— AFP/Tatan Syuflana

Frans páfi hóf í gær opinbera heimsókn sína til Indónesíu, en hann varð þar með þriðji páfinn í sögunni til þess að heimsækja landið og sá fyrsti frá því að Jóhannes Páll 2. heimsótti það árið 1989. Frans, sem er 87 ára, mun heimsækja Papúa Nýju Gíneu, Austur-Tímor og Singapúr á næstu dögum.

Frans fundaði með Joko Widodo Indónesíuforseta og flutti svo ávarp, þar sem hann sagði kaþólsku kirkjuna vilja styrkja samtal á milli mismunandi trúarbragða. Sagði páfinn að öfgamenn nýttu sér oft trúarbrögð til þess að reyna að troða skoðunum sínum upp á aðra með blekkingum.

Widodo tók undir með Frans páfa og sagði að Indónesar vildu vinna með Páfagarði í að auka frelsi og umburðarlyndi í sífellt órólegri veröld.