Valsmenn tryggðu sér sæti í 8-liða úrslitum VISA-bikars karla í knattspyrnu í kvöld með 3:1 sigri á Víkingi R. í framlengdum leik. Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.
Danni König kom Val yfir undir lok fyrri hálfleiks en Þorvaldur Sveinn Sveinsson jafnaði metin fyrir Víkinga. Varamennirnir Viktor Unnar Illugason og Guðmundur Steinn Hafsteinsson tryggðu svo Val sigur í framlengingu.
22:33 Leik lokið.
22:27 Varamaðurinn Guðmundur Hafsteinsson fór langt með að tryggja Val sigur með góðu skallamarki á 117. mínútu eftir fyrirgjöf frá vinstri.
22:25 Helgi Sigurðsson var í fínu færi í vítateignum en skaut yfir. Víkingar eru greinilega ekki hættir en fimm mínútur eru eftir.
22:20 MARK!!! (1:2) Jón Vilhelm Ákason tók góða aukaspyrnu rétt utan vítateigs og skaut yfir varnarvegginn í stöngina. Boltinn hrökk þaðan út til varamannsins Viktors Unnars Illugasonar sem skoraði á 108. mínútu. Tólf mínútur til stefnu fyrir Víkinga.
22:14 Haukur Páll var að eiga hörkuskalla í hliðarnet marks Víkinga eftir aukaspyrnu frá Martin Pedersen. Fyrri hálfleik framlengingar er nú lokið.
21:52 Búið er að flauta til loka venjulegs leiktíma og því þarf að grípa til framlengingar. 1. deildarlið Víkinga hefur sýnt góða frammistöðu gegn sterku liði Vals.
21:35 MARK!!! (1:1) Þorvaldur Sveinn Sveinsson fékk langa sendingu frá Tómasi Guðmundssyni á hægri kantinum og skallaði yfir Kjartan Sturluson sem var kominn í glórulaust úthlaup.
21:30 Helgi Sigurðsson náði í aukaspyrnu rétt utan vítateigs Vals á 71. mínútu. Sigurður Egill Lárusson tók hana og skaut yfir varnarveginn en einnig yfir mark Vals.
21:21 Haukur Páll var að ná góðum skalla eftir hornspyrnu frá hægri en boltinn fór rétt framhjá marki Víkinga. Staðan enn 1:0 fyrir Val en Víkingar eru hvergi nærri hættir.
21:15 Reynir Leósson varð að fara meiddur af leikvelli á 58. mínútu og kom Skotinn Greg Ross inná í hans stað. Reynir virtist þó ekki vera mjög alvarlega meiddur.
21:02 Seinni hálfleikur er hafinn.
20:47 Búið er að flauta til hálfleiks og staðan er 1:0 fyrir Val. König var nálægt því að bæta við öðru marki í lok fyrri hálfleiksins en fram að markinu hafði verið nokkurt jafnræði með liðunum.
20:45 MARK!!! (0:1) Haukur Páll skallaði boltann frá miðjunni eftir spyrnu Víkinga fram völlinn og á Danni König sem var sloppinn einn í gegn. Daninn fór framhjá Magnúsi Þormari sem fór í misheppnað úthlaup og skoraði í tómt markið.
20:32 Atli Sveinn var að skalla boltann yfir mark Víkinga úr frábæru færi eftir hornspyrnu. Leikurinn er annars í járnum eins og stundum er sagt.
20:15 Víkingar hafa átt í fullu tré við úrvalsdeildarlið Vals og átt betri marktilraunir það sem af er. Engin dauðafæri hafa þó litið dagsins mikla ljós.
20:00 Það er sól og blíða í Fossvoginum og leikurinn er hafinn.
19:30 Byrjunarliðin eru klár og sem hér segir:
Víkingur R.: Magnús Þormar - Viktor Örn Guðmundsson, Milos Glogovac, Halldór Smári Sigurðsson, Þorvaldur Sveinn Sveinsson, Egill Atlason, Jakob Spangsberg, Tómas Guðmundsson, Dofri Snorrason, Sigurður Egill Lárusson, Helgi Sigurðsson.
Valur: Kjartan Sturluson - Stefán Jóhann Eggertsson, Martin Pedersen, Reynir Leósson, Atli Sveinn Þórarinsson, Baldur Ingimar Aðalsteinsson, Jón Vilhelm Ákason, Rúnar Már Sigurjónsson, Haukur Páll Sigurðsson, Þórir Guðjónsson, Danni König.