Greg Ross, skoskur knattspyrnumaður, er genginn til liðs við Valsmenn og leikur með þeim í sumar. Hann kom til landsins nú síðdegis og er kominn með leikheimild með Hlíðarendafélaginu.
Ross er 23 ára gamall og hefur spilað í sex ár með Dunfermline, í úrvals- og 1. deild í Skotlandi, og á þar að baki á annað hundrað deildaleiki. Hann leikur fyrst og fremst sem hægri bakvörður en getur leyst fleiri stöður, að sögn Ótthars Edvardssonar hjá Val.
Ross var leystur undan samningi við Dunfermline í byrjun þessa mánaðar en liðið endaði í fimmta sæti skosku 1. deildarinnar. Hann var á sínum tíma yngsti leikmaður Dunfermline í úrvalsdeildinni, lék 17 ára og 202 daga gamall gegn Kilmarnock árið 2004.
Ross glímdi við alvarleg hnémeiðsli árið 2008 og fór þá tvívegis í uppskurð. Hann var þá lánaður um skeið til 3. deildarliðsins Cowdenbeath.
Það er James Bett, aðstoðarþjálfari Vals og fyrrum landsliðsmaður Skotlands, sem á veg og vanda af komu Ross til landsins. „Bett gjörþekkir allt í Skotlandi og hann fékk mjög góð meðmæli um þennan leikmann," sagði Ótthar.
Ross gæti spilað með Valsmönnum strax á laugardaginn þegar þeir sækja Eyjamenn heim í annarri umferð Pepsideildarinnar.