Fréttaskýring: Lánastofnanir ráða yfir í Icelandair

Vél Icelandair yfir Reykjavíkurflugvelli.
Vél Icelandair yfir Reykjavíkurflugvelli. mbl.is/Árni Sæberg

Staða stærstu hlut­hafa Icelanda­ir Group hef­ur versnað mikið frá því bank­arn­ir hrundu í októ­ber, með hröðu geng­is­falli krón­unn­ar í kjöl­farið. Skuld­ir eign­ar­halds­fé­laga, sem eru á meðal stærstu hlut­hafa fé­lags­ins, hækkuðu mikið á sama tíma og botn­inn fór end­an­lega úr hluta­bréfa­markaðnum. Fram að falli bank­anna hafði staða fé­lag­anna versnað dag frá degi allt síðasta ár.

Stærstu hlut­haf­arn­ir í slæmri stöðu

Sam­kvæmt heim­ild­um Morg­un­blaðsins ráða lán­veit­end­ur Lang­flugs og fjár­fest­inga­fé­lags­ins Mátt­ar, sem eru stærstu hlut­haf­ar Icelanda­ir með sam­tals 47 pró­sent hlut, al­farið yfir fé­lög­un­um. Lang­flug er að 2/​3 hluta í eigu FS7, fé­lagi Finns Ing­ólfs­son­ar, og 1/​3 hluta í eigu fjár­festa­fé­lags­ins Gift­ar. Lands­bank­inn og NIB, sem stofnaður var utan um inn­lenda starf­semi Lands­bank­ans þegar hann féll, hafa raun tekið yfir Lang­flug vegna mik­illa skulda sem fyr­ir­sjá­an­legt er að það geti ekki borgað.

Hjá fjár­fest­inga­fé­lag­inu Mætti eru Glitn­ir og rík­is­bank­inn Íslands­banki, sem stofnaður var utan um inn­lenda starf­semi Glitn­is við fall bank­ans, stærstu lán­veit­end­urn­ir og ráða þeir í raun yfir fé­lag­inu. Íslands­banki hef­ur mestra hags­muna að gæta. Mátt­ur er í eigu Milest­one, fé­lags bræðranna Karls og Stein­gríms Werners­sona, og fjár­festa sem tengd­ir eru Ein­ari Sveins­syni og fjöl­skyldu. Sam­kvæmt heim­ild­um Morg­un­blaðsins hef­ur Íslands­banki þegar komið þeim skila­boðum til Gunn­laug­ar Sig­munds­son­ar, fram­kvæmda­stjóra Mátt­ar og stjórn­ar­for­manns Icelanda­ir Group, að hann stýri fé­lög­un­um áfram þrátt fyr­ir erfiðleika, þangað til tíma­bært er að taka fé­lög­in yfir og leysa úr vanda­mál­um þeirra. Staða Milest­one er í raun þannig að lán­veit­end­ur fé­lags­ins ráða yfir því vegna slæmra skulda­stöðu fé­lags­ins. Þegar er byrjað að leysa upp eigna­safn fé­lags­ins eins og komið hef­ur fram í Morg­un­blaðinu.

Naust ehf. er einnig í eigu fjár­festa sem tengd­ir eru Ein­ari og fjöl­skyldu hans. Staða þess fé­lags er tví­sýn en þó ekki eins slæm og Lang­flugs og Mátt­ar, sam­kvæmt heim­ild­um Morg­un­blaðsins.

Bank­inn hjálp­ar til í lausa­fjárerfiðleik­um

Þá hef­ur Spari­sjóðabanki Íslands, sem starfar á und­anþágu frá Fjár­mála­eft­ir­lit­inu vegna slæmr­ar eig­in­fjár­stöðu, tekið yfir hlut Urðar ehf. sem var áður í eigu Ómars Bene­dikts­son­ar. Fé­lag hans þoldi ekki höggið í októ­ber og tók stærsti lán­veit­andi þess yfir 9,36% hlut hans í Icelanda­ir Group fyr­ir skömmu. Ómar fór úr stjórn Icelanda­ir Group 2. mars og er nú í vara­stjórn fé­lags­ins. Spari­sjóðabank­inn starfar óbeint á ábyrgð rík­is­ins vegna skulda hans við ís­lenska ríkið, vegna svo­kallaðra veðlána frá Seðlabanka Íslands. Þær eru tald­ar nema um 100-150 millj­örðum króna. Spari­sjóðabank­inn hef­ur fengið frest til greiða þessa skuld þar sem hann hef­ur ekki burði til þess sem stend­ur.

