Íslenska liðið sýndi jafna og heilsteypta frammistöðu gegn Svartfjallalandi í gærkvöld. Það hélt nokkurn veginn sama dampi allan leikinn, spilaði af ákveðni og krafti, pressaði mótherjana vel og hélt jafnframt boltanum virkilega vel á löngum köflum.

Jóhann Berg Guðmundsson fyrirliði fór fyrir sínum mönnum með góðu fordæmi og var á fullri ferð á miðjunni frá fyrstu mínútu til síðustu. Reynsla hans og klókindi eru liðinu ákaflega dýrmæt.

Stefán Teitur Þórðarson var öflugur aftast á miðjunni og lék einn sinn besta landsleik. MIðvarðaparið, Daníel Leó Grétarsson og Hjörtur Hermannsson, steig varla feilspor, Hákon Rafn var afskaplega öruggur í markinu og þessi hryggjarsúla í liðinu var ákaflega sterk.

Åge Hareide kom að ýmsu leyti á óvart í uppstillingu sinni á liðinu en segja má að allt hafi gengið upp hjá honum. Hann var greinilega að hvíla reynda leikmenn á borð við Guðlaug Victor Pálsson og Arnór Ingva Traustason fyrir leikinn í Tyrklandi, ásamt því að taka

...