Finnur Árnason, forstjóri Haga, segir að fyrirtækið kaupi auglýsingatíma hjá Ríkisútvarpinu og hafi átt ágæt samskipti við RÚV gegnum tíðina. Páll Magnússon, útvarpsstjóri, sagði í blaðaviðtali í dag, að Arion banki láti það viðgangast að svo gott sem allt auglýsingafé stærstu verslunarkeðju landsins renni óskipt til fjölmiðla 365, þvert á öll viðskiptasjónarmið.
„Þannig eru Hagar að þessu leyti reknir til hagsbóta fyrir fyrrverandi eigenda, sem er Jón Ásgeir (Jóhannesson), á kostnað núverandi eigenda, sem er Arion banki," segir Páll í viðtalinu við Viðskiptablaðið. „Á þetta horfa stjórnendur bankans eins og naut á nývirki og hafast ekki að. Þannig gengur banki undir banka hönd við að tryggja þetta einsmannseignarhald á stærsta fjölmiðlafyrirtæki landsins."
Þegar þetta var borið undir Finn Árnason, sagði hann: „Við höfum átt ágæt samskipti við RÚV í gegnum tíðina, og vonum að þau verði svoleiðis áfram, um það er ekkert meira að segja. Við erum að kaupa auglýsingar af þeim, og ég reikna með að við gerum það áfram, enda flottur fjölmiðill."
Páll gagnrýnir í viðtalinu harðlega hvernig eignarhaldi Jóns Ásgeirs á 365 er háttað og segir að af því stafi það sem menn kalli nú hinu fína nafni lýðræðishalli.
„Við skulum hafa það í huga, að fyrir hrun lét þessi tiltekni auðjöfur fyrirtæki sín bera mikið fé á tvo stærstu stjórnmálaflokka landsins, Sjálfstæðisflokk og Samfylkingu, og áhrifamikla stjórnmálamenn í þessum flokkum. Það gerði hann líklega til að öðlast einhverskonar tök á þeim og auka líkur á að þeir beittu sér fyrir ákvörðunum, sem væru honum í hag. Eignarhald á stærsta fjölmiðlafyrirtæki landsins getur verið enn betri leið til þess að öðlast slík tök á ístöðulitlum stjórnmálaflokkum og stjórnmálamönnum."