JÓT nefnist nýtt djasstríó sem heldur tónleika í Kaldalóni Hörpu í kvöld, föstudag, kl. 20. Tríóið skipa Óskar Guðjónsson saxófónleikari, Thomas Morgan bassaleikari og Jorge Rossy, trommu-, vibrafóna- og marimba- og píanóleikari. „JÓT er tríó sem sameinar hæfileika, reynslu og persónuleika þessara þriggja framúrskarandi tónlistarmanna. Tríóið rannsakar möguleika djasstónlistar með sköpunargáfu og gleði og býður hlustendum að fylgja sér á tónlistarferð sem er bæði ævintýraleg og heillandi.“ Miðar fást í Hörpu og á tix.is.