Lögreglulið í Kongó hjálpar til.
Lögreglulið í Kongó hjálpar til.

Minnst 78 eru sagðir látnir eftir að ferju hvolfdi á Kivu-vatni í Afríkuríkinu Kongó. Báturinn átti einungis nokkur hundruð metra ófarna í land þegar slysið átti sér stað, en nærri 300 voru um borð. Óttast er að tala látinna eigi eftir að hækka enn frekar.

Sjónarvottur segir ferjuna hafa tekið að hallast skömmu áður en henni hvolfdi endanlega. Fljótlega eftir það hvarf hún undir yfirborðið. Tildrög slyssins eru óljós en ferju- og bátaslys eru ekki óalgeng á þessum slóðum.

Sama vitni, sem breska ríkis­útvarpið (BBC) ræddi við, segir suma hafa komist í land og einhverjir hafi verið fluttir undir læknishendur. Björgunarmönnum er þó gert erfitt fyrir því sjaldnast er haldin farþega­skrá og því í raun óljóst hversu margir voru um borð.