Pétur Eiríksson fæddist 21. október 1937 í Dresden í Þýskalandi. Pétur lést 1. ágúst 2024 á Landakoti.

Foreldar hans voru Salóme Þ. Nagel (1897-1979) og dr. Erich Nagel (1886-1947).

Pétur var áður giftur Helgu Bahr. Dætur þeirra eru: Kristín Hjördís, f. 13.8. 1964, gift Thomasi Lesch, þau eiga dæturnar Mareni, f. 12.12. 1996, maki hennar er Fabian Frank og Köru, f. 3.4. 1999, gift Maik Perius. Signý Gyða, f. 6.3. 1969, sem á dótturina Söru Melissu, f. 2.2. 2011. Laila Sæunn, f. 13.1. 1975, sem er trúlofuð Brynjari Ingvarssyni. Pétur var kvæntur Marinu Droujinina (2001-2003) og Ednu M. Vasquez 2007. Hann sótti um lögskilnað frá Ednu í vor.


Foreldrar Péturs ráku tungumálaskóla í Leipzig 1929-1945. 1945 flúðu þau til Hamborgar. Erich féll frá 1947 og sama ár flutti Salóme með Pétur til Íslands. Mæðginin fluttu á heimili stórfjölskyldunnar að Bókhlöðustíg 2. Pétur gekk í Austurbæjarskóla og Menntaskólann í Reykjavík. Hann lauk stúdentsprófi frá MR 1957 og útskrifaðist sem hagfræðingur úr Freie Universität í Berlín 1963. Á þessum tíma var verið að byggja Berlínarmúrinn. Pétur ásamt nokkrum félögum sínum tóku á það ráð að hjálpa til við að smygla fólki frá austur til vestur Berlínar. Þeir náðu að bjarga fjöldanum öllum af fólki.

Eftir nám var Pétur fulltrúi og síðar deildarstjóri áætlunardeildar Efnahagsstofnunar 1963-1970 og kynnti sér áætlanagerð hjá Alþjóðabankanum í Washington D.C. 1968. Síðar varð Pétur skrifstofustjóri Álafoss h.f. 1970, aðstoðarframkvæmdastjóri þar 1971 og forstjóri þar 1974-1986. Eftir að Pétur hætti störfum hjá Álafossi stofnaði hann ásamt fleirum inn- og útflutningsfyrirtækið M.A. Eiríksson h.f. sem sýslaði með verslun á íslenskum lopa- og gjafavörum fyrir ferðamenn. Heildsöluna rak hana til 2006 þegar hann hætti störfum.

Pétur var mikill námshestur og fannst gaman að læra nýja hluti. Hann lagði stund á skógrækt og var iðinn við skák. Pétur sat í stjórn Taflfélags Reykjavíkur og Skáksambands Íslands um árabil, í stjórn Félags íslenskra iðnrekenda 1977-87, í stjórn Útflutningsmiðstöðvar iðnaðarins 1979-83 og gengdi fjölda annarra stjórnar- og nefndarstarfa. Hann skrifaði að auki fjölda tímaritsgreina um efnahags- og iðnaðarmál sem og sagnfræðitengdar greinar. Pétur útskrifaðist með BA í sagnfræði frá HÍ 2006 og með MA í sagnfræði frá HÍ 2014 og gaf út bókina Þýska landnámið árið 2008.

Pétur var mikill tungumálamaður og þótti einstaklega gaman að ferðast. Hann fór í Leiðsögumannaskólann og útskrifaðist þar árið 2007 þá 70 ára gamall. Hann ferðaðist um landið með ferðamenn og sagði þeim allt um land, þjóð og sögu á hinum ýmsu tungumálum svo sem ensku, þýsku, spænsku og dönsku. Dætur hans vita að hann hefur verið mjög góður leiðsögumaður því þegar þær voru ungar fengu þær að þeysast með honum um landið.


Pétur verður jarðsungin í dag, 20. ágúst 2024, kl. 13 frá Fríkirkjunni í Hafnarfirði.

Elsku pabbi okkar, Pétur Eiríksson, er fallinn frá. Við dætur hans viljum gjarnan minnast hans með því að skrifa brot af æviágripi hans.

