Markaðsmisnotkun varðar sex ára fangelsi

Ólafur Ólafsson, sem á þeim tíma var annar stærsti eigandi …
Ólafur Ólafsson, sem á þeim tíma var annar stærsti eigandi Kaupþings, ásamt meðlimi Al-Thani-fjölskyldunnar og öðrum vinum í Flatey 31. júlí í fyrra. Ljósmynd/Hanna Lilja

Tilgangur rannsóknar embættis sérstaks saksóknara á kaupum sjeiks Mohamed Bin Khalifa Al-Thani á rúmlega 5% eignarhluti í Kaupþingi í september síðastliðnum er grunur um meinta markaðsmisnotkun og eftir atvikum brot á auðgunarbrotakafla hegningarlaga.

Kaup Sjeiksins á hlutabréfum í Kaupþingi voru tilkynnt hinn 22. september sl. en hann keypti 37,1 milljón hluta á genginu 690 kr. á hlut. Kaupverðið var því tæpir 26 milljarðar króna og hans hátign Al-Thani varð í kjölfarið þriðji stærsti hluthafi bankans. 

Viðskiptin fóru þannig fram að Kaupþing veitti Ólafi Ólafssyni, sem á þeim tíma var annar stærsti hluthafi bankans, lán fyrir helmingi kaupverðsins í gegnum félag hans sem skráð er á Jómfrúaeyjum, tryggt með veði í bréfunum sjálfum og án persónulegrar ábyrgðar hans sjálfs.

Að sögn Ólafs hafði Al-Thani lagt fram ábyrgðir að upphæð 200 milljónir evra vegna væntanlegra viðskipta sinna við Kaupþing og var hluti þeirra notaður til ábyrgðar fyrir láni frá Kaupþingi beint til Q Iceland Finance, samtals 12,8 milljarðar króna. Hinn helmingur kaupverðsins lánaði Kaupþing einnig, en hann var lánaður til félags á bresku Jómfrúreyjum, skráð á Ólaf Ólafsson, sem lánaði féð síðan áfram til Al-Thani. Þannig var Al-Thani ekki í persónulegum ábyrgðum fyrir helmingi lánsins, 12,8 milljörðum króna. Ólafur sagði við Morgunblaðið í janúar síðastliðnum að hann sjálfur hefði ekki haft neinn ávinning af þessum viðskiptum.

Tapleysi vakti grunsemdir
Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins vakti sú staðreynd að tap sjeiksins á Kaupþingsviðskiptunum var ekki jafn mikið og haldið var í fyrstu ákveðnar grunsemdir starfsmanna PricewaterhouseCoopers um að ekki væri allt með felldu, en fyrirtækið fór ofan í saumana á rekstri Kaupþings í aðdraganda bankahrunsins.

Telma Halldórsdóttir, stjórnarmaður í Q Iceland Finance ehf. eignarhaldsfélagi Al-Thanis, sagði við Morgunblaðið í janúar síðastliðnum að allt væri uppi á borðum vegna kaupa félagsins á hlutabréfunum. Hún sagði jafnframt að félagið væri skuldlaust við Kaupþing. „Þessi kaup voru sannarlega kláruð,“ sagði Telma, og sagðist hafa kvittanir því til staðfestingar.

Rökstuddur grunur er skilyrði
Í tengslum við rannsókn embættis sérstaks saksóknara fóru fram húsleitir á tíu stöðum í dag og síðastliðinn þriðjudag, að undangengnum úrskurðum Héraðsdóms Reykjavíkur. Með húsleitunum geta rannsakendur haldlagt gögn og muni sem kunna að skipta máli fyrir rannsókn málsins, t.d tölvupósta.

Samkvæmt 3. mgr. 74. gr. laga um meðferð sakamála er skilyrði fyrir húsleit að rökstuddur grunur leiki á að framið hafi verið brot sem sætt getur ákæru og að sakborningur hafi verið þar að verki, enda séu augljósir rannsóknarhagsmunir í húfi.

Markaðsmisnotkun getur varðað allt að sex ára fangelsi 
Sýndarviðskipti, sem falla undir markaðsmisnotkun, geta varðað allt að sex ára fangelsi, samkvæmt 117. gr. laga um verðbréfaviðskipti. Um er að ræða viðskipti eða tilboð um viðskipti sem byggð eru á tilbúningi eða þar sem notuð eru einhver form blekkingar eða sýndarmennsku.

Öll form blekkingar falla undir þetta ákvæði laganna. Lögfræðingur sem Morgunblaðið ræddi við sagði að ef dregin væri upp einhver mynd af viðskiptum, þegar raunveruleikinn væri annar vegna skorts á upplýsingum, þá geti það hugsanlega fallið undir ákvæði 117. gr.  Hann sagði að ef sú staða kæmi upp að menn sem ættu í hlutabréfaviðskiptum og væru ekki að taka neina áhættu þá vekti það spurningar um hvort ekki væri nauðsynlegt að upplýsa um það, þ.e áhættuleysið.

Skilaboð send út á markaðinn
Í venjulegum hlutabréfaviðskiptum er tekin ákvörðun um kaup á grundvelli hagnaðarvonar með þeirri áhættu sem slíkum viðskiptum fylgir. Þegar fjársterkur og öflugur aðili kaupir hlutabréf skráðs félags sendir það þau skilaboð út á markaðinn að viðkomandi líti svo á að hlutabréf félagsins séu verðugur fjárfestingarkostur.

Einnig fellur það undir markaðsmisnotkun í áðurnefndu ákvæði laganna um verðbréfaviðskipti að dreifa orðrómi eða fréttum sem gefa eða eru líklegar til að gefa rangar eða misvísandi upplýsingar eða vísbendingar um fjármálagerninga, t.d. kaupsamninga, enda hafi sá sem dreifði upplýsingunum vitað eða mátt vita að upplýsingarnar voru rangar eða misvísandi.

Ekki voru gefnar upplýsingar til almennings um hvernig viðskiptin urðu til þegar kaup sjeiks Mohamed Bin Khalifa Al-Thani voru kynnt í september sl. Kaup sjeiks frá Katar á 5% eignarhlut voru á yfirborðinu mikil traustsyfirlýsing fyrir íslenskan banka, eðli málsins samkvæmt. „Við teljum að þetta sé mikil traustsyfirlýsing fyrir félagið,“ sagði Hreiðar Már Sigurðsson, þáverandi forstjóri Kaupþings, í samtali við Morgunblaðið þegar viðskiptin voru kunngjörð í september. Ekkert lá fyrir á þeim tíma um fyrirkomulag viðskiptanna og litla áhættu sjeiksins. Ekki lá fyrir að Ólafur Ólafsson hefði fjármagnað þau til helminga með láni frá Kaupþingi, án persónulegrar ábyrgðar. Það er hins vegar sjálfstætt athugunarefni hvort sú staðreynd, að þeir hafi látið hjá líða að tilkynna um tilurð viðskiptanna, falli undir áðurnefnt ákvæði um markaðsmisnotkun.

Ólafur Ólafsson
Ólafur Ólafsson
Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, og Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi …
Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, og Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri bankans. mbl.is/Brynjar Gauti
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka