpagreinum. Guðmundur varð Íslandsmeistari í 15–18 km göngu, stökki, svigi og norrænni tvíkeppni og hlaut sæmdarheitið Skíðakóngur Íslands fjórum sinnum. Hann ferðaðist víða um land og tók þátt í skíðakeppnum, stundaði skíðakennslu og barðist fyrir bættri aðstöðu skíðamanna. Einnig keppti hann í bruni, svigi og alpatvíkeppni fyrir hönd Íslands á fyrstu Ólympíuleikunum eftir stríð í St. Moritz 1948. Guðmundur stundaði ýmis störf. Hann var verkamaður, bóndi, og leigubílstjóri á Akureyri og í Keflavík. Á 7. áratugnum lærði hann síldar- og fiskimat og starfaði við það víða um land en þó lengst á Höfn í Hornafirði þar sem hann lauk starfsævi sinni.
Útför Guðmundar var gerð í kyrrþey frá Hafnarkirkju 20. janúar.