Listahátíð Listar án landamæra verður sett á morgun, föstudaginn 11. október, kl. 17-19 í Opnu húsi hátíðarinnar á Hverfisgötu 94. Hátíð Listar án landamæra fer fram allan októbermánuð og lýkur með listmarkaði í byrjun nóvember. List án landamæra stendur fyrir inngildingu fatlaðs fólks í menningu á Íslandi. Fjölmargt listafólk hátíðarinnar sýnir verk sín á listasöfnum víðs vegar á höfuðborgarsvæðinu en auk þess verða tónleikar í Salnum í Kópavogi og frumflutningur á dansverkinu Svörtum fuglum í Tjarnarbíói. Dagskrána má nálgast á heimasíðu hátíðarinnar, listin.is, og á Facebook.