Réttarhöld hafin yfir Dreier

Marc Dreier
Marc Dreier

Réttarhöld eru hafin yfir bandaríska lögfræðingnum Marc Dreier. Meðal þeirra sem töpuðu á svikum Dreier er sjóðurinn Novator Credit Opportunities, sem er í eigu Novators. fjárfestingafélag Björgólfs Thors Björgólfssonar. En eins og fram kom á mbl.is í byrjun janúar er talið að tjón Novators nemi á annan tug milljóna Bandaríkjadala.

Alls er Dreier ákærður fyrir um 400 milljón dala fjársvik og meðal fórnarlamba hans eru Amaranth Group, Perella Weinberg Partners og Blackstone, að því er fram kemur í frétt Bloomberg.

Marc Dreier átti fjögur glæsileg hús við báðar strendur Bandaríkjanna, keyrði um á Aston Martin-lúxusbifreið þegar hann var ekki um borð í 60 metra lystisnekkjunni sinni. Á lögmannsstofu hans störfuðu um 250 lögmenn, sem margir fengu gríðarlega há laun og bónusgreiðslur ofan á þau og þá er talið að listaverkasafn stofunnar hafi verið á bilinu 4-5 milljarða króna virði, að því er fram kom í grein í Morgunblaðinu fyrir mánuði síðan.

Dreier ólst upp í New York og stundaði nám við Yale- og Harvard-háskóla. Samstarfsmenn hans lýsa honum sem afar greindum manni, fyndnum og gríðarlega vinnusömum, en skapstórum. Mottó Dreiers á námsárunum á að hafa verið „þú lifir aðeins einu sinni – þú verður að grípa tækifærin“. Að námi loknu starfaði Dreier hjá tveimur virtum lögmannsstofum áður en hann stofnaði sitt eigið fyrirtæki við annan mann árið 1996. Þegar meðeigandi hans hætti störfum árið 2003 var Dreier eini eigandi Dreier LLP en aðrir lögmenn á stofunni voru starfsmenn hans.

Dreier tók allar ákvarðanir varðandi rekstur lögmannsstofunnar frá starfsmannaráðningum til þess hvaða blóm skyldu skreyta skrifstofuna á degi hverjum. Hann valdi einnig öll listaverkin sem prýddu starfsumhverfið. Munu starfsmenn Dreiers oft hafa velt því fyrir sér hvernig lögmannsstofan hafði efni á þeim útgjöldum, sem þeir sáu á degi hverjum.

Reglulega óskuðu hærra settir starfsmenn eftir því að fá að skoða reikninga fyrirtækisins, en Dreier tók slíkt ekki í mál og spurði á móti hvort þeir fengju ekki launaseðlana sína á réttum tíma. Svo lengi sem þeir bærust hefðu starfsmenn ekkert með að skoða bækur fyrirtækisins.

Gríðarlega íburðarmiklar veislur einkenndu líf Dreiers og starfsemi lögmannsstofunnar. Líkt og sumum íslenskum auðjöfrum þótti Dreier mikilvægt að stórstjörnur skrýddu veislurnar og söng Alicia Keyes fyrir starfsmenn Dreier LLP í fyrra og árið áður söng Diana Ross í svipaðri veislu, sem stýrt var af leikaranum William Shatner.

Eitt ótrúlegt dæmi um þetta er þegar Dreier reyndi að selja fjárfestingarfélaginu Fortress Investment Group víxla, sem gefnir áttu að hafa verið út af lífeyrissjóði kennara í Ontario-fylki í Kanada. Fortress krafðist þess að hitta fulltrúa kennarasjóðsins og lofaði Dreier að koma á slíkum fundi. Hafði Dreier samband við kennarasjóðinn og fundaði með þeim um óskylt mál. Að þeim fundi loknum yfirgaf Dreier ekki skrifstofur sjóðsins, heldur sat eftir í fundarherberginu. Tók hann þar á móti fulltrúum Fortress og kynnti sig sem Michael Padfield, lögmann kennarasjóðsins. Skrifaði Dreier undir víxilinn í nafni Padfields í viðurvist starfsmanna Fortress. Dugði þetta þó ekki til að slá á grunsemdir Fortress-manna, sem höfðu samband við kanadísk yfirvöld. Var Dreier handtekinn stuttu síðar.

Eru yfirvöld ekki sannfærð um að það hafi alltaf verið markmið Dreiers að afla fjár með svikum sem þessum. Líklegra sé að hann hafi gripið til örþrifaráða þegar hann hafi gert sér grein fyrir því að lögmannsstofan stóð ekki undir því lífi, sem hann vildi lifa. Því hafi glys- og metnaðargirni hans orðið honum ofviða og beinlínis orðið honum að falli.


mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK