Silja byrjar vel á sínu síðasta móti

Bergur Ingi undirbýr eitt af köstum sínum í dag.
Bergur Ingi undirbýr eitt af köstum sínum í dag. HAG

Fyrri keppnisdagur á Meistaramóti Íslands er nú rúmlega hálfnaður og hefur eitt Íslandsmet verið slegið í sleggjukasti kvenna. Ólympíufarinn Bergur Ingi Pétursson úr FH kastaði lengst 72,94 metra þegar hann vann sigur í  sleggjukasti karla en fjórum öðrum greinum er nú einnig lokið. 

Bergur Ingi vann að vonum yfirburðasigur í sleggjukasti þegar hann kastaði 72,94 metra sem er u.þ.b. einum og hálfum metra frá Íslandsmeti hans. Næsti maður var félagi Bergs Inga úr FH, kúluvarparinn Óðinn Björn Þorsteinsson, en hann kastaði 48,92.

Linda Björk Lárusdóttir úr Breiðabliki vann góðan sigur í 100 metra grindahlaupi þegar hún kom fyrst í mark á 14,71 sekúndu, 9/100 á undan Helgu Margréti Þorsteinsdóttur úr Ármanni sem varð önnur.

Vegna mistaka við tímatöku í 110 metra grindahlaupi karla var aðeins hægt að áætla tíma keppendanna þriggja. Ólafur Guðmundsson úr HSÞ kom þó án vafa fyrstur í mark og Björgvin Víkingsson úr FH varð annar, skammt á eftir.

Stefán Guðmundsson úr Breiðabliki endurtók leikinn frá því í fyrra og vann sigur í 3.000 metra hindrunarhlaupi með yfirburðum, kom í mark á 10:02,46 mín. eða u.þ.b. hálfri mínútu á undan næsta manni, liðsfélaga sínum Ólafi Margeirssyni.

Silja Úlfarsdóttir, FH, byrjar vel á sínu síðasta keppnismóti og vann öruggan sigur í 100 metra hlaupi þegar hún kom í mark á 12,26 sekúndum. Næst kom Hrafnhild Eir Hermóðsdóttir úr ÍR og í þriðja sæti varð Hafdís Sigurðardóttir úr HSÞ.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka