Húsnæðisliðurinn hefur valdið því að mæld verðbólga er hærri og á tímabilum verulega hærri en verðbólga að öðru leyti

Efnahagsmál

Óttar Guðjónsson

Hagfræðingur

Nú ber svo við að aftur er orðinn verulegur munur á mælingum verðbólgu með og án húsnæðisliðar. Síðustu tólf mánuði mældist verðbólga með húsnæði 6,0% og verðbólga fyrir utan húsnæði 3,6%. Þarna munar 2,4% sem vill svo til að er nánast sama tala og markmið Seðlabankans um verðbólgu í heild. Það er því þannig að ef verðbólga ætti að vera á markmiði þá þyrfti almennt verðlag að standa í stað.

Sögulegt samhengi

Í yfirlýsingu um verðbólgumarkmið frá 2001 sammæltust Seðlabankinn og ríkisstjórnin um að „Seðlabankinn mun stefna að því að árleg verðbólga, reiknuð sem hækkun vísitölu neysluverðs á 12 mánuðum, verði að jafnaði sem næst 2½%“.

...