Sigurplast óskar eftir gjaldþrotaskiptum

Stjórn iðnfyrirtækisins Sigurplasts ehf. í Mosfellsbæ óskaði í dag eftir því við héraðsdóm að fyrirtækið verði tekið til gjaldþrotaskipta. Segir í tilkynningu, að viðskiptabanki Sigurplasts hafi skorað á félagið að lýsa því yfir að það geti greitt bankanum 1,1 milljarð króna vegna láns sem upphaflega var 334 milljónir króna. Slíkt sé útilokað.

Sigurplast er 50 ára gamalt iðnfyrirtæki og framleiðir meðal annars plastumbúðir. Hjá fyrirtækinu hafa starfað 17 manns. Tryggvi Agnarsson, lögmaður, hefur að undanförnu fjallað um mál fyrirtækisins í fjölmiðlum án þess að nefna nafn þess. Hann sagði m.a. í fréttum Ríkisútvarpsins 6. september, að Arion banki beitti bolabrögðum til að komast yfir rekstur fyrirækja sem séu lífvænleg.

Starfsfólki fyrirtækisins var sagt frá ósk Sigurplasts um gjaldþrotaskipti í hádeginu í dag og að því loknu var slökkt á öllum vélum, síðustu sendingar til viðskiptavina afgreiddar og fólkið fór heim.

Í tilkynningu frá Sigurplasti segir, að það ráði ekki við afborganir af stökkbreyttum ólöglegum gengisbundnum lánum. Niðurstaða Hæstaréttar um vexti af þessum lánum og yfirlýsing viðskiptaráðherra í kjölfarið um að væntanleg lagasetning muni ekki ná til fyrirtækja sé kornið sem fyllti mælinn. Þetta þýði að greiðslubyrði lánanna myndi að minnsta kosti tvöfaldast.

Í ljósi þessa séu ekki lengur forsendur til að reka Sigurplast, þrátt fyrir að félagið hafi stóraukið veltu sína á síðastliðnum fjórum árum, sé vel rekstrarhæft og hafi skilað hagnaði frá rekstri öll árin frá því lánin voru tekin.

Segir í tilkynningunni, að eigendur Sigurplasts hafi frá hruni reynt að ná samkomulagi við viðskiptabanka sinn um áframhaldandi rekstur en án árangurs. Hafi forsvarsmenn félagsins boðið bankanum að standa við upphaflegan höfuðstól lána reiknað í íslenskum krónum.  Nú sé ljóst að eigendur og bankinn tapi miklum verðmætum. Ekki þurfi að fjölyrða um áhrifin á starfsfólk fyrirtækisins, sem hafi margt hvert starfað hjá því áratugum saman.
 
Þá vilja forráðamenn Sigurplasts taka fram, að félagið sé í fullum skilum með opinber gjöld, laun og launatengd gjöld. Aðrar skuldir en við lánastofnanir séu óverulegar.


mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka