„Gaman að koma aftan að þeim“

Það má varla á milli sjá hvor kemur fyrst í …
Það má varla á milli sjá hvor kemur fyrst í mark, Silja sem er nær á myndinni eða Margrét Lilja sem er fjær. mbl.is/FRÍ

„Ég er góð í að elta en ég klikkaði svolítið í skiptingunni og ef við hefðum tapað hefði það verið mér að kenna, þannig að það var gott að ná að redda þessu,“ sagði Silja Úlfarsdóttir, FH, eftir að hafa komið fyrst í mark í 4x100 metra boðhlaupi á Meistaramótinu í Laugardal, hársbreidd á undan Blikanum Margréti Lilju Hrafnkelsdóttur.

Silja hljóp sem sagt síðasta sprett fyrir sveit FH og náði með ótrúlegum spretti að vinna upp gott forskot Breiðabliks og koma í mark nánast samhliða Margréti Lilju, og sumir vildu jafnvel meina að Margrét Lilja hefði komið fyrr í mark.

„Það er gaman að koma svona aftan að þeim og taka fram úr í lokin. Við erum með fína sveit með ungum stelpum og það er virkilega skemmtilegt að hlaupa með þeim,“ sagði Silja, en aðrar í sveit FH voru Dóra Hlín Loftsdóttir, Steinunn Arna Atladóttir og Heiður Ósk Eggertsdóttir.

Meistaramótið er síðasta mót Silju sem hefur ákveðið að hvíla sig á keppni í bili að minnsta kosti. Hún virðist ætla að enda með stæl því auk boðhlaupsins vann hún sigra í bæði 100 og 400 metra hlaupi fyrr í dag.

„Ég er alveg búinn á því. Mig langaði ekki einu sinni að hlaupa 400 metra hlaupið en lét mig hafa það á þrjóskunni. Þessi hlaup voru alveg nokkuð örugg en mér leið ekkert vel, en ég ætla mér að vinna allar mínar greinar á mínu síðasta móti. Það er markmiðið og við sjáum hvað gerist,“ sagði Silja, sem þurfti líkt og aðrir keppendur í dag að glíma við nokkurn vind í Laugardalnum.

„Það er svolítið erfitt að hlaupa í þessum vindi og erfitt að ákveða hvort maður á að fara hratt af stað eða taka mest á því í lokin, en ég hljóp bara frekar jafnt og það tókst vel í dag.“

FH vann einnig karlahlaupið

A-Sveit FH vann einnig sigur í 4x100 metra boðhlaupi karla, nokkuð örugglega. Sveit ÍR lenti í öðru sæti og í þriðja sæti varð B-sveit FH.

Sjá fyrri fréttir í dag:
Kristbjörg fyrst til að kasta yfir 50 metra.
Silja byrjar vel á sínu fyrsta móti.
"Vissi ekki einu sinni af honum".

Silja kemur í mark í 100 metra hlaupinu í dag.
Silja kemur í mark í 100 metra hlaupinu í dag. mbl.is/HAG
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert