Jón Ásgeir Jóhannesson hefur sent frá sér athugasemd vegna fréttar Sjónvarpsins í gærkvöldi um málefni verslunarkeðjunnar Iceland sem er ein þeirra eigna sem bankarnir eignuðust að miklu leyti vegna gjaldþrots Baugs.
„Ég hafna með öllu framsetningu Svavars Halldórssonar í frétt í RUV í kvöld þar sem hann hefur eftir einhverjum huldumanni, að viðskipti með Iceland Foods hafi verið ,,skítaflétta”.
Síðan Iceland var keypt á árinu 2005 hefur það greitt íslenskum fjárfestum, þar á meðal Landsbanka Íslands um 67 milljarða króna í arð. Þrátt fyrir það er hlutafé félagsins í dag metið á 200-250 milljarða, en skilanefnd Landsbanka Íslands hf. hafnaði nú nýverið tilboði í félagið upp á 1 milljarð punda. É
g þori að fullyrða að þessi eign er verðmætasta eign gömlu bankanna og mun greiða hátt í þriðjung af IceSave gati Landsbankans. Enginn mun tapa á þessari fjárfestingu, því Iceland er eitt verðmætasta félag í einkaeigu í Bretlandi.
Ástæða er til að taka fram að 15 bankar komu að endurfjármögnun á Iceland. Allt það fé sem Iceland Foods tók að láni hefur verið greitt til baka. Það geta íslensku bankarnir staðfest en Deutsche Bank var einn þeirra banka sem leiddi endurfjármögnunina á sínum tíma.
Í framsetningu fréttamannsins stendur ekki steinn yfir steini. Það kemur svo sem ekki á óvart þegar þessi fréttamaður á í hlut. Það sem hann reynir að gera tortryggilegt er, að árið 2008 samþykkti Baugur að láta af hendi hluti í Iceland Foods til viðskiptabanka sinna til að lækka skuldir, sem höfðu hækkað vegna falls íslensku krónunnar. Engir fjármunir fóru út úr bönkunum vegna þessa. Að kalla það,,skítafléttu“, krefst ákveðins hugarfars, sem á ekki heima á fréttastofu RUV.
Þess má geta, að fyrr á þessu ári líkti yfirmaður útbús Landsbankans í London Iceland Foods við seðlaprentunarvél. Og eins kom fram í Fréttablaðinu fyrir stuttu hafnaði Skilanefnd Landsbankans 200 milljarða tilboði í félagið. Áætluð EBITDA Iceland Foods á þessu rekstrarári eru um 37 milljarðar og félagið er skuldlaust. Kaupin á Iceland Foods hafa oft verið nefnd næst bestu kaup Bretlandssögunnar í verslun á eftir kaupunum á Arcadia" segir Jón Ásgeir í athugasemd.