Pabbi fæddist í 21. október 1937 í Dresden í Þýskalandi rétt fyrir seinni heimsstyrjöld. Móðir hans var Salóme Þ. Nagel (1897-1979) og faðir dr. Erich Nagel (1886-1947). Þau ráku tungumálaskóla í Leipzig frá árinu 1929 til 1945. Árið 1945 flúðu þau til Hamborgar og bjuggu þar næstu tvö ár þar sem afi tók að sér kennslu í einkatímum og fjölskyldan leið hörmungar eftirstríðsáranna. Þau vildu öll komast til Íslands en amma hafði fengið boð um að koma heim til Íslands með pabba en hún vildi ekki skilja mann sinn eftir. Erfitt var á þessum tíma að fá landvistarleyfi fyrir Þjóðverja svo þau ákváðu að vera um kyrrt í Hamborg að bíða saman. Afi féll hins vegar frá stuttu áður en leyfið barst. Hann andaðist í febrúarmánuði 1947 og sama ár fluttu mæðginin heim til Íslands þar sem fjölskyldan og vinir tóku á móti þeim hér heima.

Þegar pabbi kom til Íslands kunni hann ekki stakt orð í íslensku þar sem amma hafði ekki þorað að kenna honum íslensku í ljósi aðstæðna í Þýskalandi þar sem þau hefðu getað verið handtekin. Við tók því íslenskukennsla á heimili þeirra á Bókhlöðustíg 2 þar sem Ragnheiður Bjarnadóttir amma hans og frænkur voru iðnar við að hjálpa til. Pabbi var þó snöggur að læra íslenskuna þó að þýska hreimsins gætti alla tíð. Hann gekk í Austurbæjarskóla og undi sér þar vel og fór svo í Menntaskólann í Reykjavík. Hann sagði alltaf að hann hefði alltaf vaknað bara við skólabjölluna og hlaupið þá í skólann, sem var við hliðina á heimili hans. Bekkjarbræður hans í MR hittast reglulega enn þann dag í dag og þótti pabba ætíð gaman og vænt um þessa hittinga.

Pabbi lauk stúdentsprófi frá MR árið 1957 og hélt þá af landi brott og lagði stund á nám í þjóðhagfræði við Georg-August-Universität í Göttingen 1957-58 og svo Freie Universität í Berlín 1958-1963 þar sem hann útskrifaðist með Diplom Volkswirt-gráðu. Hann var einnig löggiltur skjalaþýðandi. Pabbi naut námsins og að ferðast um Evrópu og lagði meira að segja af stað í hjólaferð frá Þýskalandi til Ítalíu með þremur öðrum námsmönnum. Á þessum tíma var verið að byggja Berlínarmúrinn til að afmarka austrið frá vestrinu. Sú aðgerð hófst árið 1961. Pabbi, ásamt nokkrum félögum sínum í háskólanum, tók á það ráð að hjálpa til við að smygla fólki frá Austur- til Vestur-Berlínar. Einn sá um að falsa pappíra, hinir, þar á meðal pabbi, fóru reglulega til austursins að þjálfa fólkið svo það myndi ekki lenda í vandræðum ef það yrði spurt. Að lokum fór pabbi með pappírana í leynihólfi í bílnum sínum til austursins, afhenti þá og þau sem voru að flýja fóru svo í lest til Vestur-Berlínar. Þeir félagarnir náðu að bjarga fjölda manns, meðal annars á þennan máta. Eitt skiptið skiptu pabbi og annar á vöktum og það afdrifaríka kvöld var hópurinn handtekinn. Það var njósnari á heimavistinni þeirra sem sagði til þeirra og pabbi komst á svartan lista hjá Stasi og gat ekki farið aftur til Austur-Þýskalands fyrr en eftir hrun Berlínarmúrsins.

Í Berlín kynntist pabbi fyrrverandi eiginkonu sinni, Helgu Bahr, f. 1938. Hann á með henni þrjár dætur, þær eru: 1) Kristín Hjördís, f. 13. ágúst 1964, gift Thomasi Lesch, saman eiga þau dæturnar Maren, f. 12.12. 1996, sambýlismaður hennar er Fabian Frank, og Köru, f. 3.4. 1999, gift Maik Perius. 2) Signý Gyða, f. 6. mars 1969, sem á dótturina Söru Melissu, f. 2.2. 2011. 3) Laila Sæunn, f. 13. janúar 1975, trúlofuð Brynjari Ingvarssyni. Pabbi var kvæntur Marinu Droujinina 2001-2003 og Ednu M. Vasquez 2007. Hann sótti um lögskilnað frá Ednu í vor.

