Sinfóníuhljómsveit Íslands heldur tvenna tölvuleikjatónleika þar sem farið verður í „stórkostlegt ferðalag um fjarlæga framtíð, vandasöm völundarhús, töfraheima og hamfaraveröld í gegnum magnaða tónlist úr tölvuleikjum“, eins og segir í tilkynningu. Tónleikarnir fara fram á föstudag 13. september kl. 20 og laugardaginn 14. september kl. 16. Tölvuleikjatónskáldið og hljómsveitarstjórinn Eímear Noone stýrir sveitinni en Söngsveitin Fílharmónía tekur einnig þátt í flutningnum undir stjórn Magnúsar Ragnarssonar.