Bikarmeistaralið FH átti ekki í vandræðum með að leggja HK , 4:0, á útivelli í 1. Umferð Landsbankadeildarinnar í dag. Atli Viðar Björnsson skoraði fyrsta mark leiksins þega 14:48 mínútur voru liðnar af leiknum og gæti það hafa verið fyrsta mark Íslandsmótsins. Jónas Grani Garðarsson skoraði annað mark FH á 23. mínútu. Atli Guðnason og Tryggvi Guðmundsson bættu við mörkum í síðari hálfleik á 61. og 77. mínútu. Tryggvi lagði upp fyrstu þrjú mörk leiksins og var án efa besti maður vallarins.
Gæti gefið blindandi fyrir markið
„Ég hugsa að ég gæti gefið blindandi fyrir markið með alla þessa góðu leikmenn inni í vítateignum. Við lékum virkilega vel í dag og þrátt fyrir mörkin fjögur þá fannst mér enn mikilvægara að við fengum ekki á okkur mark. Það hefur ekki gerst lengi,“ sagði Tryggvið Guðmundsson eftir leikinn.