Eftir námið var pabbi fulltrúi og síðar deildarstjóri áætlunardeildar Efnahagsstofnunar, þ.e. árin 1963-1970, og kynnti sér áætlanagerð hjá Alþjóðabankanum í Washington DC árið 1968. Síðar varð hann skrifstofustjóri Álafoss hf. árið 1970, aðstoðarframkvæmdastjóri þar frá 1971 og forstjóri sama fyrirtækis árin 1974-1986. Eftir að pabbi hætti störfum hjá Álafossi stofnaði hann ásamt fleirum inn- og útflutningsfyrirtækið M.A. Eiríksson hf. sem sýslaði með verslun á íslenskum lopavörum og gjafavörum fyrir ferðamenn. Heildsöluna rak hana til ársins 2006 þegar hann hætti störfum.

Pabbi var mikill námshestur og fannst gaman að læra nýja hluti. Hann ákvað til dæmis einn daginn að helga sig skógrækt og upphófst tímabil sáninga og græðlinga heima fyrir í öllum gluggakistum heimilisins og á endingu varð að kaupa landskika við Hafravatn til að koma plöntunum fyrir. Hann var iðinn við skák og tefldi meðal annars á Lækjartorgi þegar stóru taflmennirnir voru dregnir út á hátíðarstundum. Pabbi sat í stjórn Taflfélags Reykjavíkur og Skáksambands Íslands um árabil, sat í stjórn Félags íslenskra iðnrekenda 1977-87, var í stjórn Útflutningsmiðstöðvar iðnaðarins árin 1979 til '83 og gegndi fjölda annarra stjórnar- og nefndarstarfa. Hann skrifaði að auki fjölda tímaritsgreina um efnahags- og iðnaðarmál. Síðar skrifaði hann einnig sagnfræðitengdar greinar og gaf út bók en hann ákvað í kringum eftirlaunaárin að skrá sig í sagnfræði í Háskóla Íslands.

Pabbi útskrifaðist með BA í sagnfræði frá HÍ árið 2006 með lokaverkefnið: Frá Memel til Melrakkasléttu: uppruni, afdrif og aðlögun þýsks landbúnaðarverkafólks sem flutt var til Íslands af Búnaðarfélagi Íslands árið 1949. Verkefnið snerist um að skrásetja sögur aðallega fólks sem kom frá Þýskalandi eftir stríðsárin til vinnu á Íslandi og þótti honum afar mikilvægt að þessar sögur yrðu skrásettar áður en að um seinan væri. Út frá þessu verkefni gaf hann út bókina Þýska landnámið árið 2008. Hann hélt svo áfram í námi og útskrifaðist með MA í sagnfræði frá HÍ árið 2014. Útskriftarverkefni hans var: Mikilvægi Íslandsverslunarinnar fyrir Hamborg á 15. og 16. öld og dvaldi pabbi í Hamborg í um hálft ár við heimildaleit þar.

Pabbi var mikill tungumálamaður og þótti einstaklega gaman að ferðast. Það var jafnan keppni á milli hans og okkar dætranna til hversu margra landa hver um sig hafði komið. Hann sagði meðal annars fyrir stuttu frá því að hann hefði til dæmis stokkið niður tröppur flugvélar í Íran og sett tána niður á jörðina til að geta talið Íran með öllum hinum löndunum sem hann hafði komið til. Pabbi lærði sjálfur grunn í rússnesku til að selja ullarvörur frá fyrirtækinu sínu um borð í skemmtiferðaskip sem voru með rússneskar áhafnir. Árið 1996 skellti hann sér í spænskunám til Suður-Ameríku og fór í bakpokaferðalag um Ekvador, þá 59 ára gamall. Hann fór einnig í leiðsögumannaskólann og útskrifaðist þaðan 2007 þá 70 ára gamall. Hann ferðaðist um landið með ferðamenn og sagði þeim allt um land, þjóð og sögu á hinum ýmsu tungumálum svo sem ensku, þýsku, spænsku og dönsku. Við dætur hans vitum að hann hefur verið mjög góður leiðsögumaður því þegar við vorum ungar fengum við að þeysast með honum um landið og hafði hann mjög gaman af að segja okkur sögur af hverjum einasta stokk og steini.

En nú er komið að leiðarlokum hjá elsku pabba okkar. Við þökkum honum allar fyrir að hafa leitt okkur í gegnum lífið á einn eða annan hátt og fyrir öll ævintýrin.

Við vitum að hann á eftir að hafa það gott í sumarlandinu með öllum þeim sem eru farnir á undan honum og hlökkum til að sjá hann þar síðar.

Við elskum þig pabbi!

Þínar dætur,

Kristín, Signý og Laila.