Ég var ekki há í loftinu þegar ég kynntist henni Olgu. Hún vann með henni Huldu Þórðardóttur frænku minni í Útvegsbankanum. Þær voru góðar vinkonur og voru oft og iðulega samferða úr og í vinnu, báðar búsettar í Norðurmýrinni. Ég kom oft í heimsókn til Huldu frænku minnar í bankann til að fá heitt kakó og rúnstykki í kaffitímanum og gekk svo með þeim heim. Var þá rölt upp Laugaveginn og kíkt í búðir í leiðinni.
Ég var einungis 6 ára þegar Olga saumaði á mig jólakjól. Man ég eftir því þegar þær voru að máta kjólinn á mig, allan í títiprjónum. En útkoman var glæsileg enda lærður kjólameistari að verki. Hulda frænka mín sagði alltaf ef upp komu einhver vandamál, „Spyrjum bara hana Olgu, hún veit allt og getur allt“. Voru það orð að sönnu og það var alveg sama af hvaða toga; handavinnu, matreiðslu eða hvaðeina. Olga var líka oft fengin til að pakka inn tækifærisgjöfum og voru það algjör listaverk. Hún var bæði einstaklega handlagin og smekkleg og hafði mikla sköpunargáfu. Og allt gerði hún af greiðvirkni og gleði fyrir alla. Olga fór oft erlendis að heimsækja fjölskyldu sína sem þar bjó. Hulda frænka lét Olgu stundum fá smá gjaldeyri til að kaupa einhverja fallega flík fyrir sig eða okkur systurnar. Engum er betur treystandi til þess að velja falleg föt en henni Olgu, sagði Hulda frænka. Olga var einstaklega smekkleg kona, alltaf fallega klædd og vel til höfð.
Þegar ég eltist fækkaði ekkert heimsóknum mínum í bankann. Ég var í MR og kom oft við í bankanum. Oft til að leita ráða eða bara spjalla við þessar yndislegu konur. Olgu fannst gaman að spjalla um alls konar málefni, ekki síst pólitík. Og öll vandamál voru leyst. Man ég eitt sinn er ég fékk ekki bók, sem ég þurfti í skólann. Bókin var uppseld og ekki væntanleg nærri strax. Ég fór í bankann og ætlaði að athuga hvort hægt væri að láta ljósrita fyrir mig fyrsta kaflann eða svo. Olga tók málið í sínar hendur. Komdu bara á morgun og sæktu þetta, sagði hún. Daginn eftir var Olga búin að ljósrita alla bókina og binda hana inn fyrir mig. Annað skipti kom ég alveg eyðilögð í nýrri ljósri kápu sem hafði farið í pennablek. Olga sagði ekkert mál ég skrepp bara út í apótek og næ í eitthvað til að ná þessu úr. Bletturinn var horfinn úr kápunni stuttu síðar. Svona var hún Olga.
Hafðu þökk fyrir allt og allt.
Matur Olgu var ekki einungis fallega fram borinn hann var ekki síður góður. Af mörgum gómsætum réttum sem mér var boðið upp á ber hæst í mínum huga plokkfiskurinn hennar, vel pipraður með miklum lauk. Hún hafði einstaka hæfileika til að fá hversdagsmat til að bragðast eins og veislumat.
Mér er líka ofarlega í huga árin sem Olga vann í Markaðnum. Þar opnaði hún fyrir mér framandi heim, fullan af alls kyns efnum, ull, siffon, atlassilki, organdí ..... og ilmandi sápum og kremum í bleikum gjafapökkum.
Olga hafði alla tíð lifandi áhuga á mönnum og málefnum. Hún fylgdist vel með og hafði óskaplega gaman af að ræða mál sem voru á döfinni. Henni var ekkert óviðkomandi. Einhvern veginn fannst mér hún vera svo lifandi að andlát hennar kom mér í opna skjöldu. Aðeins tveim dögum áður var hún að ræða við okkur vini sína og vandamenn í 93 ára afmælisveislu sinni. Olga tók virkan þátt í lífinu fram á síðustu stund. Bakaði sínar gómsætu brownies og fór í sextugsafmæli í sparifötum með margar hálsfestar. Það hæfði henni vel að kveðja þegar veislan stóð sem hæst.
Mig langar að minnast Olgu vinkonu minnar í nokkrum orðum en Olga skipaði stóran sess í lífi mínu og sonar míns þrátt fyrir stutt kynni. Olga var næsti nágranni okkar á Vesturgötu 52. Fyrsta minning mín um Olgu er um glæsilega, lífsglaða konu sem hlustaði á óperur og velti fyrir sér hvaða efni mætti nota til að hreinsa bón af gólfdúk. Næstu árin kynntumst við mæðgin Olgu betur og komumst að því að við höfðum eignast ómetanlegan nágranna sem var gáfuð og skemmtileg heimskona, baráttukona og einstaklega góð vinkona.
Olga var mikil skvísa. Hún gekk á háum hælum, var alltaf flott í tauinu og skreytt hálsfestum. Hún var létt og kvik á fæti og tók gjarnan dansspor þegar vel lá á henni. Hún hafði ríka réttlætiskennd og ákveðnar skoðanir á þjóðmálum. Hún var hrein og bein og sagði skoðanir sínar umbúðarlaust. Hún hafði gaman af að spjalla og koma þá víða við. Oft þurfti hún að tjá sig um misgáfulegar ákvarðanir stjórnvalda en meira var þó gaman að heyra smásögur af uppvaxtarárum hennar á Akureyri og námsárum í Danmörku enda sagði hún skemmtilega frá og hafði ágætan húmor.
Olga var ótrúlegur orkubolti og ég minnist þess ekki að hafa nokkurn tímann heyrt hana kvarta yfir þreytu eða leiðindum. Það var gaman að heimsækja hana og oft bauð hún upp á ljúffengar heimabakaðar brownies. Stundum leyfði hún Haraldi syni mínum að vera eftir hjá sér í smástund og leika sér að járnbrautalest sem hún tók fram þegar hann kom í heimsókn. Honum þótti gott að vera hjá Olgu og talaði oft um hana. Við munum ávallt minnast Olgu með væntumþykju og virðingu. Olga var góð manneskja og góður vinur.
Við sendum afkomendum hennar og ástvinum innilegustu samúðarkveðjur.