Sam­kvæmt heim­ild­um Morg­un­blaðsins hef­ur þegar verið um það rætt á meðal lyk­il­starfs­manna í rík­is­bönk­un­um og í fjár­málaráðuneyt­inu, að Icelanda­ir verði eitt þeirra fé­laga sem geti lent í eignaum­sýslu­fé­lagi á veg­um rík­is­bank­anna, komi til þess að sá hátt­ur verði á þegar kem­ur að um­sjá með fyr­ir­tækj­um sem telj­ast sam­fé­lags­lega mik­il­væg. Nú þegar hafa lána­stofn­an­ir umráðarétt yfir a.m.k. 67 pró­sent að hluta­fé í fé­lag­inu. Líf­eyr­is­sjóðirn­ir Staf­ir og Al­menni líf­eyr­is­sjóður­inn eiga lít­inn hlut, eða sam­tals um 1,5 pró­sent.

Eins og mörg fyr­ir­tæki hér á landi þá hef­ur Icelanda­ir glímt við lausa­fjárerfiðleika frá því í haust. Íslands­banki hef­ur aðstoðað fé­lagið við að viðhalda lausa­fjár­stöðu í nóv­em­ber, des­em­ber, janú­ar, og fe­brú­ar svo það geti greitt laun og reikn­inga á rétt­um tíma. Ekki hef­ur alltaf tek­ist að greiða laun­in á rétt­um tíma, en þau hafa þó skilað sér eft­ir eins eða tveggja daga seink­un.

Mikið tap en rekstr­arg­und­völl­ur tal­inn „sterk­ur“

Tap Icelanda­ir Group á síðasta ári nam 7,5 millj­örðum sam­an­borið við 257 millj­óna króna hagnað árið 2007. Rekstr­ar­tekj­ur og gjöld juk­ust til mik­illa muna á milli ára. Meðal ann­ars vegna þess að tékk­neska fé­lagið Tra­vel Service kom inn í sam­stæðureikn­ing fé­lags­ins á síðasta ári og skýr­ir það aukn­ing­una að hluta. Rekstr­ar­tekj­ur fóru úr 63,5 millj­örðum í 112,7 millj­arða. Rekstr­ar­gjöld­in fóru úr 158 millj­örðum í 107,9 millj­arða. Gunn­laug­ur Sig­munds­son sagði á aðal­fundi fé­lags­ins að hug­mynd­ir hefðu komið fram um að fé­lagið yrði af­skráð en eng­ar end­an­leg­ar ákv­arðanir hef­ur verið tekn­ar um það.

Stór hluti taps­ins skýrist af af­skrift­um á óefn­is­leg­um eign­um, einkum viðskipta­vild. Af­skrift­irn­ar námu alls 10,5 millj­örðum þar af voru 6,4 millj­arðar vegna viðskipta­vild­ar.

Ferðir sem eiga upp­runa sinn hér á landi til út­landa á veg­um Icelanda­ir hafa minnkað mikið eft­ir hrun bank­anna, eða um allt að 50 pró­sent sam­kvæmt heim­ild­um Morg­un­blaðsins. Hins veg­ar hef­ur tek­ist að halda tekj­um af flug­um til lands­ins sam­kvæmt áætl­un­um, þrátt fyr­ir að um­ferð um Kefla­vík­ur­flug­völl hafi minnkað mikið. Sam­kvæmt heim­ild­um hafa stjórn­ar­menn Icelanda­ir fulla trú á því að rekstr­ar­grund­völl­ur fyr­ir­tæk­is­ins sé sterk­ur til framtíðar þrátt fyr­ir þær miklu hremm­ing­ar sem fé­lagið er að ganga í gegn­um þessa dag­ana.

Hér á myndinni má sjá stærstu hluthafa í Icelandair Group.
Hér á mynd­inni má sjá stærstu hlut­hafa í Icelanda­ir Group.
Karl Wernersson. Staða félags hans og Steingríms bróður hans, Milestone, …
Karl Werners­son. Staða fé­lags hans og Stein­gríms bróður hans, Milest­one, er slæm.
mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka