Varamennirnir björguðu stigi fyrir Liverpool

Mohamed Salah komst ekki á blað í kvöld. Hér er …
Mohamed Salah komst ekki á blað í kvöld. Hér er hann í baráttu við þrjá varnarmenn Nottingham Forest. AFP/Paul Ellis

Nottingham Forest tók á móti Liverpool í 21. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta á City Ground leikvellinum í Nottingham í kvöld. Um toppbaráttuslag var að ræða en fyrir leikinn sátu liðin í 1. og 3. sæti deildarinnar. Leikurinn var spennandi og endaði með jafntefli, 1:1.

Eftir leikinn er Liverpool á toppi deildarinnar með 47 stig, sex stigum á undan Nottingham Forest sem situr í 2. sæti með 41 stig.

Leikurinn var ekki nema 8. mínútna gamall þegar heimamenn voru komnir yfir með marki frá Nýsjálendingnum markheppna, Chris Wood. Hann fékk þá sendingu inn fyrir vörn Liverpool frá Anthony Elanga og lagði Wood boltann smekklega í fjærhornið framhjá Alisson Becker í marki Liverpool.

Það var lítið annað markvert sem gerðist í fyrri hálfleiknum sem einkenndist af langskotum Liverpool sem enduðu öll í fanginu á stuðningsmönnum Nottingham Forest uppi í stúkunni fyrir aftan markið.

Chris Wood fagnar marki sínu í upphafi leiks í kvöld.
Chris Wood fagnar marki sínu í upphafi leiks í kvöld. AFP/Paul Ellis

Þegar Chris Kavanagh, dómari leiksins, hafði flautað til hálfleiks höfðu Liverpool menn ekki enn náð skoti á markið hjá Matz Sels og heimamenn leiddu verðskuldað, 1:0.

Það benti fátt til þess að Liverpool væri að fara að ná inn jöfnunarmarkinu í seinni hálfleiknum en Arne Slot, þjálfari liðsins, hafði aðrar hugmyndir um það. Hann gerði tvöfalda breytingu á 65. mínútu og setti Diogo Jota og Kostas Tsimikas inn á völlinn. Tsimikas trítlaði beint út að hornfána og tók hornspyrnu sem rataði beint á kollinn á Jota sem skoraði með sinni fyrstu snertingu í leiknum, aðeins 20 sekúndum eftir að hann kom inn á völlinn. Staðan orðin jöfn, 1:1.

Diogo Jota horfir á eftir boltanum á leið í mark …
Diogo Jota horfir á eftir boltanum á leið í mark heimamanna umkringdur leikmönnum Nottingham Forest. AFP/Paul Ellis

Eftir þetta var Liverpool liðið mun betra en náði ekki að koma inn sigurmarkinu. Næst því komst Mohamed Salah á 88. mínútu þegar Matt Sels kýldi boltann frá markinu en hann fór beint til Salah. Egyptinn lét vaða að marki en Ola Aina, bakvörður Nottingham Forest, bjargaði meistaralega á marklínu.

Áfram hélt Liverpool liðið að banka en inn vildi boltinn ekki og endaði leikurinn með jafntefli, 1:1.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Nottingham F. 1:1 Liverpool opna loka
90. mín. Neco Williams (Nottingham F.) fer af velli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert