Margrét Lára Viðarsdóttir skoraði tvívegis í 4:0-sigri íslenska landsliðsins á útivelli gegn Serbíu í dag í undankeppni Evrópumótsins. Sara Björk Gunnarsdóttir og Katrín Ómarsdóttir bættu við mörkum fyrir Ísland sem á enn góða möguleika á að komast í úrslitakeppni Evrópumótsins á næsta ári í Finnlandi. Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu á mbl.is, beint frá Serbíu.
Ísland hefur aðeins tapað einum leik í undankeppninni til þessa líkt og Frakkar sem eru í efsta sæti en Frakkar hafa leikið 7 leiki og eru með 18 stig en Ísland er með 9 stig að loknum 4 leikjum.
Lokakeppni Evrópumótsins fer fram í Finnlandi á næsta ári. Efsta liðið í riðlinum tryggir sér þátttökurétt á EM en liðið sem er í öðru sæti leikur tvo umspilsleiki í október um laust sæti á EM.
Í Morgunblaðinu á morgun verður ítarleg umfjöllun um leikinn.
Næstu tveir leikir íslenska liðsins í undankeppni EM fara fram á Íslandi í júní. Ísland mætir Slóveníu 21. júní og Grikklandi fimmtudaginn 26. júní. Laugardaginn 27. september er lokaleikur Íslands í þessum riðli og gæti það verið úrslitaleikur um sæti á EM - gegn Frökkum ytra.
Ísland vann Frakka, 1:0, á heimavelli þann 16. júní á síðasta ári. Ísland lagði Serbíu, 5:0, á heimavelli en tapaði óvænt 2:1 á útivelli gegn Slóveníu.