Valsmenn áfram eftir framlengdan leik

Helgi Sigurðsson lék með Val á síðustu leiktíð.
Helgi Sigurðsson lék með Val á síðustu leiktíð. mbl.is/Eggert

Valsmenn tryggðu sér sæti í 8-liða úrslitum VISA-bikars karla í knattspyrnu í kvöld með 3:1 sigri á Víkingi R. í framlengdum leik. Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.

Danni König kom Val yfir undir lok fyrri hálfleiks en Þorvaldur Sveinn Sveinsson jafnaði metin fyrir Víkinga. Varamennirnir Viktor Unnar Illugason og Guðmundur Steinn Hafsteinsson tryggðu svo Val sigur í framlengingu.

22:33 Leik lokið.

22:27 Varamaðurinn Guðmundur Hafsteinsson fór langt með að tryggja Val sigur með góðu skallamarki á 117. mínútu eftir fyrirgjöf frá vinstri.

22:25 Helgi Sigurðsson var í fínu færi í vítateignum en skaut yfir. Víkingar eru greinilega ekki hættir en fimm mínútur eru eftir.

22:20 MARK!!! (1:2) Jón Vilhelm Ákason tók góða aukaspyrnu rétt utan vítateigs og skaut yfir varnarvegginn í stöngina. Boltinn hrökk þaðan út til varamannsins Viktors Unnars Illugasonar sem skoraði á 108. mínútu. Tólf mínútur til stefnu fyrir Víkinga.

22:14 Haukur Páll var að eiga hörkuskalla í hliðarnet marks Víkinga eftir aukaspyrnu frá Martin Pedersen. Fyrri hálfleik framlengingar er nú lokið.

21:52 Búið er að flauta til loka venjulegs leiktíma og því þarf að grípa til framlengingar. 1. deildarlið Víkinga hefur sýnt góða frammistöðu gegn sterku liði Vals.

21:35 MARK!!! (1:1) Þorvaldur Sveinn Sveinsson fékk langa sendingu frá Tómasi Guðmundssyni á hægri kantinum og skallaði yfir Kjartan Sturluson sem var kominn í glórulaust úthlaup.

21:30 Helgi Sigurðsson náði í aukaspyrnu rétt utan vítateigs Vals á 71. mínútu. Sigurður Egill Lárusson tók hana og skaut yfir varnarveginn en einnig yfir mark Vals.

21:21 Haukur Páll var að ná góðum skalla eftir hornspyrnu frá hægri en boltinn fór rétt framhjá marki Víkinga. Staðan enn 1:0 fyrir Val en Víkingar eru hvergi nærri hættir.

21:15 Reynir Leósson varð að fara meiddur af leikvelli á 58. mínútu og kom Skotinn Greg Ross inná í hans stað. Reynir virtist þó ekki vera mjög alvarlega meiddur.

21:02 Seinni hálfleikur er hafinn.

20:47 Búið er að flauta til hálfleiks og staðan er 1:0 fyrir Val. König var nálægt því að bæta við öðru marki í lok fyrri hálfleiksins en fram að markinu hafði verið nokkurt jafnræði með liðunum.

20:45 MARK!!! (0:1) Haukur Páll skallaði boltann frá miðjunni eftir spyrnu Víkinga fram völlinn og á Danni König sem var sloppinn einn í gegn. Daninn fór framhjá Magnúsi Þormari sem fór í misheppnað úthlaup og skoraði í tómt markið.

20:32 Atli Sveinn var að skalla boltann yfir mark Víkinga úr frábæru færi eftir hornspyrnu. Leikurinn er annars í járnum eins og stundum er sagt.

20:15 Víkingar hafa átt í fullu tré við úrvalsdeildarlið Vals og átt betri marktilraunir það sem af er. Engin dauðafæri hafa þó litið dagsins mikla ljós.

20:00 Það er sól og blíða í Fossvoginum og leikurinn er hafinn.

19:30 Byrjunarliðin eru klár og sem hér segir:

Víkingur R.: Magnús Þormar - Viktor Örn Guðmundsson, Milos Glogovac, Halldór Smári Sigurðsson, Þorvaldur Sveinn Sveinsson, Egill Atlason, Jakob Spangsberg, Tómas Guðmundsson, Dofri Snorrason, Sigurður Egill Lárusson, Helgi Sigurðsson.

Valur: Kjartan Sturluson - Stefán Jóhann Eggertsson, Martin Pedersen, Reynir Leósson, Atli Sveinn Þórarinsson, Baldur Ingimar Aðalsteinsson, Jón Vilhelm Ákason, Rúnar Már Sigurjónsson, Haukur Páll Sigurðsson, Þórir Guðjónsson, Danni König.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert