Hugarflug, rannsóknarráðstefna Listaháskóla Íslands, verður haldin á föstudag, 13. september. Þema ráðstefnunnar í ár er: „Listrannsóknir: Hin skynræna þekking“. „Rannsakendur beina sjónum í síauknum mæli að listamönnum og hvernig þeir nálgast viðfangsefni sín. Það innsæi og sú skapandi hugsun sem listsköpun krefst hefur reynst árangursrík viðbót við staðlaðar aðferðir raunvísinda,“ segir í tilkynningu.

Lykilfyrirlesari er Stuart Walker, stjórnandi sjálfbærrar hönnunar í hönnunardeild Manchester Metropolitan-háskóla. Fulltúar fjölbreyttra list- og hugvísindagreina bjóða síðan upp á þverfaglegar málstofur og erindi. Ráðstefnan fer fram í nýju húsnæði skólans í Hamri, Stakkahlíð 1. Dagskráin hefst kl. 9.20 og lýkur kl. 17. Nánari upplýsingar má finna á lhi.is.